Hinsegin fjármögnun Moving mainstream er yfirskrift skýrslu sem kom út um hópfjármögnun á vegum Cambridge háskóla í vikunni. Á Íslandi gæti þessi yfirskrift vel átt við undanfarna mánuði. Síðustu jól hefði verið hægt að redda öllum jólagjöfunum með bókum, geisladiskum og spilum sem komu út eftir hópfjármögnun.
Í umræðunni snemma á þessu ári um faldar skattaupplýsingar heyrðust fljótt uppástungur um að almenningur hópfjármagnaði kaup sönnunargögnum yrði hið opinbera trekt til. Á sama tíma brugðust nokkrir fyrrverandi starfsmenn DV við dramtatískum breytingum á eignarhaldi blaðsins með því að hópfjármagna Stundina, nýjan miðil, á Karolina Fund. Stundin lét þannig reyna á mátt fjöldans og um 1300 manns svöruðu kallinu, flestir á innan við sólahring. Cambridge skýrslan talar um hópfjármögnun sem “óhefðbundna fjármögnun”. Umfang hennar var strax árið 2013 í það minnsta 5.1 milljarðar bandaríkjadala alþjóðlega. Þó þetta sé enn brotabrot allrar fjármögnunar sýna flestar tölur mikla aukningu á milli ára á þessari starfsemi, s.s. 144% vöxt 2014 í Evrópu.
Allt snýst þetta um peninga. Hópfjármögnun er nú orðin, og skömmum tíma, ein stoðin í færslu á fjármagni til verkefna.
Umfang hópfjármögnunar á Karolina Fund árið 2014 var til að mynda 400% miðað við árið á undan. Það er því ljóst að vöxturinn er hraður, en ætli “hinsegin” fjármögnun verði einhverntíman venjuleg? Kynslóðir 20. aldarinnar ólust upp við miðla eins og útvarp og sjónvarp, þar sem ein rödd talaði til milljónana annarra, og aðeins aðra áttina. Á félagsvæddu interneti síðustu ára hefur þessu verið umturnað, og okkur þykir jafn sjálfsagt að hlaða upp eigin myndskeiði og okkur þykir að horfa á annarra. Við kommentum okkar eigin sjónarmiðum viðstöðulaust á skilaboð að ofan og ritstýrum okkar eigin fréttaveitu beint til okkar vina í gegnum vettvanga eða “platforma”.
Hópfjármögnun yfirfærir þessi nýju menningarlegu módel yfir á fjármögnun. Lesendur bóka, til dæmis, eru ekki lengur aðeins neytendur á afurð sem ritstjórar eða forlög ákveða að eigi að verða til. Þeir geita tekið sig saman til að leggja fram peningana sem til þarf til að gefa út bók fyrirfram gegn eintaki af útkomunni síðar. Þessháttar hópfjármögnun nefnist umbunarhópfjármögnun (rewards based crowdfunding) og er sú sem þekkist nú á Karolina Fund, en önnur módel tíðkast einnig. Þannig sýnir Cambridge skýrslan fram á mjög mikinn vöxt hópfjármögnunar á lánsfé. Þá taka hundruðir eða þúsundir manna sig saman um að lána verkefni, fyrirtæki eða einstakling peninga, beint sín á milli.
Í þessháttar lánastarsemi verða milliliðirnir, fjármálastofnunarnir, oft óþarfar eða útundan, enda nefnist starfsemin oft jafningjalán (peertopeer lending). Annað módel sem mikið hefur verið rætt og vex hratt er hlutafjárfjármögnun (equitty based crowdfunding) þar sem umbun fjöldans sem tekur þátt í fjármögnuninni er ekki afurð frameiðlsunnar heldur hlutur í fyrirtækinu.
Bankar eins og árið 1900?
