Stríð draga fram bæði það versta og oft líka það besta í mannskepnunni, þau sýna oft hetjudáðir, en einnig botnlausa grimmd. Þegar Bandaríkjamenn réðust með ólöglegum hætti inni í Írak árið 2003, þá hvarf gríðarlegt magn fornminja og allar fjárhirslur íraska ríkisins voru rændar. Í kjölfar innrásar fylgdi síðan grimmileg borgarastyrjöld og trúarbragðastríð. Það sama er núna uppi á teningnum í Úkraínu, þar er kerfisbundið verið eyðileggja, ræna og rupla úkraínska menningu. Þá hafa hroðaleg grimmdarverk verið framin, t.a.m. í borginni Bútsja.
Talið er að gríðarlegur fjöldi menningarverðmæta hafi nú þegar verið fjarlægður og fluttur burt frá borgum og bæjum landsins frá því að átök brutust út árið 2014 í austurhluta landsins, svæðinu Donbas. Það sama má segja um Krímskagann, sem Rússar (les: Vladimír Pútín) innlimuðu einnig árið 2014. Þessi mál voru rædd af sérfræðingum í sænska ríkissjónvarpinu fyrir skömmu í sérstökum þætti.
Síðastliðna tvo mánuði hafa Rússar ekki bara verið að eyðileggja og mylja í sundur borgir og bæi Úkraínu, heldur er einnig verið að ráðast á menningu landsins og í raun verið að reyna að eyða henni. Margir af fremstu listamönnum fyrrum Sovétríkjanna (sem Úkraína tilheyrði frá 1922-1991) koma einmitt frá Úkraínu, bæði rithöfundar, listmálarar og fleiri.
Ráðist á menningarborgir
Ein af þeim borgum sem verst hafa orðið úti er Kharkiv, við landamærin við Rússland, en hún er önnur stærsta borg Úkraínu, með um 1,5 milljónir manna. Borgin er menningarborg UNESCO og á árunum 2019-2020 voru haldnir yfir 5000 menningarviðburðir sem um 500.000 manns sóttu. Í borginni eru 24 söfn, 17 myndlistargallerí og 14 leikhús. Kharkiv hefur sætt linnulausum árásum, á sama tíma og íbúarnir reyna að vernda menningarverðmæti með ýmsum hætti. Það gera íbúar í fleiri borgum einnig.
Á lista SÞ yfir heimsminjar eru sjö staðir í Úkraínu. Þeirra merkastur er e.t.v. Sofia-dómkirkjan, í höfuðborginni Kíev, með sínum fjölmörgu gullskreyttu turnum, en bygging hennar hófst á 11.öld.
Þá er einnig elsti bæjarhluti borgarinnar Lviv (nálægt pólsku landamærunum) á listanum, en á þá borg hafa Rússar gert flugskeytaárásir á þá borg og fjöldi flóttamanna hefur flúið til Lviv.
Um Sofia-dómkirkjuna segir í grein í Morgunblaðinu frá árinu 2004:
„Þessi sögufræga borg var lögð í rúst í innrás Hitlers. Það stóð ekki steinn yfir steini. Og það sem Hitler sást yfir lauk Stalín við eftir stríð. Það tókst á síðustu stundu að bjarga sjálfri Soffíukirkjunni – þessari sögufrægu gersemi – með klækjum undan sprengjusérfræðingum Stalíns. Það er ótrúlegt að hugsa sér þetta núna. Borgin hefur verið byggð upp á nýtt, nákvæmlega eins og hún var. Byggð upp úr rústunum, og allt er óbreytt – á yfirborðinu. Konur og karlar, börn og gamalmenni, allir lögðust á eitt. Með eigin höndum byggðu þau borgina sína enn og aftur. Og Úkraínumenn eru stoltir af borginni sinni. Kannski er það menningin sem hefur hjálpað þessari þjóð að lifa af og halda áfram að trúa á hið fagra og hið góða í lífinu. Það fer ekki fram hjá manni, að menningin virðist vera ein af meginstoðum mannlífs í Úkraínu. Hún stendur djúpum rótum, öllum aðgengileg og er eðlilegur hluti af daglegu lífi fólks. Óperan, ballettinn og leikhúsin eru opin almenningi gegn vægu gjaldi.“
Ríkharður III = Pútín (eða öfugt)?
Fyrir skömmu voru sýndir á RÚV þættir um höfuðskáld Breta, Willam Shakespeare. Í einum þessara þátta var fjallað um einn konunga þeirra, Ríkharð III, sem réði yfir Bretum í aðeins tvö ár, frá 1483-1485. Hann er talinn hafa verið einn grimmasti valdhafi Breta fyrr og síðar.
