Lítil umfjöllun sést um hlut mannvirkjageirans í hnattrænni hlýnun mannsins samanborið við aðra veigaminni þætti.
Yfir 40% gróðurhúsalofttegunda eru rakin til mannvirkjagerðar. Vegasamgöngur losa 5% gróðurhúsalofttegunda. Þetta sýna viðurkenndar alþjóðlegar rannsóknir. Þannig samsvara neikvæð áhrif mannvirkjagerðar á umhverfið áttföldum neikvæðum áhrifum bíla, mælt í magni gróðurhúsalofttegunda. Bara sement skapar 60% meira af gróðurhúsalofttegundum á heimsvísu en umferð á vegum.
Ekkert bendir til þess að íslensk mannvirkjagerð sé á einhvern hátt umhverfisvænni en erlend. Það má þó lesa út úr þeim gögnum sem stjórnvöld leggja fram. Með einföldum hætti má sjá að losun í íslenskri mannvirkjagerð er hlutfallslega meiri en í löndunum í kringum okkur. Við steypum til dæmis fleiri okkar mannvirkja samanborið við Norðurlönd og Evrópu. Þá eru íslenskar byggingar almennt efnismeiri en víða erlendis. Og lítið er það ekki sem byggt hefur verið undanfarin ár. Þetta eru veigamiklir þættir sem gera bara eitt; að ýta losun upp á við í samanburði við flest lönd í Evrópu.
Að magn gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum á Íslandi sé sexfalt (skv. útreikningum Umhverfisstofnunar) meðaltal helstu samanburðarlanda er óeðlilegt. Hér er um að ræða afvegaleiðandi ranga framsetningu á grundvallarupplýsingum um loftslagsvandann. Þannig er það því miður með margt sem yfirvöld miðla til almennings á umhverfis- og mannvirkjasviði um þessar mundir. Að það gerist undir forystu stjórnmálaafls sem kennir sig við græn málefni eru vonbrigði.
Um þetta eigum við engar rannsóknir og gögn (tölfræði) frekar en um annað á mannvirkjasviði. Of litlu er varið til þróunar, nýsköpunar og rannsókna á umhverfis- og mannvirkjasviði Íslands. Þó eru til gamlar rannsóknir frá Háskóla Íslands sem sýna að efnismagn í íslenskum byggingum er meira en víðast hvar – og munar þá miklu. Við einfaldlega elskum steinsteypu og notum mikið af henni. Ef við framleiddum bíla myndum við steypa þá og það helst í innkeyrslunni hjá viðskiptavininum fremur en fjöldaframleiða í hagnýtri verksmiðju.
Hvað gerir umhverfis- og mannvirkjagerð annarra þjóða umhverfisvænni en okkar? Norðurlönd og flest Evrópulönd nota hlutfallslega meira timbur. Þá er notkun forframleiddra mannvirkjaeininga þróaðri, ekki undantekning heldur regla víðast hvar. Enn fremur er tækniþekking, hönnun og hönnunarstýring almennt af betri gæðum í nágrannalöndunum, sem birtist í bestun, samræmingu hönnunar (sbr. þema mygla) og vali lausna. Við erum óskipulögð, viljum redda hlutum og slökkva elda, gefum okkur almennt of lítinn tíma í undirbúning verkefna. Að hluta til er fjármögnunaraðferðum um að kenna. Hér er stiklað á stóru, margt fleira kemur til.
Hnattræn hlýnun bitnar á fátækasta fólki jarðarinnar. Stærstur hluti fjármagns leitar í fasteignir; steypu, stál og grjót. Enda hefur steinsteypa löngum talist örugg fjárfesting. Engin þjóð getur litið fram hjá þeim gríðarstóra drifkrafti sem fjárfestingar í innviðum og fasteignum skapa í hnattrænni hlýnun – Ísland gerir það samt. Íslensk mannvirkjagerð er þó ekki undanskilin ábyrgð, jafnvel þótt sement sé ekki lengur framleitt á Íslandi hefur sementsnotkun á Íslandi umhverfisáhrif.
Sjálfum þykir mér óeðlilegt að stjórnmálaflokkur sem kennir sig við græn málefni láti sem losun í íslenskri mannvirkjagerð sé lítil sem engin, sérstaklega þar sem losunin er langt yfir þekktum meðaltölum í efnisnotkun. Þótt umhverfisráðherra velji að sleppa því í skýrslugerð sinni að upplýsa um losun íslenskrar mannvirkjagerðar - í skýrslugerð landsins færustu sérfræðinga að sögn ráðherrans – þýðir það ekki að losunin sé ekki raunveruleiki. Fjárfestingar á Íslandi skapa gróðurhúsalofttegundir, það er raunveruleikinn.
Umhverfismálaumræðan á Íslandi er að mínu mati á verulegum villigötum og lítið upplýsandi fyrir almenning. Skilaboð stjórnvalda eru misvísandi og aðgerðarleysið óábyrgt – ekki nóg að segjast ætla gera voðalega mikið rétt fyrir kosningar. Reyndin er sú að reikningurinn fyrir sannanlega íslenska losun gróðurhúsalofttegunda er skilinn eftir hjá fátækasta fólki jarðarinnar – ábyrgðinni varpað á aðra sem fá að hreinsa upp okkar sóðaskap. Stjórnmálaflokkur sem byggir hugmyndafræði sína á umhverfis- og mannréttindamálum ætti ekki að hegðað sér svona.
Við getum auðvitað gert miklu betur og ættum að vilja byggja landið með bestu þekkingu, hæfni og heiðarleika að leiðarljósi. En þá þarf að hleypa að þekkingu, færni og reynslu. Það eru til lausnir og það er til þekking, hvoru tveggja er þó markvisst úthýst í vildarvinakerfinu. Að grænn stjórnmálaflokkur skilji ekki loftslagsvandann eftir fjögur ár í ríkisstjórn er í stuttu máli óásættanlegt. Gefum nýju fólki tækifæri.
Höfundur er verkfræðingur.