Skopmynd Helga Sigurðssonar, skopmyndateiknara Morgunblaðsins, sem birtist í blaðinu í gær hefur vakið mikla athygli, og hlotið gríðarlega gagnrýni. Hana má sjá hér að ofan. Samfélagsmiðlar hafa hreinlega logað vegna hennar og umræða um hana verið lituð miklum hita. Flestum virðist þykja myndin afar ósmekkleg, endurspegla óþol eða illvilja í garð flóttamanna og bera öll merki þröngsýni og jafnvel kynþáttafordóma (enda allir skipverjar á myndinni svartir). Þá hefur ritstjórn Morgunblaðsins einnig verið harðlega gagnrýnd fyrir að birta myndina. Sumir úr hópi gagnrýnenda hafa gengið allt of langt og heimtað skerðingu á atvinnufrelsi teiknarans, sem þó birtir efni sitt á ábyrgð ritstjórnar Morgunblaðsins. Flestir hafa hins vegar látið sér nægja að lýsa skoðunum sínum á myndinni.
Margir sjálfskipaðir unnendur frelsis hafa séð sér leik á borði og vaðið af fullri hörku í þá sem gagnrýna mynd Helga. Þeirra á meðal er þingmaðurinn Brynjar Níelsson sem sagði á Facebook-síðu sinni að „fólkið sem hafði mikla þörf á að tjá ást sína á Charlie Hebdo er froðufellandi af reiði vegna skopmyndar í Mogganum í gær. Þetta er mikið til sama fólkið og er upptekið af friðhelgi einkalífsins og persónuvernd nema þegar kemur að fjármálum og tekjum annarra. Telur sig jafnvel styðja frelsi í atvinnu og viðskiptum ef undanskilið er áfengi og allt kynlífstengt. Ég held að þetta fólk hafi litla ást á tjáningarfrelsi og öðrum borgarlegum réttindum nema þegar það hentar þeim sjálfum. Er þetta ekki sjálfselska frekar en ást á Charlie Hebdo?“
Í bakherberginu eru menn sammála um að fólk sem sýndi Charlie Hebdo samstöðu eftir að vopnaðir menn réðust inn á skrifstofur tímaritsins og skutu ellefu manns til bana sé ekki að sýna af sér óheyrilega hræsni með því að gagnrýna skopmynd Helga Sig. Í gagnrýni, jafnvel þótt hún sé lituð með stórum lýsingarorðum, felast nefnilega ekki ritstjórnartilburðir og þaðan af síður hótun eða beiting ofbeldis.
Helga Sig er frjálst að búa til ósmekklegar skopmyndir og Morgunblaðinu er frjálst að birta þær. En á sama hátt er þeim sem finnst lítið til verksins koma fullfrjálst að gagnrýna það. Í því felst tjáningarfrelsið.