Krónan, líkt og langflestir gjaldmiðlar, er gefin út af hinu opinbera. Grundvöllurinn fyrir tilvist hennar er sá sami og flestra annarra gjaldmiðla í gegnum tímann: þú, íbúi Íslands, borgar skattana þína í krónum. Ef þú borgar þá ekki ferðu í steininn og þar sem fæstir vilja enda í tugthúsinu býr þetta til eftirspurn eftir krónum. Einkaaðilar sem þurfa að borga skatta fylgja svo hinu opinbera eftir og setja upp samninga þar sem upphæðir eru í krónum, t.d. verð mjólkurlítra úti í búð.
Krónan er því eins og hver annar gjaldmiðill. Hún er gjaldmiðill því hið opinbera segir að hún sé það, þ.e. með henni og henni einni skalt þú borga skatta á Íslandi. Það er því umhugsunarefni hví Íslendingar virðast vilja kenna þessum gjaldmiðli um hitt og þetta sem öðrum gjaldmiðlum er ekki kennt um. Grein Bjarna Janusarsonar í Kjarnanum hinn 7. ágúst síðastliðinn var góð að því leyti að í henni kristölluðust svo mörg af þeim atriðum sem krónunni er kennt um. Ég ætla að nefna eftirfarandi og reyna að útskýra hví þau atriði eru röng.
Krónan og vextir
Röksemdafærslan fyrir því að krónan hafi áhrif til hækkunar á vaxtastig á Íslandi er í stuttu máli sú að þar sem svo fáir séu að nota krónuna (hagkerfið er svo lítið) sé eftirspurn eftir henni lítil og vextir verði að vera hærri til að lokka aðila til að eiga krónur. Væri þetta raunin ætti þetta að gilda í öðrum hagkerfum líka, þ.e. lítil hagkerfi, með eigin mynt, ættu að vera með hærri vexti en stór hagkerfi með eigin mynt.
Raunin er að fylgnin þar á milli er afskaplega veik – sjá Mynd 1. Svo virðist sem stærð hagkerfa hafi hverfandi áhrif á vexti innan þeirra.
En hvað er það þá? Og hvað eru vextir á annað borð?
Vextir eru, í grundvallaratriðum og burtséð frá mikilvægum stofnanalegum áhrifum, það verð sem þú vilt fyrir að gefa eftir tafarlaus yfirráð yfir ákveðinni upphæð reiðufjár. Þú færð ekki vexti fyrir það að spara því þú getur ákveðið að spara sömu upphæð í formi reiðufjár eða með því að lána fyrirtæki úti í bæ. Sparir þú í formi reiðufjár geturðu eytt viðkomandi upphæð hvenær sem þú vilt, sem veitir þér hugarró og getu til að mæta ófyrirsjáanlegum útgjöldum. Þetta getur þú ekki ef þú lánar til fyrirtækis úti í bæ því þú verður að bíða eftir því að lánið verði greitt til baka.
Keynes benti réttilega á að skammtímavextir gætu verið „hverjir sem er“. Fyrir utan 4. áratug síðustu aldar, þegar hið opinbera fylgdi ráðgjöf Keynes og sýnt var fram á í verki að hann hafði rétt fyrir sér, hefur kreppan eftir 2008 sýnt hið sama: stýrivextir, þ.e. skammtímavextir, víðs vegar um heiminn eru nú nærri núlli. Seðlabanki Íslands getur gert nákvæmlega hið sama og stærstu seðlabankar heims þegar kemur að stýrivöxtum á Íslandi. Það er ekki krónan sem stoppar stýrivexti á Íslandi frá því að vera „hverjir sem er“. Það er hagfræðimódel Seðlabanka Íslands og sú (ranga) hugmynd að best sé að hafa áhrif á gang hagkerfis með stýrivaxtabreytingum.
Meginvandamálið er langtímavextir. Þótt málið sé flóknara þegar kemur að langtímavöxtum er það ennþá stofnanaumgjörðin sem skipti mestu máli. Dæmi um augljós áhrif stofnanaumgjarðarinnar á Íslandi á langtímavexti er uppbygging lífeyrissjóðakerfisins. Það þarf ekki að segja mörgum það að ef stærsti aðilinn á einhverjum markaði er lagalega skyldugur til þess að heimta ákveðið, og hátt, verð fyrir vöruna sem hann höndlar með mun það hafa teljandi áhrif á markaðinn allann. Heldur virkilega einhver því fram að 3,5% viðmiðið hafi ekki teljandi áhrif á langtímavexti á Íslandi? Sá hinn sami vill þá væntanlega halda því fram að vaxtaþök og -gólf hins opinbera á bankakerfið á sínum tíma hafi ekki haft áhrif?
Hið opinbera í Bretlandi fylgdi ráðleggingum Keynes og sýndi að ekki aðeins væri hægt að hafa skammtímavexti hverja sem er heldur gilti hið sama um langtímavexti. Það sem þurfti var að beita peningamálastefnunni á ákveðinn máta, sem og var gert með góðum árangri. Hægt væri að nota svipaða peningamálastjórn á Íslandi og með henni væri komið í veg fyrir yfirgengilegar sveiflur í vöxtum. Vandamálið sem stafar af lífeyrissjóðakerfinu er hins vegar utan við áhrifasvið peningamálastefnunnar. Það vandamál verður að leysa á annan hátt: að horfast í augu við það og taka á því.
