Tilraun til að kúga forsætisráðherra þjóðar er háalvarlegt mál og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, gerði hið eina rétta í stöðunni með því að tilkynna það strax til lögreglu þegar tvær systur reyndu að fá hann til að borga sér milljónir króna gegn því að þegja yfir því sem þær töldu vera skaðlega upplýsingar fyrir hann.
Lögreglan brást við með því að kalla til sérsveit ríkislögreglustjóra til að taka þátt í aðgerðum á þeim stað í Hafnarfirði sem afhenda átti fjárkúgurunum það fé sem þær fóru fram á. Viðbúnaður lögreglu var mikill og ljóst að málið var tekið mjög alvarlega.
Í bakherberginu hefur af þessu tilefni verið rifjaður upp annar atburður sem snérist um ógn gegn forsætisráðherra. Í janúar 2012 ákvað þá rúmlega sjötugur maður, S. Valentínus Vagnsson, að koma fyrir sprengju við heimili Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra Íslands. Hann fann hins vegar ekki út hvar hún ætti heima og ákvað þess í stað að koma sprengjunni fyrir við stjórnarráðið. Þennan sama morgun hafði ríkisstjórn Íslands fundað í stjórnarráðinu.
Tilraun Valentínusar var klaufaleg, hin heimagerða sprengja var kassi með kókflösku sem hafði verið fyllt af etanóli og og sprakk ekki eins og sprengjumaðurinn ætlaði. Þau skilaboð sem sprengjumaðurinn Valentínus vildi senda, samkvæmt umfjöllun um málið í Reykjavík Vikublaði í febrúar 2015, voru eftirfarandi: Ísland dragi til baka Evrópusambandsumsóknina, hætti þátttöku í Schengen, kvótakerfinu verði breytt og EES-samningurinn endurskoðaður.
Það tók nokkrar vikur að hafa upp á Valentínusi. Lýst var eftir hinum klaufalega sprengjumanni, sem þá var orðinn þjóðþekktur eftir að tilburðirnir náðust á myndband og dreifðust á samfélagsmiðlum, með röngum upplýsingum um aldur, hæð og þyngd (hann var sagður á fimmtugsaldri, feitlaginn og lágvaxinn). Á Valentínusardaginn 2012 var Valentínus loks færður til yfirheyrslu, svaf eina nótt í fangaklefa og játaði síðan á sig verknaðinn.
Málið hafði hins vegar enga eftirmála fyrir Valentínus. Hann var ekki ákærður og hlaut engan dóm.
Í ljósi þess að Sigmundur Davíð sagði sjálfur í yfirlýsingu sinni að upplýsingarnar sem systurnar ætluðu að nota til að kúga hann hafi byggst á „getgátum og sögusögnum“ má velta því fyrir sér hvort þær muni fá sömu meðferð og Valentínus, sem ætlaði að sprengja sprengju heima hjá forsætisráðherra, og málið muni ekki hafa neina eftirmála.