Í viðtali í Fréttablaðinu 26. ágúst segir Kristrún Frostadóttir að mikilvægt sé að tala um hve hættuleg einstaklingshyggjan sé samfélaginu. „Fólk sem nýtur velgengni þarf að átta sig á að það komst ekki á þann stað einsamalt“. Af þessari hugsun má draga mikilvægar pólitískar og félagslegar ályktanir sem gætu orðið leiðarljós endurnýjaðrar jafnaðarstefnu. Áhugaverðar pælingar á þá veru er að finna í nýlegri bók eftir bandaríska heimspekinginn Michael Sandel. Sandel er þekktur fyrir hugmyndir sínar um samfélagshyggju (communitarianism) sem hann hefur sett fram bæði í fræðiritum og á almannavettvangi.
Í bókinni, The Tyranny of Merit. What’s Become of the Common Good? (Harðstjórn verðleikanna. Hvað hefur orðið um almannagæði?, Penguin 2021), færir Sandel rök fyrir því að sú hugsun, að hver og einn eigi að njóta verðleika sinna, hafi gegnt afar tvíbentu hlutverki í samfélaginu. Sögulega séð fylgdi henni ákveðin frelsun undan oki forréttinda tengdum ættarstöðu sem réði mestu um afdrif fólks, aðgengi að lífstækifærum, embættum og auði. Andspænis þessu gerræði auðs og ættartengsla komu ferskir vindar réttlætis með þeirri hugmynd að tækifæri fólks ættu að ráðast af verðleikum. Lykilstefið var að hver og einn ætti að komast eins hátt eða langt í lífinu og hæfileikar þeirra og framlag stóðu undir. Þetta hefur oft verið kennt við kröfuna um jöfnun tækifæra sem hefur verið lykilstef í pólitískri orðræðu undanfarinna áratuga. Sandel vitnar óspart í ræður Bandaríkjaforseta og forsetaframbjóðenda, bæði úr röðum demókrata og republikana, þar sem hamrað er á þessum hugmyndum. Í fyrstu ræðu sinni sem forsætisráðherra sagðist Liz Truss ætla að gera Bretland þannig að allir fengju hvarvetna þau tækifæri sem þeir eiga skilið.
Verðleikahugmyndir hafa aftur á móti ekki átt upp á pallborðið í hugmyndum margra fræðimanna, svo sem í áhrifaríkri réttlætiskenningu John Rawls:
Það verðskuldar enginn þær gáfur sem hann hlýtur í vöggugjöf, ekki frekar en maður verðskuldar þá stöðu í samfélagi sem hann er fæddur til. Við getum ekki heldur sagt að maður eigi þann dug skilinn sem gerir honum kleift að leggja rækt við hæfileika sína, því að dugur manns veltur að mestu á slembiláni um fjölskyldu hans og félagsskap sem hann getur ekki þakkað sjálfum sér. Hér er hvergi fótfesta fyrir hugmyndina um verðleika. (A Theory of Justice 1971, bls 104; þýð, Þorsteinn Gylfason, Réttlæti og ranglæti 1998, bls. 65–66).
Sú hversdagslega og heillandi hugmynd að réttlæti sé fólgið í því að sérhver fái það sem hann eigi skilið – uppskeri eins og hann sái – hefur því verið gagnrýnd mjög í stjórnmálaheimspeki (sjá umræðu í bók minni Farsælt líf, réttlátt samfélag, 2008, 17. kafla). Öðru máli hefur gegnt í stjórnmálum og meðal almennings þar sem verðleikahugmyndin hefur verið áberandi í orðræðu um félagslegt réttlæti. Í Bandaríkjum Norður Ameríku hefur þetta verið kjarni hugmyndarinnar um ameríska drauminn, að hver sem er eigi að geta komist til auðs og valda með dugnaði og hæfileikum, óháð því hvaðan viðkomandi kemur (geti risið úr örbirgð til ríkidæmis; from rags to riches). Þetta hefur verið kennt við félagslegan hreyfanleika, þ.e. að fólk geti færst upp eftir þjóðfélagsstiganum eftir dugnaði og verðleikum. Sandel sýnir hins vegar fram á að félagslegur hreyfanleiki sé mun minni í Bandaríkjunum en t.d. á Norðurlöndum og ameríski draumurinn sé goðsögn sem eigi ekki við (tölfræðileg) rök að styðjast.
