Ég er fæddur, uppalinn og hef búið á sama stað í Hafnarfirði í 58 ár. Gjörþekki bæinn minn og framkvæmdasögu bæjarstjórna liðinna áratuga s.l. 40 ár. Ég skrifa þetta vegna þess að mér finnst umræðan um málefni Hafnarfjarðarbæjar vegna komandi kosninga mjög einsleit, leiðinleg, þurr og mér finnst áreiðanleika skorta í framboðsskrifum margra frambjóðenda.
Einn skrifar gagnrýni, henni er næsta dag svarað af meirihlutamanni með þeim hætti hann hvað hann sé illa upplýstur og sannleikur sé sagna bestur. Við íbúar sitjum áfram í sama farinu vegna þess erfitt er að lesa í raunverulega stöðu bæjarins sé það reynt á heimasíðu hans. Þá virðist umræðan eingöngu snúast um húsnæðismál, leikskólapláss o.þ.h. en ekkert um það hvernig bæta megi lífsgæði þeirra íbúa, sem fyrir löngu eru búnir að tæma þann verkefnalista, sem lýtur að framangreindu.
Með því er ég ekki að gera lítið úr húsnæðiseklu í bænum né mikilvægi leikskólaplássa. Frambjóðendur gera húsnæðismálum þó mikið undir höfði og mikilvægi þess að uppbygging eigi sér stað á því sviði. Á sama tíma hækkar Seðlabankinn stýrivexti sína til að sporna við þeirri þenslu, sem hann telur að rót eigi að rekja til fasteignamarkaðarins. Það virðist ekkert samtal eiga sér stað á milli ríkis, sveitarfélaga og stofnunarinnar Seðlabankans í þessum efnum. Á sama tíma takast menn á í fjölmiðlum og eftir situr hlustandinn, galtómur. Leiðrétti mig sá sem hæfari er á sviði hagfræði og efnahagsstjórnunar. Rök Seðlabankans eru ótrúverðug. Málflutningur sveitarstjórnarmanna í meiri og minnihluta eru ill skiljanleg.
Hafnarfjörður á árum áður
Ég hef verulega óbeina reynslu af hafnfirskum stjórnmálum. Faðir minn, Árni Gunnlaugsson og stofnandi Félags óháðra borgara stjórnaði bænum í um 20 ára skeið fram til átttugasta áratugar 19 aldar ásamt forystumanni Sjálfstæðismanna þá, heiðursmanninum Árna Grétari Finnssyni, lögmanni. Ég ólst upp við og upplifði framfarir í Hafnarfirði. Heyrði um fyrirætlanir Árnanna, sem áttu Hafnarfjörð (en svo voru þeir ætíð kallaðir) í símanum heima í stofu hvaðan bænum var m.a. stjórnað í samvinnu við framkvæmdastjórana, bæjarstjórana. Á þeim árum upplifði maður reglulega hvernig lífsgæði Hafnfirðinga voru bætt, aukin og voru sýnileg. Hafnfirðingar fundu það í bókstaflegum skilningi. Malarvegum var kippt úr fyrir malbik. Hitaveita kom í stað olíukyndingar. Bærinn hýsti eitt merkilegasta sjúkrahús landsins, St. Jósefsspítala. Starfsemi, sem glannalegir og óvitrir stjórnmálamenn eyðilögðu.
Kæmu upp smávægileg vandamál í bænum, jafnvel stærri, sem kröfðust handlagni starfsmanna Áhaldahússins, sem svo var nefnt, hringdu bæjarbúar í Árnana, þeir hringdu svo samstundis í Áhaldahúsið og málið við komið í lag, oftast innan nokkurra klst. - Þessi stemmning er horfin, af hverju? Ekki segja mér að fólksfjölgun eða breyttur tíðarandi valdi þessu. Ég kaupi það ekki. Og ef skýringin er nýir verkferlar, sem ég býst við að svarið yrði, þá er sú stjórnsýsla einfaldlega handónýt og afturför. Þess vegna þurfum við nýjan stjórnanda, sem sér þetta og lagar.
