Hið öfluga atvinnusvæði á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit á mikið undir sjálfbærri framtíð. Um miðjan maí s.l. samþykktu fyrirtæki og sveitarfélög viljayfirlýsingu um að á Grundartanga verði komið á fót grænum iðngarði byggðum á hringrásarhugsun. Að yfirlýsingunni standa Þróunarfélag Grundartanga, fimm sveitarfélög, Faxaflóahafnir og 15 öflug fyrirtæki. Verndari verkefnisins er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Með þessu er stefnt gera Grundartanga að grænum iðngarði sem verði leiðandi á heimsvísu á sínu sérsviði. Sköpuð verður umgjörð sjálfbærni fyrir svæðið með uppbyggingu hringrásarhagkerfis ásamt bættri fjölnýtingu auðlinda og innviða.
Mikilvægi Grundartanga
Í dag eru um 20 stór og smá iðn‐ og þjónustufyrirtæki á Grundartanga sem veita yfir 1.100 manns atvinnu. Rekja má meira en 1.000 afleidd störf til starfseminnar. Þessi samsteypa eru langstærstu vinnuveitendur Hvalfjarðarsveitar og Akraness. Tvö stærstu fyrirtækin, Norðurál og Elkem Ísland, greiða laun og kaupa þjónustu fyrir rúmlega 23 milljarða króna á ári. Munar nú um minna.
Af hverju Grundartangi?
Í dag býr atvinnusvæðið á Grundartanga yfir flestum kostum þess sem grænn iðngarður þarf. Það nær yfir skilgreint landsvæði og hefur sameiginlegt aðalskipulag sem auðveldar framþróun svæðisins. Rafmagn kemur frá endurnýjanlegum auðlindum og afurðir svæðisins eru endurvinnanlegar. Aukaafurðir eru nú þegar vel nýttar í efna- og byggingariðnaði og framundan eru fleiri tækifæri í fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Þá fellur starfsemi fyrirtækja á svæðinu vel að skilgreiningum sem tengjast hringrásarhagkerfi.
Þróunarfélagið
Þróunarfélagið lét vinna sviðsmyndir um framtíð Grundartangasvæðisins og mótaði sér í kjölfarið stefnu sem byggir á sýn um nýsköpunar‐ og þróunarklasa á Grundartanga. Innan hans verði fjölbreytt starfsemi ólíkra fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga sem tengist svæðinu, til umbóta, samstarfs og þróunar. Metnaðurinn liggur í sjálfbærri verðmætasköpun, lágmörkun vistspors og bættrar umhverfisverndar.
Félagið byggir á þeirri trú að jákvæður ábati reksturs og fjárfestinga styrki samkeppnishæfni fyrirtækja á svæðinu. Hann skapar öruggara atvinnuumhverfi, styður bætta þjónustu sveitarfélaga og skapar mótvægi við loftslagsbreytingar. Þetta er vegferð sjálfbærni fyrirtækja og samfélags.
Hringrásarhagkerfi á Grundartanga
Megináherslur Þróunarfélagsins síðasta árið hafa snúist um að þróun Grundartangasvæðisins sem grænan iðngarð með hringrásarhugsun að leiðarljósi. Í því felst að mótuð verði umgjörð sjálfbærni fyrir svæðið og uppbygging hringrásarhagkerfis með bættri fjölnýtingu auðlinda og innviða.
Dregið verður úr losun gróðurhúsalofttegunda, stuðlað að sjálfbærri auðlindanýtingu, aukinni endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs. Úrgangur sem til fellur fær viðeigandi meðhöndlun til að skapa ekki hættu fyrir heilbrigði manna og dýra eða umhverfisskaða.
Þetta er í takt við stefnu stjórnvalda og sveitarfélaga um þróun hringrásarhagkerfis og styður við aðgerðaráætlun í loftlagsmálum og Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna. Stutt verður við sjálfbærni með innleiðingu félagslegra, efnahagslegra og umhverfisvænnna sjónarmiða í skipulagi, stýringu og framkvæmd á svæðinu.
Ávinningur: Minni mengun – Meiri nýtni
Ávinningur vegferðarinnar mun skila sér m.a. í spennandi umhverfi fyrir fyrirtæki sem hafa hug á að nýta tækifæri í sjálfbærni og taka þátt í uppbyggingu svæðisins til framtíðar.
Fyrir þátttakendur í hringrásarhagkerfi svæðisins liggur ávinningur til skemmri tíma í aukinni hagsæld, tekjum, sparnaði og lægri framleiðslukostnaði. Umhverfisáhrif verða lágmörkuð og dregið úr auðlindanotkun og losun óæskilegra efna. Nýting hráefna svo sem vatns, orku og annarra efna verður betri. Þetta mun opna á aðra markaði, fleiri vörutegundir og aukna þjónustu sem laðar að ný fyrirtæki og viðskiptavini til Grundartangasvæðisins. Vegferðin er einnig líkleg til að auka aðgengi að styrkjum og grænni fjármögnun. Eftir standa samkeppnishæfari fyrirtæki og styrkara samfélag.
Leiðandi í sjálfbærni
Grænn iðngarður Grundartanga hefur alla burði til að vera leiðandi í sjálfbærni, bættri fjölnýtingu auðlinda og innviða í gegnum hringrásarhagkerfið. Mörg tækifæri liggja í að minnka áhrif loftslagsbreytinga, auka skynsama hráefnanotkun, koma á fjölnýtingarverkefnum og bæta endurheimt auðlinda.
Dæmi um slíka hringrás er fyrirtæki sem býr til vörur úr úrgangi Norðuráls. Einnig hefur verið sýnt fram á að stálendurvinnsla er áhugaverð á svæðinu. Þá fellur starfssemi þjónustufyrirtækja vel að skilgreiningum á vöru, þjónustu og viðhaldi sem hluti af hringrásarhagkerfi.
Nýting glatvarma frá stóriðju má til að mynda nýta fyrir hitaveitu og er skýr þáttur í hringrás græns iðngarðs. Sömuleiðis má nefna förgun koldíoxíð til notkunar í fjölbreyttari iðnaði á svæðinu, til að mynda fyrir orkuiðnað, matvælaiðnað og líftækniiðnað. Tækifærin eru ótalmörg.
Vegferðin framundan
Árangursrík uppbygging græns iðngarðs kallar á skilvirka nálgun og samþættingu, áætlana og aðgerða. Nú þegar menn hafa sammælst um stefnu, sýn og forystu fyrir grænan iðngarð, þarf að byggja áfram upp á Grundartanga og smíða umgjörð um þessar sjálfbærniáherslur. Verkefnið mun falla vel að skilgreiningum Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna á grænum iðngörðum.
Þá þarf að skapa sjálfbærniumgjörð sem inniheldur umhverfismál, félagslega þætti, hagsæld og stjórnarhætti. Því öflugri sem umgjörðin er, því öflugri verður græni iðngarðurinn og það mun laða að ný fyrirtæki og starfsfólk.
Viljayfirlýsingin um grænan iðngarð á Grundartanga er hollur heimafenginn baggi uppbyggingu athafnalífs en ekki síst fyrir framtíðarkynslóðir þessa lands.
Höfundur er framkvæmdastjóri Þróunarfélags Grundartanga.