Í síðustu viku reyndi stjórnarandstaðan að fá Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í sérstaka umræðu um verðtryggingu á Alþingi. Afnám verðtryggingar var enda eitt helsta kosningarloforð Framsóknarflokksins og Sigmundur Davíð sagði í aðdraganda síðustu kosninga að afnám hennar væri einfalt. Verðtrygging gegnir þrátt fyrir þann einfaldleika enn jafnstóru hlutverki í efnahagslegum veruleika Íslendinga í dag og hún gerði vorið 2013.
Tillaga var felld og kom Sigmundur Davíð þeim skilaboðum á framfæri að hann teldi að afnám verðtryggingar væri á borði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann ætlaði sér ekki að ræða hana með þessum hætti við stjórnarandstöðuna.
Sama dag og tillagan var felld mætti forsætisráðherra hins vegar í viðtal við útvarpsmennina Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í Bítinu á Bylgjunni og rabbaði við þá um verðtryggingu.
Þessi staða skapaði, enn og aftur, umræðu um hið sérstaka samband sem Sigmundur Davíð á við útvarpsstöðina Bylgjuna. Tíðir gestir þar hafa ekki komist hjá því að heyra umkvartanir annarra ljósvakamiðla, sem þrífast á viðtölum og viðbrögðum við tíðindum, yfir því að Sigmundur Davíð mæti svo oft í spjall á Bylgjunni að hann sé nánast eins og gestastjórnandi í nokkrum mismunandi þáttum sem á dagskrá hennar eru.
Til að rökstyðja þessa tilfinningu var greiningardeild bakherbergisins kölluð út til að telja tíðni samtala sem Sigmundur Davíð á við þáttastjórnendur á Bylgjunni. Á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum hennar er að forsætisráðherra hafi verið til viðtals í morgunþættinum Bítinu alls tíu sinnum frá því í desember 2013. Þar af hefur hann rætt við stjórnendur morgunþáttarins sex sinnum á þessu ári og alls þrisvar sinnum frá því í lok ágúst.
Frá því að Sigmundur Davíð tók við embætti forsætisráðherra vorið 2013 hefur hann alls rabbað við umsjónarmenn Reykjavík Síðdegis 26 sinnum, þar af níu sinnum á þessu ári. Þá er Sigmundur Davíð einnig tíður gestur Sprengisands, sem er á dagskrá á sunnudögum, og var meðal annars þar um liðna helgi.
Það er auðvitað hið besta mál að forsætisráðherrann tjái sig sem oftast og honum er fullfrjálst að velja þá vettvanga sem hann gerir slíkt á. Hvort tíðni þeirra viðtala sem forsætisráðherra veitir á Bylgjunni sé óeðlileg skal einnig ósagt látið. En ljóst er að honum virðist líða betur með dagskrárgerðarmönnum þar en víða annars staðar.