Ég tel hins vegar ástæðuna vera leti, áhuga og tengslaleysi bæjarstjórnarmeirihlutans hvar sitja þó Gaflarar. Séu slík mál rædd við þá má búast við svarinu: Árni við þurfum að taka kaffi saman. Svar sem ég hef heyrt þrisvar sinnum á yfirstandandi kjörtímabili, símleiðis og í heita pottinum í Suðurbæjarlauginni og taki hann það til sín sem við á og sækist nú eftir þriðja sæti íhaldsins í vor.
Ögn meira um St. Jósefsspítala skemmdarverkið
Bærinn keypti St. Jósefsspítala til baka af íslenska ríkinu 30. júni 2017 og skuldbatt sig með eftirfarandi hætti skv. upplýsingum á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar:
Við kaupin skuldbindur Hafnarfjarðarbær sig til að reka almannaþjónustu í húsinu að lágmarki í 15 ár frá undirritun samnings. Með almannaþjónustu er átt við starfsemi í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menningar- eða fræðslustarfsemi eða annarri sambærilega þjónustu sem almenningur sækir í sveitarfélaginu. Hafnarfjarðarbær skuldbindur sig jafnframt til að hefja rekstur í fasteigninni innan 3 ára frá undirritun samnings. Kaupverð er 100 milljónir króna og húsið verður afhent 15. ágúst 2017. Verðið endurspeglar fyrirhugaða nýtingu hússins í almannaþágu. Þá er í samningnum ákvæði um hærra verð verði horfið frá þeim áformum.
Stjórn Hafnarfjarðar hlýddi ríkinu. Þar er nú rekin starfsemi einkaaðila, sem ég kann ekki frekari skil á.
Minnt skal á að St. Jósefssystur seldu spítalann á sínum tíma með þeim skilyrðum að þar yrði áfram sjúkrahús. Engar forsendur, í lögfræðilegum skilningi, brustu nokkurn tíma til að standa við þau skilyrði, þvert á móti hefur heilbrigðiskerfið öskrað á fjölgun hjúkrunarrýma. Á sama tíma virðist stjórn bæjarins með öllu andlaus að svara því kalli með því að gera þetta aftur að þeim alvöru spítala, sem hann var undir góðri hagstjórn sankti Jósefssystra. Skv. upplýsingum úr minnihlutaarmi núverandi sveitarstjórnar lagðist ríkið hart gegn því að bærinn opnaði bygginguna aftur, sem sjúkrahús og mun hafa gert honum það ókleift með vart viðráðanlegum verðmiða. Eðli hægri aflanna. ,,Þá er í samningnum ákvæði um hærra verð verði horfið frá þeim áformum". Þetta er auðvitað ekkert annað en dulin hótun um að opna St. Jósefsspítala ekki aftur, sem sjúkrahús í skilningi samningaréttar. - Þrátt fyrir æpandi skort á hjúkrunarrými um allt land.
Undir góðri stjórn fyrri bæjarstjóra
Bærinn var undir prýðilegri stjórn bæjarstjórans Haraldar Líndal Haraldssonar á undan Rósu Guðbjartsdóttur núverandi bæjarstjóra að ógleymdum forverum Haraldar. Af og til sendi ég Haraldi tölvupósta um málefni sem lutu að smá hnökrum í bænum og sýndi hann mér þá háttvísi að svara næstum samstundis og taka mál til skoðunar. Hann var látin fara í valdagræðgi forystumanns íhaldsins. Það var veruleg afturför í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að mínu mati. Aldrei á fyrrnefndum forystutíma föður míns og Árna Grétars Finnssonar sóttust þeir eftir bæjarstjórastól. Þeir réðu til bæjarins fagmenn með gott orðspor, enda töluðu verkin sínu máli. Löngu síðar tók þó við bæjarstjórastóli forystumaður jafnaðarmanna, Guðmundur Árni Stefánsson, sem lét verkin tala, enda öllum hnútum kunnugur.
Framfarir litlar, tengslaleysi mikið
Undanfarna áratugi hef ég ekki orðið vitni að né upplifi ég neinar þær framfarir, sem auka lífsgæði í Hafnarfirði. Samtal við stjórnendur bæjarins er vonlaust og ekki bætir það samskiptin að sæti þeir gagnrýni fara þeir í fýlu. Mjög erfitt er að átta sig á almennri stjórn bæjarins ólíkt því sem gerist í landsstjórninni hvar maður hefur gott yfirlit.
