Það var ánægjulegt að sjá fréttir af því á dögunum að útgáfu skattkorta verði hætt um næstu áramót og að starfshópur vinni að því að setja persónuafsláttinn á rafrænt form.
„Að sumu leyti er þetta barn síns tíma. Við erum að hverfa út úr þessu pappírsþjóðfélagi sem við vorum í fyrir þrjátíu árum og inn í nýja tíma,“ sagði Steinþór Haraldsson, starfandi ríkisskattstjóri, í viðtali við Vísi.
Þetta er hárrétt hjá Steinþóri, og þó fyrr hefði verið. En góðir hlutir gerast stundum hægt og örugglega. Það er full ástæða til þess að hrósa skattayfirvöldum fyrir að innleiða rafræna og skilvirka stjórnsýslu í kringum oft flókna innviði skattkerfisins. Þetta sýnir líka að það má ganga mun lengra en nú þegar hefur verið gert, í stjórnsýslunni, þegar kemur að því að yfirgefa löngu úrelt pappírsþjóðfélag.
Ísland er með sterkari stöðu en margar aðra þjóðir þegar að þessu kemur, meðal annars vegna góðrar almennrar þekkingar hjá almenningi þegar kemur að netinu og útbreidda góða innviði þegar kemur að nettengingum. Reynslan frá góði verki skattayfirvalda sýnir að gríðarlega mikil tækifæri til hagræðingar og meiri skilvirkni liggja í því að færa stjórnsýsluna meira yfir á netið. Vonandi munu aðrar stofnanir, sveitarfélög og stjórnvöld horfa til þessarar góðu reynslu með breytingar til góðs í hugsa.