Í söguspegli er áhugavert að skoða keimlíka atburðarás í húsnæðismálum Englands, Svíþjóðar og Íslands. Þessi lönd eru sambærileg um margt. Þau teljast til dæmis strjálbýl þegar flatarmál þeirra er borið saman við fólksfjölda viðkomandi svæðis.
Frá alþjóðlegum flugvöllum Íslands og Svíþjóðar liggur leiðin til borganna að mestu yfir hálfgert eyðiland. Minna en tíundi hluti af flatarmáli Englands eru manngerðar byggingar. Skortur á landrými er því ekki haldbær skýring á sameiginlegri uppákomu í borgum landanna. Það er viðvarandi húsnæðiskreppa.
Í þessum löndum hefur myndast kynslóð af fólki sem fær ekki öruggt þak yfir höfuðið. Þrátt fyrir þokkalega innkomu og menntun.
Í Englandi og Svíþjóð er þetta fólk kallað "Generation rent" og "Mammbor", (Hótel mamma).
Nafnið er það eina sem vantar á íslensku hliðstæðuna. Tilvist hennar er augljós.
Á Íslandi er hátt fasteignaverð oft útskýrt með háum vaxtakostnaði. Sem er satt, svo langt sem það nær. Í Svíþjóð og Englandi eru húsnæðisvextir hins vegar nálægt núllinu. Engu að síður er fasteignaverð þar komið út úr korti fyrir almúgann.
Húsnæðisvandi landanna þriggja er ekki náttúrulögmál, eða tæknilegt vandamál. Skýringin er skortur á haldbærri húsnæðispólítík. Til að finna rót vandans þarf að horfa hálfa öld aftur í tímann.
Fyrir um fimmtíu árum fór í gang umfangsmikið húsnæðisátak í ofangreindum löndum. Ástæðurnar voru sameiginlegar. Tilgangurinn var að bregðast við ófremdarástandi á húsnæðismarkaði. Og koma stórum "Barnasprengju " árgöngum eftirstríðsáranna í mannsæmandi húsaskjól. Verkalýðsfélögin knúðu fram viðbrögð stjórnvalda við vandanum.
Ljóst var að "frjáls markaður " uppfyllti ekki þarfir almennings í húsnæðismálum. Í Svíþjóð voru í framhaldinu byggðar yfir miljón leiguíbúðir (Miljonprogrammet) á einum áratug.
Í Englandi byggðu og ráku sveitarfélögin "council houses", leiguíbúðir sem almenningur gat búið í alla ævi ef það óskaði. Leigan var hófleg, og reiknuð út frá almennum ráðstöfunarlaunum.
Íslenska útgáfan hét einfaldlega Verkamannabústaðir. Hún samanstóð af fjöldaframleiddum blokkaríbúðum í Breiðholti og víðar.
Á Íslandi voru íbúðirnar seldar verkamönnum á hagstæðum lánum. Eignamyndun var þó hæg, og rekstarformið flókið. Íslenska verðbólgan jók enn á flækjustigið.
Allar voru þessar húsnæðislausnir börn síns tíma. Þó mynduðu þær á sínum tíma stöðugleika á húsnæðismarkaði. Það hugtak er horfið í íslenskum húsnæðismálum. Sama gildir í Svíþjóð og Englandi.
Samnefnarinn á áðurnefndu tímabili var sú pólítíska sýn að húsnæði væri lífsnauðsyn. Rétt eins og orka, vatn, fráveita osfrv. Því þótti ekki sjálfsagt , heldur beinlínis skylda að sveitarfélögin sæu almenningi fyrir valkosti við séreignarstefnuna. Hún var engu að síður yfirgnæfandi í umræddum löndum.
Um 1980 komst ríkisstjórn Margaret Thatcher til valda í Englandi. Hún hratt af stað atburðarás sem ekki sér fyrir endann á. Almannatenglar hönnuðu fyrir hana slagorðið "The right to buy". Það snerist um að leigjendur "council" íbúða fengu að kaupa húsnæði sitt á góðum kjörum af viðkomandi sveitarfélagi.
Þá var tappinn dreginn úr baðkarinu í félagslegri húsnæðispólítík Englands. Sáralítið var byggt í stað þess sem seldist. Þetta var ávísun á húsnæðiskreppu komandi kynslóða. Sama ferli hófst síðar í Svíþjóð og á Íslandi. Afleiðingarnar eru æ sýnilegri.
"The right to buy" er skólabókardæmi um hvernig sleginn er pólítískur víxill í húsnæðismálum. Greiðendur eru komandi kynslóðir. Ekki þarf út fyrir íslenska landsteina til að finna sambærileg útspil og afleiðingar. Í dag er húsnæðispólítíkin meira eða minna hönnuð af almannatenglum. Yfir þúsund ódýrum leiguíbúðum er lofað. Á næsta kjörtímabili....
Einn hluti af efnahagspólítík Thatcher var einkavæðing á opinberum rekstri og þjónustu. Ekki síst fjármálaþjónustu. Þessar kenningar fengu fádæma undirtektir á Íslandi. Í háblóma íslenska nýlíberismans lognaðist félagslega húsnæðiskerfið út af.
Frjáls markaður íslenska Thatcher trúboðsins átti að sjá almeningi fyrir ódýru og öruggu húsnæði. Um sama leyti var svo fjármálakerfi landsins einkavætt eftir Pútínskri uppskrift.
Þótt ótrúlegt megi virðast var síamstvíburi bankakerfisins (húsnæðismarkaðurinn) aldrei sjúkdómsgreindur eftir hrun. Þessi kerfisvilla í formi ýktrar séreignarstefnu var endurlífguð í óbreyttri mynd. Stjórnvöld eyða miljarðatugum í sömu gjaldþrota húsnæðispólítík og gilti fyrir hrun.
Því skal engan undra að sömu sjúkdómseinkennin birtast aftur ljóslifandi á íslenskum húsnæðismarkaði. Og það einungis sjö árum eftir hrun. Rétt eins og fyrir hrun tekur meðvirknismók stjórnvalda í húsnæðismálum á sig margar myndir.
Gullkorn á umboðsmaður (húsnæðislána)skuldara. Hann vill að skjólstæðingar sínir fái meiri lán, svo þeir geti elt síhækkandi fasteignaverð. Vandamál: Of mklar húsnæðisskuldir. Lausn :..... Enn meiri húsnæðisskuldir....
Önnur verðlaun fara á Seltjarnarnes. Þar vilja menn lána ungu fólki nokkrar miljónir fyrir útborgun í íbúð. Aðgerðin yrði í raun félagsleg aðstoð við bólgið bankakerfi með myljandi hagnað. Út af myglaðri húsnæðispólítík.
Fyrstu verðlaun fær málsgrein úr skuldaleiðréttingunni. Hún ber yfirskriftina "Ný hugsun í húsnæðismálum".*
Þar kemur fram að leigjendur geti safnað sér fyrir íbúð. Hvaða almannatengill samdi þennan óborganlega texta?
Málsgreinin er hugsanavillan í íslenskum húsnæðismálum. Í hnotskurn.
Unnt verður að ráðstafa séreignarlífeyris