Við getum verið stolt af mörgu í lífeyrissjóðakerfinu okkar og að óbreyttu munu næstu kynslóðir njóta þess að kerfið er öflugt og jafnframt hafa verið stigin skref í þá átt að jafna lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera markaðarins. Með því að hækka inngreiðslur úr 12% í 15,5% á að nást jafnvægi milli þessara hópa og mikilvægt að löggjöf um lífeyrismál verði uppfærð og taki mið af þeim kjarasamningum sem samþykktir hafa verið í þessu skyni.
Gangi allar fyrirætlanir eftir munu framtíðar lífeyrisþegar geta vænst þess að fá 72% af meðaltali ævitekna sinna í lífeyrir sem er gott plan fyrir yngri kynslóðir sem eru greiðandi sjóðsfélagar en bætir í engu hlut þeirra sem í dag eru að fá lífeyri úr sínum sjóðum á almenna markaðnum og hafa af margvíslegum ástæðum ekki náð að ávinna sér réttindi úr sínum lífeyrissjóðum sem duga til lágmarksframfærslu þrátt fyrir langa starfsævi á vinnumarkaði. Samanburður íslenska lífeyriskerfisins við önnur lönd sem miða við framreikning þeirra sem nú eru að hefja störf á vinnumarkaði er þannig ekki að gangast þeim sem nú eru komnir á eftirlaun en gefur vísbendingu um að kerfið muni í framtíðinni verða sjálfbært.
Eftirlaun eldri borgara byggja á þremur stoðum: Almannatryggingakerfinu sem er greitt af ríkissjóði(TR), greiðslum úr lífeyrissjóði sem eru tengdar áunnum réttindum og séreignasparnaði hvers og eins. Nýlegt og nöturlegt dæmi um hvernig þessi kerfi eru ekki að vinna saman er að Lífeyrissjóður verslunarmanna(LIVE) hækkaði greiðslur til sinna félaga sem fá lífeyrisgreiðslur um 10% frá síðustu áramótum.
Hækkunin er tilkomin vegna sterkrar stöðu sjóðsins og í samræmi við þau lög sem sjóðurinn starfar eftir og besta mál fyrir sjóðsfélaga nema það að þeir fá ekki að njóta nema að litlu leyti þess að fá 10% hækkun þar sem Tryggingarstofnun skerðir strax sínar greiðslur þannig að af hverjum 10 þúsund kr sem sjóðurinn greiðir til sjóðsfélaga standa aðeins eftir um 2 þúsund krónur. Þetta skiptir verulegu máli fyrir þann hóp sjóðsfélaga sem hefur ekki áunnið sér réttindi sem duga til framfærslu.
10% hækkun á lífeyri hjá LIVE skerðir greiðslur frá TR yfir 70%
Staðan er sem sagt þannig að hækkun lífeyris til félagsmanna LIVE bætir ekki hag sjóðsfélaga nema að litlu leyti þar sem TR lækkar strax sína uppbót og skeytir í engu hvort um sé að ræða heildargreiðslur undir framfærsluviðmiðum. Hér er komið enn eitt dæmið um hvernig kerfin sem eiga að standa vörð um hagsæld eldri borgara eru ekki að tala saman og mikilvægt að fulltrúar stjórnvalda axli ábyrgð á því að leiðrétta þetta misræmi þannig að framfærsla eftir starfslok verði viðunandi og ekki undir framfærsluviðmiðum fyrir stóra hópa sem komnir eru á eftirlaun eins og staðan er núna.
Eldri borgarar eiga fullan rétt á því að vera þátttakendur í samfélaginu og geta lagt mikið af mörkum en þeir þurfa eins og aðrir að geta framfleytt sér. Með því að tryggja lágmarksframfærslu þessa hóps stuðlum við að því að önnur markmið um heilsueflingu og félagslega virkni nái fram að ganga. Miðað við opinber markmið um lágmarksframfærslu er um þriðjungur eldri borgara með samanlagðan lífeyri undir þessum viðmiðum og þrátt fyrir öflugan málflutning Gráa hersins og fleiri hagsmunasamtaka fyrir hönd þessa hóps hefur ekki náðst að leiðrétta kjör þeirra. Það verkefni bíður nýrrar ríkisstjórnar sem er vonandi með skýr markmið þess efnis í sínum stjórnarsáttmála.
Höfundur er bókari og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði – og stjórnarmaður í VR og LIVE.