Hún er komin aftur þessi tilfinning um mikið umrót í aðsigi og víðtæka óvissu í heimsmálum. Umskipti eru sjaldnast snögg en margt í veðrabrigðum samtímans bendir til að víðtækar breytingar á umhverfi okkar séu í vændum. Nýhafinn áratugur verður líklega sá síðasti sem alþjóðakerfið ber gagngert svipmót af uppruna sínum í nýlendutímanum og vestrænu forræði. Það væri nærtækt að líta á óvissuna nú sem afleiðingu af furðulegri forsetatíð Trumps og margslungnum áhrifum Covid enda hafa síðustu misseri leitt í ljós að færra er naglfast á sviði heimsmála en mönnum var tamast að telja.
Dýpri rætur
En orsakirnar fyrir óvissu tímans og tilfinningu um þáttaskil í vændum liggja dýpra. Kafi fólk í þá hluti sést að Trump var frekar sjúkdómseinkenni en sóttin sjálf. Tilkomu hans á meginsvið stjórnmála má skilja sem sögu um alþjóðlegar breytingar bæði í efnahagslífi og stjórnmálum sem eiga rætur í heimsvæðingunni. Áhrif hans lágu fyrst og fremst í því að hraða margvíslegri þróun sem áður var hafin. Sú þróun stefnir raunar í öfuga átt frá því að Ameríka verði aftur stór.
Það er líka fleira sem Covid hefur skýrt en það sem faraldurinn hefur breytt. Sú þversögn sést enn betur en áður að heimurinn er að verða að einum stað um leið og hann einkennist af dauðadjúpum sprungum. Ekkert af því á sérstakar rætur í Covid faraldrinum eða í trúðslátum Trumps. Hraði breytinga hefur hins vegar vaxið af þeirra sökum.
Ósigur valdsins
Við lok kalda stríðsins var hernaðarlegt, pólitískt og efnahagslegt afl Bandaríkjanna svo yfirþyrmandi í annars sundruðum heimi að því virtust fáar skorður settar. Alþjóðakerfið hvíldi einkum á tvennu. Annars vegar byggði það á tiltölulega svipaðri skynjun ríkja á ákveðnum meginhagsmunum sem birtust í aukinni opnun og vaxandi mikilvægi alþjóðlegra samninga og ýmis konar stofnana. Hin meginstoðin var mynduð af hervaldi Bandaríkjanna. Fyrra skeið heimsvæðingar hafði með svipuðum hætti byggt á sameiginlegum hagsmunum nýlenduvelda og hnattrænu flotaveldi Bretlands.
Í þessu samhengi er tilgangur hervalds að forða átökum með því að setja skorður við hversu mikið ríki geta gengið gegn almennum reglum kerfisins. Undarlega heimskuleg innrás Bandaríkjanna í Írak veikti þetta vald Bandaríkjanna stórkostlega. Forræði í heimspólitík byggir ekki á beitingu hervalds heldur á tiltrú á því að það sé til staðar, hægt sé að beita því við tiltölulega skilgreindar aðstæður og að það geti ráðið úrslitum. Þetta var stóra lexían af hruni breska heimsveldisins sem drottnaði í meira en öld en reyndist svo vera spilaborg þegar á reyndi í Austur-Asíu.
Tómarúm sem fylltist
Tiltrú er á endanum mikilvægasti gjaldmiðill alþjóðastjórnmála. Í hinu stóra samhengi var gengisfelling á þessum gjaldmiðli Bandaríkjanna mikilvægasta niðurstaða þeirra áratuga upplausnar sem fylgdi innrásinni í Írak.
Þau ríki sem vilja sækja sér aukin völd í alþjóðamálum eins og Kína, Rússland, Tyrkland , Íran og Indland tóku vel eftir þessu. Það gerðu líka enn fleiri ríki sem leita sér tryggrar verndar frekar en aukinna valda. Þarna má finna margar skýringar á framvindu þess leiks í alþjóðamálum sem nú stendur og leitar í fréttir með hundrað og einum hætti á hverjum degi. Eitt nýtt dæmi um þetta eru samningar Írana við Kína sem gætu að nokkru leyti rofið efnahagslega einangrun Íran og um leið bætt Kínverjum í þann vaxandi hóp ríkja sem Bandaríkjamenn þurfa núorðið að taka fullt tillit til í Miðausturlöndum. Annað dæmi má sjá í vaxandi fyrirferð Rússlands og Tyrklands á þessu sama svæði. Það þriðja sést á margvíslegri atburðarás í Asíu sem á sér rætur í endurmati ríkja á því hve miklar skorður Bandaríkin geti sett kínverskri valdapólitík í álfunni. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að Asía er heimkynni meirihluta mannkyns. Þar búa nær 60% allra manna á jörðinni.