En meginrök Sandels lúta að skaðsemi hugmyndarinnar um verðleika. Að hans mati hefur hún skaðleg áhrif bæði fyrir þá sem skara fram úr og þá sem verða undir í lífsbaráttunni. Fyrrnefndi hópurinn líður m.a. fyrir fullkomnunaráráttu og kulnun sem stafar af ákafri viðleitni þeirra að standa sig. Og börnin eru að kikna undir stífum frammistöðukröfum síhvetjandi foreldranna sem sveima yfir þeim (helicopter parents) til að gæta þess að þau tapi ekki í lífgæðakapphlaupinu. Háskólapróf er gjarnan lykillinn að velgengni, helst á tilteknum sviðum sem eiga að veita aðgang að tekjum og tækifærum, valdi og viðurkenningu. Þannig verður til elíta sem er meðvituð um að vera á toppnum fyrir tilstuðlan eigin verðleika, dugnaðar og hæfileika. Sú meðvitund birtist gjarnan sem ofmetnaður (hubris) og fordómar í garð þeirra sem eru í „lægri þrepum” þjóðfélagsstigans. Þeir sem ekki hafa „komist áfram” upplifa aftur á móti niðurlægingu og skömm, ekki síst vegna þess að verðleikahugmyndin elur á því að einstaklingar séu ábyrgir fyrir stöðu sinni. Þá skorti dugnað og hæfileika. Að því leyti til er erfiðara að sætta sig við mismunun í samtímanum sem réttlætt er með verðleikahugmyndum en þá sem réðist af rótgrónum stéttamun.
Að mati Sandels er þetta meginskýringin á því hvel vel Donald Trump náði til stórs hluta Bandaríkjamanna. Öfundargremja gagnvart elítunni var ríkjandi í stórum hópum þeirra sem kusu hann, hvítra karlmanna með tiltölulega litla menntun og lítilfjörleg tækifæri, m.a. vegna þess að störfum hafði fækkað mjög í ferli hnattvæðingar. Fylgið við Trump hefur oft verið skýrt með heimsku og þekkingarleysi í stað þess að rýna í þær félagslegu og menningarlegu aðstæður sem gera það skiljanlegt. Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 2016 kenndi Hillary Clinton þennan hóp fylgismanna Trumps við ruslakörfu hinna aumkunarverðu (basket of deplorables). Þetta er skýrt dæmi um það að nær einu viðurkenndu fordómarnir sem eftir eru í samfélagi okkar beinast gegn „hvíta ruslinu“, fólki sem hefur orðið undir í verðleikasamfélaginu án þess að hafa viðurkennda stöðu jaðarhópa. Rannsóknir í Evrópulöndum hafa sýnt að meðal menntaðs fólks er litið mest niður á lítt menntaða. Mismunun kynja og kynþátta er fordæmd og gæta þarf orðfæris í því tilliti, en annað gildir um viðhorf til þeirra sem hafa litla menntun (sem er þá einkum skilin sem háskólamenntun). Og þessa afstöðu er líka að finna meðal hinna líttmenntuðu sjálfra. Meginskýringin er það viðhorf að þetta fólk geti sjálfu sér um kennt um að hafa farið halloka í lífsbaráttunni. Það hafi ekki nýtt sér tækifærin sem bjóðast einkum gegnum háskólamenntun.