Í þáttunum er því lýst að hann hafi í raun ekki átt tilkall til þeirra valda sem hann fékk og eftir að hann fékk þau myrti hann og ruddi úr vegi nánast öllum i kringum sig. Honum er lýst sem einstaklega grimmum manni, en að í lok ferilsins hafi hann staðið eftir einn og yfirgefinn, enda búinn að losa sig við nánast alla í kringum sig.
Ekki er laust við að hugurinn hvarfli til einvaldsins í Rússlandi við þessa lýsingu, því samanburður Pútíns við Ríkharð III er alls ekki út í hött. Pútín átti t.d. ekkert tilkall til þeirra valda sem hann fékk í kringum síðustu aldamót og er búinn að halda óslitið síðan. Það var ekkert gefið að hann yrði fyrir valinu. Enn einn þeirra kosta sem réði var edrúmennska hans, en fyrirrennari Pútíns í starfi, Boris Jeltsín, var blautur með eindæmum og sagt að hann hafi byrjað að drekka í kringum hádegi.
Fjöldi stjórnarandstæðinga og blaðamanna hafa látið lífið á vakt Pútíns, meðal annars með eitrunum í öðrum löndum (m.a. Alexander Litvinenko í Bretlandi). Og góðmennskan drýpur ekki heldur af Pútín, sem er búinn að vera í stríði meira og minna allan ferill sinn, fyrst í Téténíu árin 1999-2009, svo Georgíu árið 2008, svo Donbas frá 2014, svo Sýrlandi frá 2015, (er það búið?) og nú síðast innrás í Úkraínu.
Ríkharður III var síðasti konungurinn af York-ættinni og við honum tóku hinir svokölluðu Túdorar. Vladimír Pútín er ekki af neinni sérstakri ætt. Hann er almúgamaður frá hinni margfrægu borg Sankti Pétursborg (fyrrum Leningrad) sem hefur að geyma einhver mestu menningarverðmæti Rússlands, meðal annars hið margfræga Hermitage-safn/Vetrarhöllina. Þar bjó keisarinn Nikulás II, þegar honum var steypt af stóli á vordögum 1917. Síðar sama ár kom svo rússneska byltingin/valdataka bolsévíka.
„Móðirin“ skotmark
Kíev er annáluð fyrir menningu og margbreytileika og hún er sögð vera „móðir Rússlands“. Undanfarna daga hafa verið gerðar árásir á borgina, þó flestir hermanna Rússa séu farnir þaðan og hafi dregið sig til austur, þar sem verið er að undirbúa einhvern áframhaldandi hroða gagnvart íbúum Úkraínu.
En hver ræðst á móður sína? Hvurslags valdhafi er það? Í viðtali við fjölmiðla fyrir skömmu sagði boxarinn heimsfrægi og borgarstjóri Kíev, Vitalý Klitsjkó: „Þessi innrás var algerlega ástæðulaus, hún er bara brjálæði í huga eins manns.“ Þar smellhitti boxarinn naglann á höfuðið!
Um páskana (samkvæmt tímatali úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar,seinna en hjá okkur) hefur „páskaeggjum Pútíns“ rignt yfir Úkraínu, en þá gerðu Rússar fleiri hundruð sprengjuárásir á skotmörk í landinu. Þá er hafin (og í gangi) stórsókn í austurhlutanum, í Donbas, en það svæði hyggst Pútín „frelsa“ undan Úkraínumönnum. Á sama tíma koma fram upplýsingar sem benda til um enn frekari stríðsglæpa Rússa, t.d. í borginni Mariupol.
Þar hefur Pútín sagt að framin hafi verið „þjóðarmorð“ af nasistum, en það eru lygar og ekkert annað, enda bæði forseti Úkraínu af gyðingaættum, sem og fleiri í kringum hann. Segja má að Pútín og kreðsa hans séu í raun bara gengi af lygurum, þar sem sannleikurinn/það sem er satt og rétt, skiptir bara engu máli.
Því er til dæmis stöðugt logið að rússnesku þjóðinni að það sé ekkert stríð í Úkraínu og allt sé þetta þeim að kenna. Sögunördinn Pútín stundar því umfangsmiklar sögufalsanir.
En hin rétta saga verður svona: Þann 24. febrúar árið 2022 réðist Rússland inn í sjálfstætt og fullvalda ríki, Úkraínu, og reynir nú eftir fremsta megni að leggja landið og menningu þess í rúst.
Hvenær þessu blóðbaði í boði einvaldsins og „tsarsins“ í Kreml lýkur, það er svo önnur saga. En útlitið er dökkt.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.