Alþjóðlegt brask Samherja er sjóðheitt umræðuefni í blöðum, á ljósvaka og manna í milli. Inn í hana blandast svindl annarra útgerðarfélaga á sjómönnum; einkum þeirra kompanía sem eiga fiskvinnslu. Í umræðunni hallar mjög á útgerðina. Þeir sem tekið hafa til varnar eru Samherji sjálfur, Morgunblaðið, sem er í dulinni eigu Samherja og opinberri eign annarra stórútgerðarfyrirtækja, og loks Björn Bjarnason, fyrrverandi aðstoðarritstjóri Moggans og dómsmálaráðherra. Samherji verst með persónuárásum og falsfréttum af margri gerð, Mogginn og Björn með stóryrðum um þá sem segja fréttir af skúrkunum. Engin þessara varðbergsmanna fjallar um hin meintu brot, svo sem skattsvik, mútur, peningaþvætti eða falska vigt svo eitthvað sé nefnt.
Það sem gerir umræðuna enn sérkennilegri er, að enginn útgerðarmaður, ekkert útgerðarfélag, engin fiskverkun, engin sölusamtök eða hagsmunafélög útgerðarinnar taka til varnar fyrir Samherja.
Af hverju er það? Þarna eru þó ekki bara skræfur í fyrirsvari. Það vitum við, því svo oft hafa þeir tekið þátt í umræðu um þjóðmál með orðgnótt og af miklum þrótti. En ekki nú. Ekki um Samherja. Þó er æra þeirra undir, allra.
Sérkennileg er líka löng þögn hagsmunaaðila í umræðan um Rúv og auglýsingamarkaðinn. Til eru þeir sem vilja limlesta Rúv af ýmsum ástæðum. Beinbrotið á ma. að fara fram með því að banna útvarpi og sjónvarpi að birta auglýsingar, sem eru ca. 16% birtra auglýsinga hér innanlands. Þeir tala fyrir þessu á alþingi, sendisveinar Moggans, Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Hringbrautar; ólabirnir þingsins. Á meðan þeir rausa hirða „... erlendar efnisveitur, sem borga ekki krónu í skatta á Íslandi ... stóra sneið af auglýsingatekjum frá innlendum fréttamiðlum ... " segir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans réttilega í ágætum leiðara síns miðils í dag (10.05.´21).
Þetta, sem þarna um ræðir, eru rúmlega 40% af öllum auglýsingum í fjölmiðlum á landinu. En ólabjörnunum dettur ekki til hugar að leggja fram þingsályktunartillögu, eða að breyta lögum, til að ná í réttmætan skatt af þessum auglýsingum. Það fé mætti nota til þess að styrkja stöðu þeirra fjölmiðla sem eru traustsins verðir. Og þess vegna er eðlilegt að spyrja, af hverju þeir, hinir þingmennirnir, sem sitja undir gaspri ólabjarna í þingsal, impri ekki á þessu í stað þess að þegja eða dæsa frá sér andleysu.
Í þessari umræðu er líka þögult lið sem vert er að lýsa eftir; auglýsingastofur. Hafa þær enga skoðun á því ef loka á öflugasta auglýsingamiðli landsins? Hvað ætla þær að segja við sína viðskiptamenn? Og hvert ætla þær að beina auglýsingunum? Hafa þeir enga skoðun á þessu, per-mennirnir; atvinnumenn í auglýsingamennsku? Eru einhverjir leyndir hagsmunir þarna á sveimi. Eða eru þeir bara gungur, auglýsingamennirnir?
Höfundur er rithöfundur.