Sandel færir rök fyrir því að verðleikahugmyndin leiði til vanmats á framlagi þeirra sem vinna við framleiðslu- og þjónustu en upphefji störf sem útheimta háskólamenntun, jafnvel þótt þau skili litlu til samfélagsins. Sem dæmi tekur hann fjármálaspekúlanta sem hafi grafið undan samfélaginu fremur en hitt. Í fjármálabraski skari menn eld að eigin köku en stuðli lítið að sameiginlegum markmiðum. Jafnframt eru ofurlaun til handa þeim sem starfa í fjármálageiranum rökstudd með vísun í hæfileika þeirra og dugnað sem geri fjármálastofnanir samkeppnishæfar, líkt og við þekkjum úr umræðu hérlendis. Í þessu samhengi ræðir Sandel hugtakið framlagsréttlæti (justice of contribution) sem lýtur að því að meta mikilvægi vinnu sérhvers sem leggur sitt af mörkum til samfélagsins. Hér er því um að ræða virðingu fyrir vinnu (dignity of work) og þýðingu hennar fyrir samfélagið, burtséð frá því hvaða menntun liggur henni að baki. Hvað yrði um samfélagið, svo dæmi sé tekið, ef fólk sem vinnur við sorphirðu og skúringar skilaði ekki sínu? Framlag allra vinnandi stétta myndar raunar vef sem er forsenda þess að nokkur einn njóti afraksturs dugnaðar síns og hæfileika. Velgengni tiltekinna einstaklinga ræðst líka mikið af heppni og félagslegum uppruna og aðstæðum sem eru ekki undir þeim sjálfum komnar. Þess vegna er svo villandi að umbuna útfrá einstaklingsbundnum verðleikum eða telja að fólk nái árangri einkum vegna þeirra. Ég ræði eitt skýrt dæmi um þetta í bókinni Farsælt líf, réttlátt samfélag bls. 290):
Samfélagið er líkt og samofinn vefur þar sem engin leið er að greina framtak einstaklinga algjörlega frá því umhverfi sem hefur fóstrað þá. Jafnvel hinir öflugustu athafnamenn hafa þegið fjölmargt frá samfélaginu sem hefur gert afrek þeirra möguleg. Þessa vegna var það til að mynda ranglátt þegar kvótakerfið var tekið upp að einskorða úthlutun veiðiheimilda við útgerðarmenn og rjúfa þannig tengsl þeirra við íslenskar sjávarbyggðir sem skópu þeim skilyrði til framkvæmda og verðmætasköpunar.
Að mati Sandels snýst viðurkenning á vinnuframlagi fólks ekki eingöngu um laun heldur um siðferðilegt endurmat á gildi þess framlags sem það leggur af mörkum til samfélagsins. Hann álítur að einblínt sé um of á kaupmátt og neyslu og minnir í því samhengi á klassískar hugmyndir frá Aristótelesi um að farsæld manna velti á því að þeir rækti eiginleika sína og hæfileika. Þetta gerir fólk ekki síst með störfum sínum sem hafa gildi fyrir samfélagið. Frá þessu sjónarhorni eru störf séð sem framlag borgara sem rækta saman almannagæði, en ekki einstaklinga á markaðstorgi neyslunnar. Hann leggur til að skattkerfið sé markvisst notað til að styðja við þetta framlag til sameiginlegra gæða og markmiða. Þannig mætti draga úr hvatanum til einkadrifinnar fjármagnssköpunar sem skilar litlu sem engu til efnahagslífsins. Færa þurfi skattbyrðina frá vinnu yfir á neyslu, fjármagnstekjur og spákaupmennsku og gróðabrall. Ljóst má vera að hér eru skýr leiðarljós fyrir jafnaðarmenn samtímans.
