Nýútkomin skýrsla Stefáns Ólafssonar o.fl. er verðmætt innlegg í umræðuna um lífeyriskerfið og birtist einmitt á réttum tíma. Í þessari grein er varpað fram nokkrum spurningum um efni hennar, s.s. hvert grunnviðmiðið eigi að vera; ellilífeyririnn einn og sér eða að viðbættri heimilisuppbót, og hvort upphæð óskerts ellilífeyris ætti að miðast við lágmarkstekjutryggingu. Gerð er athugasemd við að lítið sé fjallað um stórvirkasta skerðingaverkfærið, þ.e. skerðingarhlutföllin og hugsanlega lækkun þeirra. Loks er bent á að það kunni að stangast á við jafnræðisreglu að hækka frítekjumark atvinnutekna langt umfram frítekjumark lífeyrisgreiðslna.
Umrædd skýrsla var kynnt á málþingi ÖBÍ 26. maí s.l. en hún er unnin í samvinnu við Eflingu - stéttarfélag og gefin út af félaginu. Það segir sína sögu um efni hennar að málþingið og hún voru kynnt með slagorðinu „Heimsmet í skerðingum.“ Í skýrslunni er fjallað ítarlega um íslenska lífeyriskerfið og það borið saman við það sem gerist með öðrum þjóðum, á Norðurlöndunum og innan OECD. Rakið er að íslenska velferðarkerfið sker sig frá́ hinum norrænu velferðarkerfunum vegna víðtækra tekjutenginga og sýnt hvernig beiting þeirra í kerfi almannatrygginga hefur aukist jafnt og þétt með þeirri afleiðingu að uppsöfnun réttinda í lífeyrissjóðum skilar sér ekki sem skyldi í bættri afkomu lífeyristaka. Í skýrslunni gera höfundar síðan tillögur um aðgerðir til að draga úr ágöllum kerfisins, aðallega um hækkun grunnupphæða og frítekjumarka.
Fátt kemur á óvart
Fyrir þá sem unnið hafa að málum á þessu sviði kemur reyndar fátt á óvart af því sem skýrslan segir um eiginleika íslenska kerfisins og sérstöðu þess í alþjóðlegum samanburði. Að mestu eru það löngu kunnar staðreyndir sem m.a. hafa verið grunnurinn að baráttu og málarekstri Gráa hersins gegn skerðingum ellilífeyrisins. Engu að síður er það mikils virði að fá þetta staðfest og undirbyggt á óyggjandi hátt með fræðilegum aðferðum.
Skerðingarprósenturnar og jaðarskatturinn?
Undarlegt finnst þeim sem þetta skrifar hversu litla umfjöllun skerðingarhlutföllin fá í skýrslunni. Það er að segja grunn-skerðingarhlutföllin 45% hjá sambýlisfólki og 56,9% hjá einbúum, og svo enn hærri prósentur hjá þeim sem fresta lífeyristöku. Þessi hlutföll ákveða hversu mikið ellilífeyririnn skerðist vegna annarra tekna umfram frítekjumörk, s.s. launa fyrir vinnu, greiðslna frá lífeyrissjóði eða fjármagnstekna. Í skýrslunni er að vísu getið um mikil jaðarskattaáhrif sem verða þegar tekjuskattarnir leggjast við þessar skerðingar og gera það að verkum að lífeyristakar halda bara eftir 20 - 30 krónum af hverri 100 krónu tekjuaukningu. En meginorsök jaðarskattaáhrifanna, - hin ofurháu skerðingarhlutföll, - fær þó mjög litla umfjöllun í skýrslunni og höfundar gera enga tillögu um breytingar á þeim til lækkunar.
Heimilisuppbótin skekkir myndina
Ástæða er til að gagnrýna þá framsetningu í skýrslunni, að fjalla alltaf um samanlagðar greiðslur til einstæðra, - ellilífeyri plús heimilisuppbót, - sem viðmiðunarupphæð og titla hana „óskertan hámarkslífeyri.“ Þetta er reyndar sama „trikkið“ og ríkisstjórnin hefur notað síðan 2016 til þess að geta hælt sér af hærri upphæðum. Það sem mælir á móti þessari framsetningu er í fyrsta lagi að einungis minnihluti aldraðra, eða rúmlega fjórðungur, getur átt kost á þessari upphæð, þ.e. þeir sem búa einir og geta fengið heimilisuppbót. Stóri meirihlutinn fær eingöngu ellilífeyri og enga heimilisuppbót. Í öðru lagi er eðlismunur á þessum greiðsluflokkum. Ellilífeyririnn er skv. almannatryggingarlögum og er greiddur óháð búsetu. Heimilisuppbótin er hins vegar skv. lögum um félagslega aðstoð og greiðist ekki Íslendingum sem eru búsettir í útlöndum. Þetta er því ekki bara sami grautur í sömu skál.
