Ég hef áður skrifað um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar viðraði ég þann kjánalega draum minn að Ísrael og Palestína yrðu eitt ríki. Menn hafa skipt sér í tvær fylkingar – þeir sem telja að Ísrael eigi rétt til að vera sjálfstætt ríki á grundvelli löngu liðinnar sögu og svo þeir sem horfa til þess hvernig Ísraelsmenn með bolabrögðum ráku Palestínumenn af landi sínu, brenndu híbýli þeirra og drápu þá sem reyndu að sporna í móti.
Í dag er mikið talað um hryðjuverkamenn. En fáir muna framferði Ísraelsmanna eftir stofnun Ísraelsríkis. Hryðjuverkamönnum þeirra var hampað um heim allan og forsprakkarnir voru nánast teknir í guðatölu – og þeim var síðan falin stjórn þessa „nýja“ ríkis.
Reynum að setja okkur í spor Palestínumanna
Það er ekki auðvelt. Við höfum ekki sambærilegt, nálægt dæmi um stofnun ríkis sem byggir á fornri sögu. En nú vil ég búa til dæmi sem mætti tengja við Ísland. Mörgum finnst örugglega að þetta dæmi sé út í hött en það er hollt að sem flestir ígrundi hvað hefði gerst ef menn hefðu fyrir nokkrum áratugum grafið upp gamlar sagnir og reynt að færa ástandið á Íslandi í fyrra horf. Við eigum að reyna að setja okkur í spor Palestínuþjóðarinnar
Papar voru samkvæmt íslenskum sagnariturum, írskir einsetumenn eða munkar sem settust að í eyjum og útskerjum Atlantshafsins og á Íslandi áður en landið byggðist af norrænum mönnum. Frægasta heimild um veru þeirra á Íslandi er Íslendingabók Ara Fróða Þorgilssonar. En þar segir:
Í þann tíð var Ísland viði vaxit á milli fjalls ok fjöru. Þá váru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla Papa, en þeir fóru síðan á braut, af því at þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, ok létu eftir bækr írskar ok bjöllur ok bagla. Af því mátti skilja, at þeir váru menn írskir.
Það er fátt við að styðjast nema sannleiksgildi Íslendingabókar um veru Papa á Íslandi. Nokkur örnefni, einkum suðaustanlands, tengjast Pöpum, til dæmis Papey, Papós og Papbýli. Steinristur í hellum á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum eru taldar vera frá Pöpum, en fyrir því eru engar sannanir (Heimild Wikipedia).
Írar hernema Ísland
Hvað er maðurinn að rugla? Ekki væri Írum trúandi til að reyna að eigna sér Ísland á grundvelli gamalla sagna. En Papar voru jú fyrstu landnámsmennirnir. Eiga Írar þá ekki kröfu samkvæmt sögnunum á því að eigna sér landið? Eru þessar sagnir kannski ekki eins helgar og göfugar líkt og sögurnar um gyðingana fyrir botni Miðjarðarhafs?
Margir hugsa sem svo: Írar myndu aldrei láta sér detta í hug að herja á Íslendinga með hryðjuverkum; brjóta niður og brenna hús okkar og drepa þá sem reyndu að sporna í móti. Að sjálfsögðu myndu þeir ekki gera þetta – við þekkjum þá af góðu einu. En við ættum í fullri alvöru að hugleiða þennan möguleika í því skyni að reyna að skilja hvernig farið hefur verið með Palestínubúa.
Tímavélin sem bræddi úr sér
Í vísindaskáldsögum er oft gripið til tímavéla svo einhverjir aðilar geti skroppið til fortíðarinnar og komið í veg fyrir hræðilega hluti í nútíð og framtíð. Stofnun Ísraelsríkis er skýrt dæmi um tímavél sem bræddi úr sér. Í stað þess að skapa réttlæti uppskáru menn algjöran glundroða og hörmungar.
Hvað réttlætir það að ein þjóð í heiminum á allt í einu að fá yfirráð yfir landi sem hún réði fyrir, mörg hundruð árum fyrr? Hvað með allar hinar þjóðirnar sem hnepptar hafa verið í ánauð eða reknar burt af landi sínu; að öðrum kosti drepnar - útrýmt. Allir sjá að við getum engan vegin flúið aftur í tímanum til að rétta hlut einstaklinga og þjóða í dag. Úr því verður ekkert annað en algjör hryllingur.