Sandel ræðir áhrif og rætur verðleikakenningarinnar í margvíslegu samhengi, svo sem menntunar, gildismats og trúarbragða. Menntakerfið hefur verið skipulega notað til að flokka fólk inn í kerfi samfélagsins eftir frammistöðu á skólabekk en jafnframt er skilvindan (the sorting machine) hugsuð sem jöfnunaraðgerð út frá hugmyndinni um verðleika. Það má til sanns vegar færa í ljósi þess að velgengni á grunni menntunar dregur úr ójöfnuði þar sem forréttindastéttir höfðu fyrirframgefinn forgang að samfélagsgæðum. En fórnarkostnaðurinn er fyrrnefnd niðurlæging sem fylgir verðleikarökunum sem og það rangsnúna réttlæti sem vanmetur áhrif hagstæðra aðstæðna og slembiláns þeirra sem njóta mestrar fjárhagslegrar velgengni. Þá þjónar verðleikahugmyndin því hlutverki að réttlæta misskiptingu og félagslegt ranglæti.
Þessa umræðu tengir Sandel líka við tækniræði með þeim rökum að einhliða áherslu á menntun fylgi sú afstaða að aðsteðjandi vandamál verði einkum leyst með aukinni þekkingu og upplýsingum. Þetta sjáist skýrt af loftslagsumræðunni. Fólk þurfi einfaldlega að afla sér þekkingar og viðurkenna staðreyndir og þá munum við finna „snjallar“ en siðferðilega hlutlausar (tækni)lausnir á vandanum. Sandel spyr: „En hvað með þau sem leggjast gegn stjórnvaldsákvörðunum um að draga úr kolefnisútblæstri, ekki vegna þess að þau hafna vísindunum heldur vegna þess að þau treysta ekki stjórnvöldum til að vinna í þeirra þágu, einkum þegar um er að ræða allsherjar uppstokkun efnahagslífsins, og treysta ekki tækniræðiselítunni sem myndi hanna slíka uppstokkun og framfylgja henni.“ (112). Hér rísa spurningar um vald, siðferði og traust sem verður ekki svarað af sérfræðingum heldur kalla á lýðræðislega umræðu meðal borgaranna. Sandel færir raunar rök fyrir því að slík lýðræðisleg samræða um almannagæði sé nauðsynleg til að við getum skapað farsælla samfélag.
Slagorðið sem hljómaði í heimsfaraldrinum, „við erum öll í þessu saman“, felur í sér vísi að því sem þarf að gera til að takast á við vandann, að mati Sandels. Það vísar í samstöðu og samkennd sem hann telur nauðsynlegar góðu lýðræðissamfélagi. Í því skyni þurfi að hafa að leiðarljósi hugmyndina um jöfnun lífskilyrða (equality of condition) sem geri öllum kleift að lifa sómasamlegu lífi og njóta hæfileika sinna. Mér sýnist Páll Skúlason hafa orðað svipaða hugsun í erindi sem hann hélt á málþingi um fátækt 1986:
Hverjir eru þeir verðleikar, sem öryrkjar, þroskaheftir, eiturlyfjasjúklingar eða aðrir þeir sem megna ekki að sjá fyrir sér, geta bent á til að styðja réttlætiskröfur sínar, að þeir fái það sem þeir eiga skilið. Hvað hafa þeir upp á að bjóða eða selja til að verðskulda réttlæti? Réttlætið er ekki ávallt að fá það sem menn eiga skilið miðað við verðleika, heldur einfaldlega að fá að vera til, hvað svo sem menn hafa til síns ágætis. Það réttlæti sem mestu máli skiptir, er að njóta virðingar sem fullgildur meðlimur samfélagsins, – hvernig svo sem ástatt er fyrir manni og hverjir sem verðleikar manns eru. (Pælingar 1987, bls. 383).
Páll leggur hér réttilega áherslu á virðinguna og hana þarf að sýna í verki bæði með siðferðilegri afstöðu, breyttu gildimati og pólitískum aðgerðum. Það er meginverkefni jafnaðarstefnunnar á öllum tímum að draga úr félagslegum ójöfnuði og bæta lífskjör þeirra sem höllum fæti standa. Það er besta leiðin til að jafna tækifæri borgaranna og gera þeim kleift að njóta hæfileika sinna, á hvaða sviði sem þeir kunna að liggja.
Höfundur er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands