Það er engu líkara en grein eftir Gunnar Braga Sveinsson, formann þingflokks Miðflokksins, sem birt er í Morgunblaði gærdagsins, 28.04.´21, sé samin úti í horni á Klausturbar. Hann ruglar, maðurinn, skrifar um Kóvid, hroka heilbrigðisráðherra, samstöðu þingsins og fleira og fleira. Skilst mér af lestrinum. Og greinin verður/ er eins og hræringur; hafragrautur með skyri. Og kekkir bæði í grautnum og skyrinu.
Þótt Gunnar Bragi beri mál sitt fram fyrir neytendur eins og slettu á plasti, er þar þó að finna þrennt sem varpar ljósi á innræti hans, meðvitund og ætlan með skrifunum. Það sést ef hrært er upp í sullinu.
Í fyrsta lagi man hann ekki - eða veit ekki/ vill ekki vita - að félagar hans í Miðflokknum, undir forystu aðal-formannsins, hafa mánuðum saman verið með hnýflana í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisráðherra vegna innkaupa á bóluefni og framkvæmda á landamærum. Þeir hafa verið illyrtir og neikvæðir á alþingi og í blaðaskrifum. Framganga þeirra flokkast hvorki sem heilbrigð gagnrýni né samstaða, samkvæmt íslenskri málvenju, heldur sem nöldur, raus, hallmæli; ósamstaða. Og hann móðgast niður í iljar, þingflokksformaðurinn þegar bent er á skort á samstöðu á þingi.
Í þriðja lagi fullyrðir hann að fjölmiðlar hafi flutt „tilkynningar og boðskap stjórnvalda gagnrýnislaust og í rúmt ár hefur þjóðin ekki þorað annað en að standa saman. Heilbrigðisráðherra hefur nýtt sér þetta og í skjóli faraldursins reynt að knésetja allt einkaframtak í heilbrigðismálum og klúðrað mikilvægum málum líkt og skimun fyrir leghálskrabbameini."
Þeir sem fylgst hafa með umræðunni og þróun mála vita að formaður þingflokks Miðflokksins er að ýkja úr hófi fram. Af hverju gerir hann það? Um það verður ekki fullyrt hér. En það má spyrja sig. Margra spurninga. Ein verður fljótt áleitin. Þessi: Ætlar Miðflokkurinn og formenn hans að heyja sína kosningabaráttu með því að bera ósannindi upp á heilbrigðisráðherra og níða hann í tíma og ótíma?
Og ein spurn af tilefni, utan dagskrár eigi að síður. Þessi:Hvað á þingflokksformaðurinn við með lokaorðum þessarar málsgreinar sinnar: „Fyrir nokkru bentu tveir þingmenn á þann möguleika að fá lánaða skammta af bóluefnum eða þá að kaupa umframbirgðir til að flýta bólusetningum. Það þótti ótækt, en viti menn, nokkrum vikum síðar var búið að fá lánaða skammta af bóluefnum og heilbrigðisráðherra ber sér á brjóst.“
Hvað merkir orðatiltækið „að berja sér á brjóst" í þessu samhengi, herra þingflokksformaður?
Höfundur er rithöfundur.