Hvað er það fyrsta sem allir nefna þegar kemur að launum eða bótum?
Öryggi.
Við viljum vera örugg um að slys eða sjúkdómar hafi ekki miklar breytingar á það sem eftir er ævi okkar. Við viljum viðhalda tekjum og frelsi. Framfærsla verður því að snúast um lágmarks tryggingu fyrir alla, óháð starfsgetu.
Til að ná saman um nýtt kerfi þurfa og að verða töluverðar breytingar. Einfalda þarf kerfið og minnka flókna útreikninga og óskiljanlegar skerðingar eða hreinlega leggja fram nýtt kerfi.
Mín hugmynd er að færa örorkubætur til launakerfis með sömu tengingu við lífeyrissjóði og allur vinnumarkaður. Greiðslur úr lífeyrissjóði eru þá m.v. réttindaávinnslu. Réttur væri til sérstaks lífeyrissparnaðar. Stóra breytingin er að ríkið verður 100% ábyrgðaraðili fyrir örorkuhlutdeildinni, ekki lífeyrissjóðirnir.
Fallið verði frá hámarksupphæðum og þess í stað tryggðar lágmarksupphæðir. Launin eru bundin á föstu hlutfalli við lágmarks heildarlaun á vinnumarkaði og þá t.d. samningum VR.
Heildarupphæð „framfærslu“ eru lágmarks heildarlaun fyrra árs. Þannig yrði lágmark ársins 2022, 341.500 króna laun en að auki 3.500 króna samgöngustyrkur sem ríkið rukkar á sveitina. Til viðbótar greiðir ríkið 6.000 krónur í varasjóð. Þessir þrír liðir skulu þá ná saman heildar lágmarkslaunum fyrra árs (2021), 351.000 krónum á mánuði.
Nýleg hugsun er varasjóður (að fyrirmynd VR) að upphæð 6.000 krónur á mánuði sem rétthafar geta sótt í allt að 60.000 krónur á ári – skattfrjálst. Hér er viss vörn við óvæntum uppákomum.
Þegar að almenn réttindi nálgast lágmarkslaun mun frítekjumark öryrkja verða verulega umdeilt. Frítekjumark öryrkja lækki því í 70.200 krónur og til að fylgja launaþróun, er það 20% lágmarks-heildarlauna hverju sinni.
Þar sem að um launakerfi er að ræða greiðast desember- og orlofsuppbætur sömu upphæðar og samningar almenna vinnumarkaðarins t.d. VR við SA. Eingreiðslur frestast þó ekki milli ára.
Þegar frítekjumarki sleppir ræður starfshlutfall en ekki upphæð. Þannig heldur fólk í hlutfalli reynslu og menntunar til launa. Heildin verði 100% laun. Ef fólk er þannig með 50% örorkumat og í 50% starfi lækkar framfærsla um 20% en óháð upphæð launanna. 20% eru þá frítekjumark. Réttur öryrkja verði til almennra/sérstakra húsnæðisbóta síðan eins og hvers annars borgara.
Slíkt kerfi borgar sig þá að mestu leyti upp á sama hátt og almennir lífeyrissjóðir þ.e.a.s. 3,5% ávöxtun til 40 ára en getur sökum þeirra sem eru öryrkjar alla ævi teygt sig í 49 ár. Hækkunin þar hlutfallslega rís þá úr ætlaðri 80.3% tryggingarvernd (40 ár) 15,5% inngreiðslu (106% / 1.32) upp í 98,3% tryggingavernd (49 ár).
Hér er í raun verið að skylda ríkið til að spara fyrir lífeyrisárum öryrkja á sama hátt og það skyldar fólk á vinnumarkaði undir lögum 129/1997.
Það tekur tíma að spara. Kerfið verður framþungt en að öllu leyti er hér uppi sama staða og á almennum vinnumarkaði 1969 og opinberum 1919.
Höfundur er áhugamaður um réttindi öryrkja.