Áhrifin af gjaldmiðlinum á vexti eru því engin og í versta falli hverfandi – sem sjá má á Mynd 1. Hins vegar, líkt og stofnanalegir þættir, hafa væntingar mikil áhrif á vaxtastig. Og einn áhrifaþáttur væntinga er verðbólga.
Krónan og verðbólga
Krónan hefur misst mest allt upprunalegt verðgildi sitt síðan hið opinbera setti hana á stofn. Með öðrum orðum hefur verðbólga „verið fylgifiskur krónunnar“ eins og einhver gæti komist að orði.
Nú tel ég mig sæmilega að mér kominn, þótt ég segi sjálfur frá, þegar kemur að kenningum um orsakir verðbólgu. Ég hef hins vegar aldrei séð alþjóðlega viðurkennda kenningu þess efnis að gjaldmiðlinum sjálfum sé kennt um eigin virðisrýrnun. Samt á það að vera raunin í tilviki Íslands. Orð Bjarna í fyrrnefndri grein eru dæmi: „Krónan veldur einnig hærri verðbólgu. Verðbólgan er mikil af því að við erum með litla og veika mynt.“
Tökum augljósasta dæmið: peningamagn í umferð. Við getum öll verið sammála um að krónan, sem gjaldmiðill, ræður engu um það hversu mikið er búið til af henni. Það eru bankar sem búa til ca. 95% af krónum, þ.e. peningum, í umferð á Íslandi. Og frá 1886, sem er ártalið sem tölur Hagstofunnar ná aftur til, til ársloka 2013 jókst peningamagn í umferð ríflega 211.000.000-falt.
Þrátt fyrir að hagkerfið hafi stækkað töluvert síðan þá er sú stækkun hverfandi í samanburði við þessa tölu. Þess vegna hefur verðbólga „verið fylgifiskur krónunnar“ síðan hún var sett á fót: virðisrýrnun krónunnar hefur ekkert með það að gera að hún sé „lítil og veik mynt“ heldur er hún vegna þess að það er búið að búa til of mikið af henni í gegnum tíðina.
Krónan og verðtrygging
Verðtrygging er hluti af stofnanaumgjörð íslenska hagkerfisins. Líkt og svo margir aðrir stofnanalegir þættir var verðtrygging sett á laggirnar sem svar við þáverandi vandamáli: verðbólgu. Við höfum þegar séð að verðbólga hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera og því er fráleitt að halda því fram að gjaldmiðillinn hafi eitthvað með verðtryggingu að gera: ef A (krónan) leiðir ekki af sér B (verðbólgu) en B leiðir af sér C (verðtrygging) leiðir A ekki af sér C.
En verðtryggingin hefur hvetjandi áhrif á verðbólgu. Þetta atriði var augljóst í upphafi þegar laun voru verðtryggð og í fyllilegu samræmi við þá fræðilegu niðurstöðu að því algengari sem verðtrygging er í hagkerfi, þeim mun hærri verður verðbólga (því nafnstærðir innan hagkerfisins munu sífellt hækka á víxl og hundurinn nær aldrei að bíta í skottið á sér, sama hversu hratt hann hleypur). Þegar verðtrygging launa var tekin úr sambandi minnkuðu þessi áhrif. En þau eru ennþá til staðar. Verðbólga á Íslandi hefur verið há m.a. vegna þess að verðtrygging er algeng og þótt hundurinn hlaupi ekki jafn hratt í hringi og hann gerði þá hleypur hann enn.
Þess aukin heldur hefur verðtryggingin áhrif á peningamálastefnu Seðlabankans: lántakar verðtryggðra lána eru varðir fyrir stýrivaxtabreytingum svo að þörf verður á enn meiri breytingum, þ.e. sveiflum, í stýrivöxtum til að ná fram áætluðum áhrifum á hagkerfið. En einmitt þessar stýrivaxtabreytingar eru að stórum hluta ábyrgar fyrir spákaupmennsku með krónuna, sem aftur veldur því að gengi hennar verður sveiflukennt til skamms tíma. Langtímasveiflan eykst líka því ekki tekst að halda aftur af útþenslu peningamagns í umferð með peningamálastefnunni. Afleiðingin verður verðbólga, viðskiptahalli og gengisfall sem jafnvel getur endað, eins og raunin varð, með gjaldeyrishöftum.
Að finna blóraböggul
Sannleikurinn um krónuna er bitur. Hann er bitur því þótt mörgum þyki það þægilegt er ekki hægt að benda á hana sem blóraböggul fyrir heimatilbúin vandamál Íslendinga. Háir vextir, verðbólga, viðskiptahalli og gengissveiflur hafa ekkert með krónuna að gera heldur stofnanalegt umhverfi hagkerfisins. Krónan er saklaus bakari í hagkerfi sem smiðurinn – Íslendingar – hefur búið til stofnanalega umgjörð um sem hefur ákveðnar efnahagslegar afleiðingar. Og sem endranær er lausnin ekki að hengja bakarann þegar smiðurinn er sekur.