Ellilífeyririnn einn og sér er sú stærð sem snýr að þremur af hverjum fjórum lífeyristökum og ætti því að sjálfsögðu að vera grunnviðmiðið. Heimilisuppbótin ætti svo að vera afleidd stærð af því grunnviðmiði. Sá sem þetta skrifar er reyndar sammála skýrsluhöfundum um það að heimilisuppbótin sé orðin óeðlilega há miðað við ellilífeyrinn. Hún er nú um 67 þús. kr. eða sem svarar til 25% viðbótar ofan á ellilífeyrinn sem er um 266 þús. kr. Skýringin á þessu er sú að landsstjórnin hefur á nýliðnum árum misnotað heimilisuppbótina til þess að falsa samanburð á lífeyri almannatrygginga við lágmarkslaun, - með því að hækka hana sérstaklega langt umfram hækkun ellilífeyrisins.
Tillögur til úrbóta
Sem fyrr segir beinast tillögur sem settar eru fram í skýrslunni einkum að tveimur þáttum: Hækkun á óskertum grunnupphæðum og hækkun frítekjumarka bæði gagnvart greiðslum frá lífeyrissjóði og atvinnutekjum. Önnur tól í „verkfærakistunni“ eins og t.d. lækkun skerðingarhlutfalla eða endurupptaka ótekjutengds grunnlífeyris eru látin ónotuð.
Lagt er til að „óskertur hámarkslífeyrir“ hækki í 375 þús. kr. Af umfjöllun á bls. 34-35 má álykta að höfundar telji hæfilegt að heimilisuppbótin sé 10-12% af samanlagðri upphæð, sem þýðir að þeir leggja til að ellilífeyririnn fari í 330.000 - 337.500 kr. Það er allt að 21. þús. kr. lægra en núgildandi lágmarkstekjutrygging og allt að 38 þús. kr. neðan við væntanlega tekjutryggingu ársins 2022. Þetta er sá tölulegi samanburður sem mestu máli skiptir og hann kallar á skýringar á því hvers vegna látið er staðar numið þarna með hækkun ellilífeyrisins, en ekki farið með hann alla leið að tekjutryggingunni, sem myndi þýða að enginn lífeyristaki þyrfti að una því að tekjur hans til framfærslu væru undir lágmarkstekjutryggingu.
Frítekjumörk atvinnutekna
Í þriðja lagi leggja höfundarnir til að frítekjumark atvinnutekna hækki úr 100 þús. kr. sem það er nú, upp í upphæð lágmarkstekjutryggingar á hverjum tíma, en hún er nú 351 þúsund. Þar með yrði frítekjumark atvinnutekna aftur orðið miklu hærra en frítekjumark lífeyrissjóðsgreiðslna. Alkunna er að margir aðilar, þ.á.m. samtök aldraðra, hafa kallað eftir því að dregið verði úr skerðingum vegna atvinnutekna eða þær afnumdar með öllu. Rökin sem færð hafa verið fyrir þessu eru m.a. þau að þetta myndi kosta ríkissjóð sáralítið og einnig hefur verið vísað til þess að í öðrum löndum, s.s. í Noregi geti lífeyristakar unnið að vild án skerðinga á ellilífeyri.
Bent hefur verið á það m.a. af þeim sem þetta skrifar, að ákaflega hæpið sé að meðhöndla tekjur fólks á mismunandi hátt að þessu leyti, eftir því hvort um er að ræða nýjar atvinnutekjur eða atvinnutekjur frá fyrri tíð, sem fólk hefur geymt í lífeyrissjóðnum sínum og tekur nú aftur til sín í ellinni. Til samanburðar myndu væntanlega fáir telja það sanngjarnt og eðlilegt að þessar tekjur væru skattlagðar í staðgreiðslunni á mismunandi hátt, - greiðslurnar úr lífeyrissjóðnum bæru fullan tekjuskatt, meðan atvinnutekjurnar væru að mestu skattfrjálsar.
Með gildum rökum má halda því fram að ólík meðhöndlun á þessum tekjum gagnvart skerðingum ellilífeyris sé einfaldlega óleyfileg mismunun sem stangast á við meginreglur réttarríkisins, - hvorki meira né minna. Slíka mismunun er auðvitað ekki hægt að réttlæta með því að hún kosti nú svo lítið. Og ekki heldur með vísun í að þetta tíðkist í Noregi. Þar er nefnilega ekki um neinar skerðingar ellilífeyrisins að ræða, hvorki vegna atvinnutekna né annarra tekna. Allar tekjur eru þar meðhöndlaðar á sama hátt og því getur ekki verið um neina mismunun að ræða.
Miklu betri tillaga varðandi frítekjumörkin væri því sú, að einungis yrði um að ræða eitt sameiginlegt frítekjumark gagnvart hverskyns tekjum. Ef upphæð þess væri sett t.d. í 150 þúsund til að byrja með væri það hagsbót fyrir alla. Fyrir þau sem eingöngu hafa tekjur frá lífeyrissjóði væri það 125 þús. kr. hækkun frítekjumarks frá því sem nú er, og fyrir þau sem hafa atvinnutekjur í bland við lífeyrissjóðsgreiðslur væri það hækkun um 25 þúsund kr.
Höfundur er arkitekt á eftirlaunum og skipar 6. sæti S-lista í Reykjavík norður.