„Við göngum óbundin til kosninga“ er fyrir löngu orðin ein lífseigasta klisja íslenskrar stjórnmálaumræðu. Forystumenn stjórnmálaflokka hafa um árabil notað hana sem svar við spurningum um hvaða stjórnarmynstur þeir sjái fyrir sér eða óski sér helst að loknum alþingiskosningum. Með því hafa þeir leitast við að halda sem flestum möguleikum opnum en um leið leynt kjósendur fyrirætlunum sínum. Gengið laumulega til kosninga.
Framboð til Alþingis leitast í aðdraganda kosninga við að afla sér fylgis út á stefnu sína, gjörðir eða frambjóðendur. En til að auka líkur á að kosningaloforð verði efnd þarf viðkomandi flokkur að komast í ríkisstjórn. Hér á landi er hefð fyrir samsteypustjórnum og nú benda kannanir til þess að til að mynda megi meirihlutastjórn að loknum kosningum þurfi a.m.k. þrjá flokka, jafnvel fleiri. Líkindi á að stefnumál einstakra flokka fái framgang velta ekki aðeins á því hve einbeittir flokksmenn eru að framfylgja þeim heldur líka hversu vel eða illa þau samrýmist stefnu mögulegra samstarfsflokka – komist viðkomandi flokkur að ríkisstjórnarborðinu.
Það á að vera sjálfsögð krafa kjósenda að forystumenn stjórnmálaflokkanna lýsi því með afdráttarlausum hætti fyrir kjördag hvaða stjórnarmynstur sé þeirra fyrsti kostur fái viðkomandi flokkar nægt fylgi til að mynda stjórn. Þó fylgi framboða eins og það mælist í skoðanakönnunum sé jafnan á hreyfingu allt fram til kjördags eru þær breytingar sjaldnast svo miklar, einkum þegar nær dregur, að þær gefi ekki nokkuð skýra vísbendingu um þingstyrk flokka. Kosningaloforð verða ærið léttvæg ef að loknum kjördegi er valið er að ganga til samstarfs við flokka með gjörólíka stefnu og loforðin víki þannig fyrir valdsækinni tækifærismennsku – einu helsta einkenni íslenskra stjórnmála.
Þó ég voni að látið verði af þeirri leyndarhyggju sem hér hefur verið rætt um er ég hóflega bjartsýnn. Líklegt verður að teljast kosningabaráttan nú fái kunnuglegt yfirbragð, hvað þetta snertir, þar sem leyndin yfir fyrirætlunum forystumanna flokkanna verður ríkjandi. Að loknum kosningum hefjist svo hið hefðbundna hindrunarhlaup formanna þar sem markmiðið er að komast fyrst yfir Sjalla-bláa vegginn sem umlykur stjórnarráðshúsið að austanverðu og hljóta að launum sæti við ríkisstjórnarborðið úr hendi formanns Sjálfstæðisflokksins – þess eina af flokksleiðtogunum sem þarf ekki að taka sprettinn heldur getur beðið rólegur þess að hinir hlaupi til hans.
Höfundur er sagnfræðingur.