Gyðingarnir máttu þola hrylling í Helförinni en margir hafa bent á að Evrópuþjóðirnar voru hallar undir stofnun Ísraelsríkis vegna samviskubits, þar sem þær komu gyðingum ekki til hjálpar þegar mest á reyndi.
Í dag eru margir farnir að kalla hlutina réttum nöfnum. Þjóðir heimsins hafa horft upp á þjóðarmorð á Palestínumönnum allt frá stofnun Ísraelsríkis. Þjóðir heimsins hafa horft upp á Helför þeirra.
Flóttamenn og landtökubyggðir
Meirihluti Palestínumanna – milljónir – hafa þurft að flýja burt af landi sínu til nágrannalandanna. Við horfum vanmáttug á stærstu flóttamannabúðir heimsins í nágrannaríkjum Ísraels. Þar ríkir eymd og volæði. Börnin og ungt fólk hafa ekki kynnst öðru lífi en lífinu innan búðanna – ef líf skyldi kalla. Þeir gyðingar sem sem gátu flúið hörmungar Helfararinnar þurftu ekki að setjast að í flóttamannabúðum – þeir fengu skjólgóð híbýli með salerni og sturtu.
Ísraelsmenn hafa nú um áratugaskeið byggt hús – stór og smá – ólöglega – á hernumdum svæðum og enn drepa þeir karla, konur og börn sem í máttleysi sínu reyna að sýna heiminum hve líf þeirra er lítils virði í augum herraþjóðarinnar.
Lærdómur af helförinni?
„Lærðu gyðingar ekkert af Helförinni,“ spyrja margir. Ég vil fyrst spyrja: „Lærðu þjóðir heimsins ekkert af Helförinni?“ Hvernig er það mögulegt að fjölmargar þjóðir leggja blessun sína yfir þjóðarmorð fyrir botni Miðjarðarhafs og mikinn fjölda flóttamanna frá Palestínu í kjölfarið?
Það er sorglegt að gyðingar virðast ekki hafa lært annað af Helförinni en það að þeim sé leyfilegt að koma fram við Palestínumenn eins og komið var fram við gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni.
Er til raunhæf lausn?
Af hverju eru Ísraelsmenn ekki þvingaðir til að stoppa þjóðarmorð á Palestínumönnum?
Af hverju eru Ísraelsmenn ekki þvingaðir til að skila hernumdu svæðunum frá sex daga stríðinu?
Af hverju eru Ísraelsmenn ekki þvingaðir til að afhenda Palestínumönnum húsin sem byggð hafa verið á landtökusvæðunum – þeim svæðum sem samkvæmt alþjóðalögum var ólöglegt að byggja?
Maður gæti jafnvel látið sig dreyma um að þar gætu landflótta Palestínumenn og einhver hluti Ísraelsmanna skapað mannúðlegt samfélag. En að sjálfsögðu eru það hreinir draumórar af því að það eru einmitt ofstopafyllstu og hatursfyllstu gyðingarnir sem sest hafa að í þessum byggðum. Og hatrið er líka til staðar hjá Palestínumönnum.
Stöðvum þjóðarmorðið og helförina
Í dag stöndum við ráðþrota gagnvart því að Nethanjahu, núverandi forsætisráðherra Ísraels, rís keikur upp úr leðjubeði sínu. Enginn talar lengur um spillinguna sem grasserað hefur í kringum hann. Nú er hann hylltur af löndum sínum og fjölmörgum ráðamönnum heimsins sem hershöfðinginn er enn einu sinni drepur saklaust fátækt fólk – karla, konur og börn.
Í dag stöndum við ráðþrota gagnvart því að hann getur þakkað ráðamönnum Bandaríkjanna og margra fjölmargra annarra landa fyrir það að sitja aðgerðarlausir hjá og horfa á eldana.
Og íslenski forsætisráðherrann og íslenski utanríkisráðherrann „hafa áhyggjur“ af ástandinu og hvetja til vopnahlés. Þeir leggja að jöfnu athafnir Hamas og athafnir nauðgaranna – þegar þeir fyrrnefndu veita nauðgurunum léttan löðrung. Jú, að sjálfsögðu eiga báðir sömu sök á á þessum hryllingi – ekki satt?
Er ekki kominn tími til að þjóðir heimsins leysi rembihnútinn sem þær áttu stærstan þátt í að hnýta?
Er ekki kominn tími til að þjóðir heimsins stöðvi þjóðarmorð á Palestínumönnum?
Er ekki kominn tími til að þjóðir heimsins opni augun fyrir Helför Palestínumanna?
Höfundur er framhaldsskólakennari.