Nafnlaus áróður sem kviknar í leynum hefur oft verið hluti af kosningabaráttu og vakið spennu. Safarík hneyksli fá vængi og fljúga um samfélagsmiðla á ógnarhraða, þótt óstaðfest séu. Versta tegund af níði og hatursumræðu er einmitt sú enginn veit hvaðan kemur. Þannig kosningabarátta er eitur sem skekkir lýðræðið og skemmir samfélagsumræðuna. Öll vitum við að gróusögur eru oft áhrifaríkari en staðreyndir, þegar ætlunin er að brjóta niður og snúa almenningsáliti gegn einstaklingum og heilum flokkum í kosningabaráttu.
Nafnlaus áróður var áberandi bæði í Alþingiskosningum 2016 og 2017 og hans varð vart í sveitarstjórnarkosningum 2018. Nefnd framkvæmdastjóra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi vann í nokkur ár að því að bæta umhverfi stjórnmálanna og leggja til breytingar á lögum til að auka gagnsæi og traust á stjórnmálum.
Eitt af því sem þar var undir var nafnlausi áróðurinn. Fyrsta skrefið í þessari vinnu til að hindra níð og hatursumræðu í kosningabaráttu var ákvæði um að flokkarnir sjálfir og fulltrúar þeirra gengju á undan með góðu fordæmi. Stjórnmálaflokkarnir bönnuðu sjálfum sér að fjármagna birtingu eða taka þátt í birtingu nafnlauss áróðurs.
„Stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, er óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.“
Þetta ákvæði hjálpaði mikið. En það náði ekki alla leið, enda er stór og líklega stækkandi hluti stjórnmálabaráttu rekinn af öðrum en flokkunum sjálfum og fulltrúum þeirra. Því varð fljótt ljóst að ákvæði til að hindra hatursorðræðu og níð í kosningabaráttu þyrfti að ná til stærri hóps. Eftir mikla yfirlegu framkvæmdastjóra flokkanna með stórum hópi sérfræðinga um mannréttindi og tjáningarfrelsi varð eftirfarandi ákvæði til og bundið í lög um stjórnmálabaráttu nú í vor 2021.
„Frá þeim degi er kjördagur hefur formlega verið auglýstur vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjórna eða til embættis forseta Íslands, svo og vegna boðaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu, skulu auglýsingar og annað kostað efni, sem ætlað er að hafa áhrif á úrslit kosninga, vera merkt auglýsanda eða ábyrgðarmanni.“
Í kosningabaráttu fyrir nýafstaðnar kosningar til Alþingis 25. september virðist sem meiri árangur hafi náðst við að stemma stigu við nafnlausum áróðri og þar með níði, en í fyrri kosningum. Það er mikið fagnaðaraefni. Ástæða er til að ætla að krafa í lögum um merkingar og ábyrgð á auglýsingum sé hluti af þeirri góðu þróun. Fleira kom einnig til og má nefna nýjar reglur Facebook, verklagsreglur stjórnmálaflokkanna um samfélagsmiðla, fræðsluátak Fjölmiðlanefndar og upplýsta umræðu í samfélaginu. Hitt er jafn öruggt að vinnu gegn lúalegum baráttuaðferðum í pólitík lýkur aldrei. Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og þá er gott að fólkið í landinu sé meðvitað um hvað einkennir heilbrigða stjórnmálaumræðu og haldi áfram að veita það aðhald sem þarf.
Höfundur er framkvæmdastjóri Vinstri grænna og formaður nefndar framkvæmdastjóra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.