Í algerri uppgjöf í þeim efnum að eiga samskipti við meirihlutastjórn sveitarfélagsins hef ég haldið aftur af mér í afskiptum af stjórnun bæjarins, nenni ekki einu sinni að lesa bæjarblöðin. Eitt geri ég þó af og til sem flestum mun þykja ómerkilegt í besta falli. Vek athygli á ófærum veg um Hvaleyrarvatn. Þangað sæki nefnilega hluta af mínum lífsgæðum, útivist. Þeim ábendingum er seint eða aldrei svarað og á meðan mega Hvaleyrarvatnstúristar sætta sig við að komast ekki framhjá vatninu eða lúta því að bifreiðar kunni að verða fyrir tjóni. Þá er snjómokstri um vatnið ábótavant og hann er engin á þeim malarvegum sem liggja frá vatninu til Kaldársels. - Þar eru þó náttúruperlurnar, sem stjórn bæjarins ber sér á brjóst að búa yfir en skerðir aðgang íbúa að, vegna ófærðar, þegar þær skarta sínu fegurst um háveturinn, snjóalögð.
Stjórn bæjarins er svo slök hvað þetta hugarfóstur mitt varðar að hún er búin að búa til ferðamannabæli við vatnið, sem umhverfið, eins og nú er á sumrin, er ekki í nokkurri aðstöðu til að taka við. Stjórnin auglýsir samt svæðið grimmt sem eina mestu náttúruperlu Reykjaness og það er engin lygi. Svæðið er samt, á fjölmennustu dögunum, líkt og ef gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli væri ætlað að taka á móti háannadegi í Leifsstöð. Það er ekki nokkur aðstaða til að taka á móti öllum þeim, sem þangað mæta í tuttugu stiga hita á miðju sumri.
Árásir á eldri borgara
Fleira má telja til og varðar hnökra við stjórn bæjarins. Árásir á eldri borgara. Stjórn bæjarins er svo úr tengslum við samborgara sína að þeir eru farnir að þurfa að líða fyrir. Þá er virðingu þeirra Gaflara sem falla frá fyrir aldurs sakir á köflum lítil virðing og þakklæti sýnd.
Dæmi um hvernig hinir eldri þurfa að líða: dama á níræðisaldri lenti í því vegna heilabilunar sinnar að gleyma greiðslu fasteignagjalda fyrir einn mánuð í marga mánuði. Málið endaði við innganginn (doorstep) á nauðungarsölu. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri var nefnilega svo útsjónarsöm í verkferlaverkfræði sinni að semja við innheimtufyrirtæki, sem tók gömlu konuna alla leið og það þótt frúin góða væri löngu búin að klára sín mál við innheimtufyrirtækið og þar með gerðarbeiðandann Hafnarfjarðarbæ. Innanbúðarverkferlar innheimtufyrirtækisins eru nefnilega jafn óáreiðanlegir og í stjórn bæjarins. Á árum áður hafði stjórn bæjarins góða yfirsýn í svona efnum, þekkti eldri borgara sína og kippti hlutunum í lag í samráði við þá. Það er löngu liðin tíð.
Alvöru Krata til baka
Nú liggur fyrir að ungur maður, hokinn af reynslu í stjórn bæjarins og íslenskum stjórnmálum er með eitt mesta come back í íslenskum stjórnmálum. Guðmundur Árni Stefánsson hefur boðið fram krafta sína. Það væri ábyrgðarleysi að sleppa því í svona grein að skora á alla Hafnfirðinga að tryggja setu hans við stjórn bæjarins eða a.m.k. íhuga hann sem vænlegan valkost. Við þurfum einfaldlega alvöru jafnaðarmann, sem þekkir þarfir bæjarins og samborgara sinna betur en nokkur annar maður til að taka við bænum okkar með sem flestum jafnaðarmönnum sem jafnframt hafa boðið fram krafta sína í kosningunum í vor. Þegar vel hefur árað í Hafnarfirði hefur það nefnilega ætíð verið fyrir undirliggjandi áhrif jafnaðarmannastefnunnar. Það var þannig á þeim tíma sem Árnarnir voru við völd, á þeim tíma þegar Guðmundur Árni var bæjarstjóri og gæti orðið það aftur nú þegar sú hetja hefur boðið fram krafta sína að nýju fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga.
Höfundur er lögfræðingur og Gaflari.