Nú daginn fyrir kjördag er mikil spenna í lofti. Það er líka margt í húfi. Ákvarðanirnar stórar og ábyrgðin mikil, fyrir kjósendur jafnt sem sveitarstjórnarfólk næstu ára. Þegar allt kemur til alls snýst valið á morgun þó um tvennt, málefni og trúverðugleika. Áður en gengið er í kjörklefann þarf að spyrja sig hvað framboðin ætli að gera og eins hvort þeim sé treyst til slíkra verka. Kjósendur þurfa að taka afstöðu til beggja og þá vandast valið þegar framboðin eru jafn ólík og þau eru mörg.
Hverjum treystum við til verka?
Við í Viðreisn höfum markað okkur sérstöðu til að gera valið skýrara. Við erum nútímalegt og frjálslynt afl sem lætur sig jafnrétti og almannahag varða. Það segir samt ekki alla söguna því vitaskuld vilja öll framboðin kenna sig við góð og göfug gildi sem þessi. Þá skiptir máli að kafa dýpra, leggja mat á það hversu raunhæf stefnumálin eru og spyrja sig hverjum sé best treystandi til þeirra verka sem þarf að vinna. Rauði þráðurinn í stefnu okkar hefur ávallt verið sá að sýna ábyrgð og vanda til verka þegar farið er með völdin. Við munum fylgja því áfram.
Umbætur á grundvelli árangurs
Fyrir komandi borgarstjórnarkosningar þýðir það að halda áfram ábyrgum rekstri á sama tíma og staðið er vörð um grunnþjónustuna. Í borginni hefur verið lögð höfuðáhersla á að veita góða þjónustu og tryggja umbætur í þágu borgarbúa. Það hefur verið gert á grundvelli ábyrgrar hagstjórnar. Fulltrúar Viðreisnar hafa verið í lykilhlutverki þar og árangurinn af því er augljós. Auðvitað reyna sumir að draga úr þessari velgengni og setja málin fram eins og hentar þeim sjálfum best, en sannleikurinn verður ekki beygður.
Staðreyndirnar tala sínu máli. Góður rekstur borgarinnar hefur ásamt þróttmiklu atvinnulífi skapað betra mannlíf og tryggt raunverulegar umbætur í þágu borgarbúa. Fullgerðum íbúðum hefur fjölgað mikið á síðustu árum og þúsundir íbúða munu rísa til viðbótar á næstu misserum. Á sama tíma sjáum við að skuldastaða borgarinnar er hin lægsta í öllum samanburði við nærliggjandi sveitarfélög, hvort sem litið er til skuldahlutfalls eða hlutfallsfjölda íbúa. Svo er margt á döfinni þegar kemur að samgöngumálum og þar hefur líka heilmargt verið gert á tímabilinu. Öllum til bóta, fyrir borgarbúa sem og aðra íbúa.
Fyrri afrek sem þessi gefa góða vísbendingu um framtíðina.
Er ekki bara best að vanda sig?
Viðreisn hefur kynnt skýra framtíðarsýn í öllum framboðum sínum víða um land. Metnaðarfull stefnumál og raunhæf markmið í skipulagsmálum, samgöngumálum og skólamálum svo fátt eitt sé nefnt. Allt verður þetta þó að hvíla á traustum grunni ábyrgrar stjórnar. Það er einmitt á grundvelli góðs árangurs og skýrrar framtíðarstefnu sem við gerum umbæturnar að veruleika. Stefna Viðreisnar tekur mið af því.
Við höfum alltaf sagt að stjórnmálafólk verði að vanda sig þegar því er treyst fyrir völdum og áhrifum. Það hefur verið skilyrði í öllu starfi okkar og samstarfi. Þessi sýn er þó misáberandi í orðræðu þeirra framboða sem bjóða nú fram. Það sem er ósagt er þó hægt að uppgötva þegar litið er á heildarmyndina. Stundum er keisarinn kviknakinn þó hann reyni að sannfæra fólk um annað. Það sjáum við þegar betur er að gáð.
Kosið um trúverðugleikann
Þau framboð sem bjóða fram undir formerkjum stærri stjórnmálaflokka verða að sýna ábyrgð og svara fyrir allar gjörðir sinna flokka. Það dugar ekki að tala bara um ímyndaðan árangur og uppskálduð afrek. Ekki síður þarf að svara fyrir allt það slæma, afleiðingar þeirra, mistökin og öllu sem þeim fylgja. Annars verður trúverðugleikinn enginn, bara tálsýn sem verður öllum ljós á endanum þegar stuðningurinn dvínar og traustið hverfur.
Þess vegna er mikilvægt að sýna ábyrgð og veita kjósendum skýr svör. Heiðarleika umfram hentisemi. Því þessar kosningar snúast ekki bara um stefnumál og fögur fyrirheit flokka. Þær snúast líka um aðgerðirnar sem þurfa að fylgja með í kjölfarið. Allar ákvarðanirnar sem þarf að taka á næstu árum. Um kraftinn til að nýta tækifærin rétt og hugrekkið til að takast á við erfiðar áskoranir.
Höfum þetta hugfast á kjördag og kjósum raunhæfar umbætur og stefnufestu til framtíðar. Kjósum trúverðugan valkost. Merkjum X við C á morgun.
Höfundur er formaður Viðreisnar.