Ákvörðun stjórnvalda um að setja tvo milljarða í að aðstoða flóttamenn og styrkja ferla sem snúa að þjónustu við hælisleitendur er til marks um stjórnvöld taki nær fordæmalausan vanda alvarlega og ætli að leggja sitt af mörkum. Ekki eru nema þrjár vikur síðan stjórnvöld stefndu að því að taka á móti 50 flóttamönnum, en með mikilli opinberri umræðu og upplýsingum um þann gríðarlega vanda sem hátt í 25 milljónir manna, sem flúið hafa stríðshrjáð svæði Sýrlands, Íraks og Afganistan, standa frammi fyrir, þá breyttust áformin.
Á tiltölulega skömmum tíma, innan við þremur vikum, hafa stjórnvöld ákveðið að margfalda aðstoðina frá því sem áður hafði verið ákveðið, og eiga þau hrós skilið fyrir það. Það flóknasta er vitaskuld eftir, sem er framkvæmdin á málinu öllu og góð og mannúðleg móttaka fyrir flóttamennina sem hingað munu koma og hefja nýtt líf.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði vandann umfangsmikinn, en að Ísland myndi leggja sitt af mörkum og að sú aðstoð gæti jafnvel orðið öðrum þjóðum fyrirmynd. „Með starfi nefndarinnar og fjölda fólks sem er búið að aðstoða okkur í þessari vinnu, bæði í ráðuneytum og eins hinum ýmsu félagasamtökum, er þó búið að takast að setja saman áætlun sem við höfum mikla trú á og teljum að muni standast allan samanburð við það sem aðrar þjóðir eru að gera til þess að takast á við þetta mikla vandamál og geti jafnvel orðið öðrum hvatning,“ sagði Sigmundur Davíð, samkvæmt endursögn mbl.is.
Stjórnvöld eru með þessari framtakssemi að sýna metnað og mannúð í verki, og ljóst að ef umfang þeirrar aðstoðar sem Ísland ætlar að leggja til þessa gríðarlega mikla vanda sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir, verður í takt við það sem Sigmundur Davíð lýsir, þá má horfa til þessara ákvarðana með stolti.
Það má samt ekki gleyma því að margar þjóðir hafa nú þegar gripið til gríðarlega umfangsmikilla aðgerða til að koma til móts við flóttamenn, ekki síst þá sem hafa komist alla leið til Evrópu frá stríðshrjáðum svæðum. Ef að Ísland ætlar að taka á móti jafn mörgum hlutfallslega og Þjóðverjar hafa ákveðið að taka á móti á þessu ári, þá munu 3.247 flóttamenn koma hingað, að því er Þröstur Freyr Gylfason, stjórnmálafræðingur og ráðgjafi, nefndi á Facebook síðu sinni í gær. Ef vel á að takast til í þessu flókna máli mun reyna á samstöðu stjórnmálamanna þvert á flokkslínur og sveitarfélög, en kannski umfram allt góðan vilja til þess að rétta fram útrétta hjálparhönd til fólks í neyð.