Einn staður
Annað megineinkenni síðustu áratuga var heimsvæðingin sem jók stórkostlega hnattræn samskipti og ruddi burt múrum og hindrunum, bæði pólitískum og landfræðilegum um leið og hún orsakaði beinlínis mesta velsældarskeið mannkynssögunnar. Heimurinn færðist ört nær því að verða að einum stað og þá ekki síður í pólitískum og menningarlegum skilningi en efnahagslegum. Um leið urðu sumar brotalínur skarpari en áður, líkt og gerðist þegar alþjóðasamskipti hófust fyrst fyrir alvöru á 19. öld og þjóðernishyggja varð til sem pólitískt afl.
Heimsvæðingin byggði á því að eftir opnun Kína, fall Sovétríkjanna, stefnubreytingu Indlands og fleiri ríkja og um leið öra þróun samskiptatækni skapaðist grundvöllur fyrir tiltölulega sameiginleg skynjun þorra ríkja á hagsmunum af opnu og hnattrænu alþjóðakerfi.
Á síðustu árum hefur svo ýmis konar andstaða við heimsvæðingu, sem á sér raunar mjög ólíkar og sundurleitar rætur á ólíkum svæðum heimsins, færst í aukana. Sá skilningur hefur víða skapaðist að heimsvæðingin hafi leitt til vaxandi ójöfnuðar og til ýmis konar varnarleysis samfélaga. Sem hún og gerði. Hin hliðin á peningnum er hins vegar sá að heimsvæðingin leiddi líka til mestu lífskjarabyltingar sögunnar. Milljarðar manna í mörgum af fátækari löndum jarðar nutu stórkostlegra framfara en um leið fór munur innan samfélaga og þá ekki síst á Vesturlöndum ört vaxandi. Munur á milli ríkja minnkaði stórlega en ójöfnuður innan þeirra óx.
Tiltölulega sameiginlegur, eða í öllu falli ásættanlegur, skilningur ríkja heims á kostum opinna milliríkjaviðskipta hefur verið á undanhaldi síðustu misseri. Það sama má segja um stuðning við sífellt þéttara net alþjóðalaga, fjölþjóðlega samninga og margvíslegar alþjóðastofnanir. Í staðin hefur komið skarpari skynjun á mikilvægi ýmis konar þrengri hagsmuna hvers ríkis fyrir sig. Þetta birtist daglega í innanlandspólitík um allar jarðir og í mörgum greinum alþjóðamála. Þessir þrengri hagsmunir snúast sjaldnast um frelsi fólks, öryggi ríkja eða hagsæld almennings en oftar um pólitíska skynjun af því tagi sem Trump var eftirminnilegur talsmaður fyrir.
Stóra viðfangsefnið
Í þeim efnum hafa vaxandi viðskiptaátök á milli Bandaríkjanna og Kína skipt mestu þótt miklu fleira sé að gerast. Stærsta viðfangsefni alþjóðamála, bæði í efnahagslegu, pólitísku og hernarlegu tilliti er hvernig alþjóðakerfið getur rúmað ört vaxandi fyrirferð Kína án þess að brotna. Átökin nú snúast ekki einungis um áframhald fríverslunar og skilvirkra framleiðslukeðja, sem hafa einkennt heimsvæðingu síðustu ára, heldur einnig um meginatriði í stjórnmálum. Ólíkt því sem var um Sovétríkin á sínum tíma, sem ekki voru þátttakendur í heimsviðskiptum, snýst spurningin um Kína beinlínis um framtíð alþjóðlegs atvinnulífs. Til þessa hafa meginhagsmunir Kínverj, flestra annarra Asíuríkja og stærstu landa Suður-Ameríku, falist í að halda viðskiptakerfi heimsins tiltölulega opnu og þó ekki alveg. Þar er raunar hin stóra saga á bak við þá stórkostlegu lífskjarabyltingu sem hefur átt sér stað í Asíu og víðar og þá auknu velmegun sem hefur einkennt Vesturlönd á sama tíma.
Átökin framundan
En þarna er efinn. Aðstæður eru að breytast, harkan er að vaxa og hagsmungæsla ríkja er að verða þrengri. Hjá fjölda ríkja sem lúta einhvers konar einræði má greina vaxandi hörku og óbilgirni bæði heima fyrir og útávið. En þetta á líka við um mörg lýðræðisríki. Þar hafa hugmyndir þjóðernishyggju um óskert fullveldi, hættur af opnun til umheimsins og kosti heimatilbúinna reglna orðið vinsælli en þær hafa verið síðustu áratugi. Á móti toga hins vegar sterkir straumar. Heimsvæðing hugmynda um opinn heim, samfélög manna, jafnrétti fólks og kosti samvinnu hefur ekki stöðvast. Það hefur leit atvinnulífs heimsins að skilvirkni ekki heldur gert. Átök þessara meginstrauma munu knýja og móta innanlandspólitík og alþjóðlegar deilur þessa áratugs og ráða miklu um hvers konar kaflaskil við eigum í vændum.
Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.