Gengið laumulega til kosninga

Hrafnkell Lárusson segir að það eigi að vera sjálfsögð krafa kjósenda að vita hvaða stjórnarmynstur sé fyrsti kostur forystumanna stjórnmálaflokka fái þeir nægjanlegt fylgi til að mynda stjórn.

Auglýsing

„Við göngum óbundin til kosninga“ er fyrir löngu orðin ein lífseigasta klisja íslenskrar stjórnmálaumræðu. Forystumenn stjórnmálaflokka hafa um árabil notað hana sem svar við spurningum um hvaða stjórnarmynstur þeir sjái fyrir sér eða óski sér helst að loknum alþingiskosningum. Með því hafa þeir leitast við að halda sem flestum möguleikum opnum en um leið leynt kjósendur fyrirætlunum sínum. Gengið laumulega til kosninga. 

Framboð til Alþingis leitast í aðdraganda kosninga við að afla sér fylgis út á stefnu sína, gjörðir eða frambjóðendur. En til að auka líkur á að kosningaloforð verði efnd þarf viðkomandi flokkur að komast í ríkisstjórn. Hér á landi er hefð fyrir samsteypustjórnum og nú benda kannanir til þess að til að mynda megi meirihlutastjórn að loknum kosningum þurfi a.m.k. þrjá flokka, jafnvel fleiri. Líkindi á að stefnumál einstakra flokka fái framgang velta ekki aðeins á því hve einbeittir flokksmenn eru að framfylgja þeim heldur líka hversu vel eða illa þau samrýmist stefnu mögulegra samstarfsflokka – komist viðkomandi flokkur að ríkisstjórnarborðinu. 

Það á að vera sjálfsögð krafa kjósenda að forystumenn stjórnmálaflokkanna lýsi því með afdráttarlausum hætti fyrir kjördag hvaða stjórnarmynstur sé þeirra fyrsti kostur fái viðkomandi flokkar nægt fylgi til að mynda stjórn. Þó fylgi framboða eins og það mælist í skoðanakönnunum sé jafnan á hreyfingu allt fram til kjördags eru þær breytingar sjaldnast svo miklar, einkum þegar nær dregur, að þær gefi ekki nokkuð skýra vísbendingu um þingstyrk flokka. Kosningaloforð verða ærið léttvæg ef að loknum kjördegi er valið er að ganga til samstarfs við flokka með gjörólíka stefnu og loforðin víki þannig fyrir valdsækinni tækifærismennsku – einu helsta einkenni íslenskra stjórnmála. 

Auglýsing
Undanfarin ár hefur verið almenn krafa í íslensku samfélagi um aukið gagnsæi á sem flestum sviðum, ekki síst í stjórnmálum. Sá plagsiður íslenskra stjórnmálaleiðtoga að neita að gefa upp afstöðu sína til þess hvaða samsetning ríkisstjórnar hugnist þeim helst er leyndarhyggja sem er í augljósri andstöðu við kröfuna um gagnsæi. Ég vona að fjölmiðlafólk sem fjallar um kosningarnar gangi ákveðnar en áður eftir opinberum svörum frá stjórnmálaleiðtogunum um hvert hugur þeirra stefnir í þessum efnum og að kjósendur greiði ekki atkvæði þeim framboðum sem reyna enn á ný að leyna þá fyrirætlunum sínum. Það þarf engum að koma í hug að ekki sé farið að huga að mögulegu stjórnarsamstarfi fyrr en búið er að telja atkvæði. Svo skammsýnir eru íslenskir stjórnmálaleiðtogar ekki.   

Þó ég voni að látið verði af þeirri leyndarhyggju sem hér hefur verið rætt um er ég hóflega bjartsýnn. Líklegt verður að teljast kosningabaráttan nú fái kunnuglegt yfirbragð, hvað þetta snertir, þar sem leyndin yfir fyrirætlunum forystumanna flokkanna verður ríkjandi. Að loknum kosningum hefjist svo hið hefðbundna hindrunarhlaup formanna þar sem markmiðið er að komast fyrst yfir Sjalla-bláa vegginn sem umlykur stjórnarráðshúsið að austanverðu og hljóta að launum sæti við ríkisstjórnarborðið úr hendi formanns Sjálfstæðisflokksins – þess eina af flokksleiðtogunum sem þarf ekki að taka sprettinn heldur getur beðið rólegur þess að hinir hlaupi til hans. 

Höfundur er sagnfræðingur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdragandi alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar