Bára Huld Beck skrifar leiðara Kjarnans laugardaginn 26. mars sl.
Umfjöllunarefnið er ofarlega á baugi í umræðu dagsins: nýting og/eða vernd náttúruauðlinda okkar. Kveikjan er ummæli höfð eftir Heiðari Guðjónssyni forstjóra um fólk sem segist hugsa með hjartanu en tali með rassinum.
Því miður fellur Bára Huld í þá gryfju að nota hugtakið náttúra eins og þar sé um að ræða fyrirbæri sem sé einhverskonar aðili sem eigna megi ýmsa eiginleika eins og að eiga sjálfstæða hagsmuni, hún geti orðið fyrir tjóni, verðlaunað góða hegðun og jafnvel refsað fyrir misgerðir. (Til skýringar skal þess getið að orðið tjón felur í sér einhvers konar skaða sem aðeins formlegur aðili getur orðið fyrir. Náttúran getur hins vegar orðið fyrir raski af völdum manna eða annarra náttúruafla). Í þeirri fallgryfju er hún í fjölmennum félagsskap með mörgum ágætum listamönnum og öðrum húmanistum. Má þar nefna sérstaklega Pál Skúlason, fyrrum rektor HÍ þar sem Bára Huld vitnar í skrif hans.
Til að hægt sé að eiga skilvirka samræðu um málefni þurfa málsaðilar að leggja nokkurn veginn sama skilning í þau hugtök sem notuð eru. Stutta skilgreiningin á náttúru er væntanlega sú að þar sé um að ræða þann hluta umhverfis okkar sem ekki er manngerður og tekur þá hnattrænt til bæði lífríkisins og annarra náttúrufyrirbæra.
Af því leiðir að það er hrein rökvilla að ræða um náttúruna sem einhvers konar hagsmunaaðila eins og Bára Huld og fleiri gera.
Hún gerir sér tíðrætt um „mannhverf viðhorf til náttúrunnar“ og telur það ranga og ófullnægjandi nálgun, segir orðrétt:
„Mannhverf viðhorf til náttúru snúast um að maðurinn sé yfirburðavera og sé í raun æðri náttúrunni, þ.e. mennirnir geti gert hvað sem þeir vilja við náttúruna og auðlindir jarðar ef það hentar þeim. Maðurinn hafi þannig engar siðferðilegar skyldur gagnvart náttúrunni heldur aðeins gagnvart öðrum mönnum sem einnig hafa siðferðisvitund.
og
Ómannhverf viðhorf til náttúru lýsa sér í þeirri sýn á náttúruna að hún hafi gildi í sjálfu sér, algjörlega óháð mannlegri reynslu eða upplifun. Mennirnir eru hluti af heildinni og þeim er skylt að horfa sömu siðferðilegu augum til náttúrunnar eins og annarra manna.“
Varla verður því mælt á móti að maðurinn er yfirburðavera í þeim skilningi að hann er hin eina skepna jarðarinnar sem hefur tæknilega getu til að gera næstum hvað sem er við náttúruna og er á sama hátt eina skepnan sem getur haft einhvers konar viðhorf til hennar, sem er þá óhjákvæmilega mannhverft. Af skilgreiningunni leiðir líka að náttúran hefur ekkert gildi í sjálfu sér og að við höfum engar siðferðilegar skyldur gagnvart henni þar sem hún getur ekki verið aðili af því tagi sem fær notið slíkra skuldbindinga. Hins vegar hefur náttúran og öll hennar fyrirbæri gildi fyrir okkur einstaklingana hvern og einn með ýmsum og fjölbreytilegum hætti og fráleitt að segja að þar með sé mönnum heimilt að umgangast umhverfi sitt eins og hverjum og einum kann að þóknast.
Einu siðferðilegu skuldbindingarnar sem verið getur um að ræða í þessu sambandi eru gagnvart meðborgurum okkar og kynslóðum framtíðarinnar og þær skuldbindingar eru sannarlega ekki léttvægar. Til að standa undir þeim verðum við að nota þá víðtæku þekkingu sem við höfum aflað með vísindalegum aðferðum. Svo hversdagslegt og órómantískt sem það hljómar verður leiðarljósið að vera hyggindi og skynsemi við að meta hagsmuni mannkynsins til langs tíma. Slíkt mat getur áreiðanlega leitt til verndunar ákveðinna landsvæða og náttúrufyrirbæra.
En mestöll mannleg starfsemi kallar á raforku og það í stöðugt auknum mæli. Vissulega er unnið hörðum höndum við að afla grænnar orku en ávinningurinn á því sviði gerir lítið betur en að mæta aukningu í orkuþörf. Árangur í viðureigninni við gróðurhúsalofttegundirnar fer fyrst og fremst eftir því hversu vel gengur að afla sjálfbærrar orku. Um þessar mundir er talið að nær 80% af orkuþörf heimsins sé mætt með bruna jarðefnaeldsneytis.
Því blasir við að brýnasta verkefnið í hnattrænni náttúruvernd er að auka raforkuframleiðslu frá endurnýjanlegum orkulindum. Það mætti því ætla að þeim sem hæst hrópa á náttúruvernd sé það kappsmál að sem mest sé virkjað af fallvötnum, jarðvarma og vindi en því er nú ekki aldeilis að heilsa. Flest af því fólki berst um á hæl og hnakka til að hindra slíkt. Annað hvort tekur það ekki mark á spádómum um hamfarahlýnunina eða það kýs að leiða þá hjá sér vegna þess að umræðuefnið er óþægilegt. Gjarna er látið í veðri vaka að illa innrættir og orkufíknir fjárplógsmenn ætli sér að maka krókinn með virkjunum og kann að vera eitthvað til í því. Einhver tök ættu þó stjórnvöld að hafa til að hamla þar á móti og er ekki illskárra að einhver hagnist á góðu málefni en það nái ekki fram að ganga? Eigum við t.d. að hætta að kaupa rafbíla af því að framleiðendur þeirra kunni að hagnast á framleiðslu þeirra? Eða lyf?
Bára Huld víkur lítillega að franska heimspekingnum Rene Descartes og frægri setningu hans: Ég hugsa, því hlýt ég að vera til. Hún telur þetta dæmi um tvíhyggjuna í vestrænni heimspeki, en ég hygg að hann hafi sett þetta fram til höfuðs tilvistarkenningu kirkjunnar: Ég trúi, þess vegna er ég til. Á 17. öldinni var Rannsóknarréttur kaþólsku kirkjunnar enn við lýði og Lúthersk yfirvöld stunduðu galdrabrennur ótæpilega. Ég hygg að Descartes hafi verið að reyna að losa um það kverkatak sem kirkjuleg yfirvöld höfðu á frjálsri hugsun og vísindum á þeim tíma.
Bára Huld fjallar nokkuð um þau náskyldu fyrirbæri, tilfinningar og skynjanir, sem hafa gagnvirk áhrif hvort á annað. Eins og hún bendir á eru þessi fyrirbæri einstaklingsbundin, breytileg og óáreiðanleg en jafn raunveruleg samt. Mætti kannski nota samheitið hughrif? Tilfinningar stjórna orðum okkar og gerðum, sumpart eðlislægar, sumpart lærðar. Það er því alls ekki einfalt mál að nálgast og meta þessa hluti og gefa þeim vægi í umræðum og ákvörðunum.
Enn skal því leitað til vísindalegrar þekkingar sem segir okkur að tilfinningar okkar stjórnast af flóknum elektró-kemiskum boðskiptum í heila okkar og taugakerfi. Það einfaldar málið ekki mikið en getur þó komið í veg fyrir afvegaleiðandi ranghugmyndir. Þær tilfinningar sem við berum í brjósti hvert og eitt eru snar þáttur í tilveru okkar og inntaki hennar og framhjá því verður ekki horft. Til mótvægis koma þá einatt vitsmunirnir, sem, vegna ofangreindra annmarka hughrifanna, hljóta að vega þyngra við töku ákvarðana um mikilvæg málefni samfélagsins til skemmri og lengri tíma.
Skilaboð mín eru því þessi: hættum að hugsa og tala með hjartanu eða rassinum, notum höfuðið.