Á árunum fyrir hrun áttu þau sjónarmið mjög upp á pallborðið, m.a. í fjölmiðlaumræðu, að eftirlitsstofnanir hins opinbera hefðu vaxið úr hófi. Aðgerðir þeirra væru að miklu leyti til þess fallnar að skaða íslenskt atvinnulíf. Þær gengju allt of hart fram. Þeir sem þessu héldu fram slógu um sig með hugtökum eins og „eftirlitsbyrði“, „eftirlitsiðnaði“ og „eftirlitsáþján“. Þeir spurðu hvort íslenskt samfélag hefði efni á eftirlits- og réttargæslustofnunum af þessu tagi.
Við bankahrunið voru þessir sömu aðilar, sem kalla má hagsmunagæslumenn, miður sín yfir því að eftirlitsstofnanir hefðu ekki staðið vaktina.
Nú þegar nokkuð er liðið frá hruni eru hagsmunagæslumennirnir orðnir hressir aftur. Þeir eru búnir að dusta rykið af hugtökunum sínum. Að þeim læðist ljótur grunur um að annarleg sjónarmið búi að baki ákvörðunum eftirlits- og réttargæslustofnana. Höfundar nafnlausra dálka slá hinu sama föstu. Þeir spyrja hvort íslenskt samfélag hafi efni á svona eftirliti og eftir atvikum ákæruvaldi.
Að Samkeppniseftirlitinu hefur undanfarið verið beint talsverðri gagnrýni af þessum toga. Nefna má sem dæmi umfjöllun tengda ákvörðun sem eftirlitið tók nýverið í kjölfar rannsóknar á samráði Byko og Húsasmiðjunnar. Samkeppniseftirlitið birti á heimasíðu sinni ítarlega ákvörðun þar sem gögn eru metin og tekin afstaða til sjónarmiða aðila málsins. Á heimasíðunni er einnig að finna sérstaka upplýsingasíðu sem m.a. er ætlað að vera til leiðbeiningar viðskiptavinum viðkomandi fyrirtækja, en ekki síður þeim sem kynnu að vera í sömu sporum og þau.
Þeir sem vilja taka sjálfstæða afstöðu til ákvörðunarinnar og sjónarmiða gagnrýnenda hennar, er bent á að gefa sér tíma til að fara á heimasíðuna og kynna sér efni málsins. Samkeppniseftirlitið mun síðan taka afstöðu til sjónarmiða aðila málsins og svara gagnrýni þeirra fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og eftir atvikum dómstólum. Það er hinn lögformlegi farvegur sem svona málum er skipaður.
Verk Samkeppniseftirlitsins eru ekki óskeikul frekar en önnur mannanna verk. Þess vegna er mikilvægt að hægt sé að láta reyna á ákvarðanir þess. Eftirlitið víkur sér heldur ekki undan málefnalegri gagnrýni, því hún er oft gagnleg. En Samkeppniseftirlitið frábiður sér hins vegar gagnrýni þar sem gefið er í skyn að annarleg sjónarmið búi að baki, líkt og haldið hefur verið fram í fjölmiðlaumfjöllun.
Í öllum úrlausnum vakir það fyrir Samkeppniseftirlitinu að fara að fyrirmælum löggjafans og beita sambærilegum samkeppnisreglum með sambærilegum hætti og í viðskiptalöndum okkar. Hafa ber í huga í þessu sambandi að Samkeppniseftirlitið er í flestum brotamálum að beita ákvæðum EES-samningsins um bann við ólögmætu samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu, samhliða hinum íslensku ákvæðum.
Í úrlausnum eftirlitsins er lögð áhersla á að nýta samkeppnislög til þess að hraða endurreisn atvinnulífsins og stuðla að aukinni framleiðni. Af því leiðir einnig lægra verð og betri þjónusta. Eftir hrun hefur starf eftirlitsins m.a. miðað að því að torvelda fyrirtækjum að velta tjóninu af hruninu yfir á neytendur, en samkeppnislagabrot geta öðrum þræði verið tæki til þess.
Alþjóðlega er viðurkennt að ávinningur almennings af öflugu samkeppniseftirliti er gríðarlegur, ekki síst í litlu samfélagi eins og okkar, þar sem fákeppni er ríkjandi.
Svo kann að fara að málflutningur hagsmunagæslumannanna skili smátt og smátt þeim árangri að veikja það eftirlit sem samfélagið hefur byggt upp sér til varnar. Til þess er kannski leikurinn gerður. En þegar næstu efnahagsáföll dynja yfir verða hinir sömu hagsmunagæslumenn fyrstir til þess að stíga fram og benda á eftirlitsstofnanirnar. Enn og aftur hafi þær brugðist. Ástæðanna verður ábyggilega ekki leitað víðar.
Höfundur er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.