Eitt það versta við eftirlitssamfélög lögregluríkja og auðvaldsmeistara er hrun lýðræðis. Við sjáum bæði austan- og vestanhafs að þegar lýðræðisleg gildi eru brotin niður kemur í staðinn pláss fyrir egóista sem svífast einskis í nafni gróða og valda. Dæmi um þetta eru hertar reglur gegn mótmælum í Bretlandi, andlát rannsóknarblaðamennsku í Bandaríkjunum og ákvörðun embættismanna Reykjavíkurborgar um að koma í veg fyrir að Kanye West-stytta yrði reist við Vesturbæjarlaug.
Kanye West hefur gert meira fyrir mig en Jónas Hallgrímsson, Káinn, Gunnar Gunnarsson og Snorri Sturluson samanlagt. Efalaust geta einhverjir þeirra 772 aðila sem greiddu atkvæði með styttunni á vefkosningu Reykjavíkurborgar sammælst mér, en þá vaknar spurningin: Hefði styttan verið reist ef við hefðum beðið um eitthvert af fyrrnefndum skáldum í staðinn fyrir hæstvirtan West?
Svarið er hiklaust já, því að þær styttur hafa verið reistar af íhaldssömum borgarskipulagsstjórum áður og ég að mannskapur hjá styttustjórn Rvk. hafi ekki verið uppfærður undanfarin 50 ár. Ef við förum út í það þá held ég að ekki aðeins styttustjórn sundlauga heldur Ísland sjálft hafi alltaf verið í höndum leiðinlegrar íhalds/auðvaldsklíku. Allt frá landnámi til dagsins í dag. Lygin um frjálst val í vefkosningu Reykjavíkurborgar gæti þannig séð verið sett í samhengi við orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, þegar hann segir að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum.
Er lýðræði á Íslandi? Getur lýðræði þrifist í landi þar sem stærstu fréttaveitur Íslands eru reknar af hagsmunahópum? Getur jafnaðarstefna þrifist á eyju þar sem fiskveiðikvóti gengur í ættir? Getur Sjálfstæðisflokkurinn sagst styðja fullveldi Íslands ef hann vill áframhald danskrar stjórnarskráar? Hvers eiga fílar að gjalda? Er þetta sker verðugt styttu af lárviðarskáldinu Ye?
Við höfum nýlega fengið að sjá hversu lítið almenningsálit skiptir máli, ekki í Kanye West-málinu, heldur varðandi stjórnarskrána. 43.423 undirskriftir ættu að vera töluvert veigameiri en 772 undirskriftir, þó er verið að sópa báðum málum jafn snyrtilega undir teppi. Stjórnarskráin er ekki mikilvæg fyrir núverandi ríkisstjórn, sem er frekar til í að ræða sölu bankanna en eflingu lýðræðis og nútímavæðingu stjórnmála fyrir 21. öldina.
Allt sem þú lest er lygi, söng Maus. Nú fer að styttast í óöld kosningaloforða og Facebook-myndbandafalsfrétta með tilheyrandi umræðum um stjórnarskrá og borgaralýðræði, pottþétt gagnsæi í ríkisrekstri líka. Ég vil bara segja að ef einhver flokkur vill vera tekinn alvarlega af mér þarf hann að lofa niðurrifi styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli og í stað hans kæmi gullhúðaður Kanye fyrir framan Alþingi. Íhaldið sem er á móti því má leggja til Drake-styttu í staðinn.
Höfundur er nemi við Menntaskólann á Akureyri.