Að mörgu leyti virkar fjármagn enn eins og gamla sjónvarpsmastrið og viðtækið: Stórar stofnanir deila og drotna til minni aðila. Einn höfunda skýrslunnar, Bryan Zhang, benti ínýlegum fyrirlestri á að engin grundvallar breyting hafi orðið á skilvirkni bankastarsemi frá því árið 1900, þó að síðan þá hafi bankarnir lagt undir sig sífellt stærri hluta hagkerfisins. Þessi þversögn milli gríðarlegs vaxtar sem ekki eigi sér samsvörun í skilvirkni útskýri möguleikann a uppgangi óhefðbundinnar fjármögnunar.
Þarna kemur auðvitað líka til almennari notkunar á netinu í daglegu lífi sem gerir það praktískt fyrir stóra hópa að vinna saman sem einn. Bryan Zhang nefnir einnig að víðtæk tortryggni mælist nú meðal almennings gagnvart stórum stofnunum, sem geti einnig útskýrt þennan vöxt.
Staða Íslands
Cambridge skýrslan áætlar að umfang óhefðbundinnar fjármögnunar á Íslandi sé nú um 1,9 evrur á hvern íbúa. Þetta er nokkuð á undan Danmörku og Noregi, en töluvert á eftir Svíðþjóð þar sem óhefðbundin fjármögnun var 10.9 evra á mann, og langt á eftir Bretlandi, sem leiðir listann miðað við höfðatölu. Þar sá hvert mannsbarn fyrir 36 evrum í óhefðbundna fjármögnun árið 2014. Óhefðbundin fjármögnun á Íslandi á því mögulega mikið inni, og myndi næstum tuttugufaldast við það eitt að ná núverandi stöðu breska markaðarins. Munar þar að einhverju leyti um að hér á landi hefur hópfjármögnun á láns og hlutafé ekki hafist að neinu ráði enn.
Stundin nýtti sér hópfjármögnun til þess að koma fótunum undir fjölmiðilinn, með góðum árangri.
Stofnanir taka við sér
Í flestum evrópuríkjum á sér stað eða hefur nú þegar farið fram einhverskonar þróun á regluverki samhliða uppgang hópfjármögnunar, sérstaklega þegar kemur að hlutafjár og lánastarfsemi, sem erfir eldra umhverfi. Margt fleira bendir til þess að stofnanir séu að taka í ríkara mæli eftir því að hinsegin fjármögnun sé að koma út í dagsljósið, og að bankar og hefðbundnar fjármálastofnanir reyni að aðlaga sig og taka upp aðferðafræði þaðan.
Rannsóknir Cambridgemanna sýna að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem taka fé að láni með hópfjármögnun segjast líklegir til að nota þessa aðferð aftur, jafnvel þó þeim byðust sambærileg kjör hjá bönkum. Markedsmodningsfonden, sjóður í eigu danska ríkisins, hefur riðið á vaðið og tilkynnti nú í janúar mótframlag í dönsk hópfjármögnunarverkefni. Þannig muni sjóðurinn setja eina krónu á móti hverri krónu sem samþykkt dönsk verkefni safni með hópfjármögnun. Þessi aðferð gæti reynst snjöll leið til að virkja almenning í ákvarðanartökur á því hvaða verkefni hið opinberi eigi að styðja, og gefur ráðstöfun opinbers fés ákveðinn sýnileika og gegnsæi. Almenningur á Íslandi er í auknu mæli að átta sig á hvernig hægt er að beina samstöðu fjöldans saman með hópfjármögnun. Aðalega hefur þessi kraftur verið nýttur í skapandi verkefni, oft innan listageirans þar sem opinber stuðningur hrekkur oft skammt.
En fyrir þjóð sem hefur átt í stormasömu sambandi við eigið fjármálakerfi, og umræður um banka, lánakjör og eignarhald yfirgnæfa stundum fréttatímann, þá er hópfjármögnun raunhæfur kostu. Á næstu árum sjáum við hvort og að hve miklu leyti hún mun spila rullu.
Skýrsla Cambridge háskóla um óhefðbundna fjármögnun kom út 23. febrúar og má lesa hér.