Hvað á ég að kjósa?

Þröstur Ólafsson skrifar um stóru málin í íslenskum stjórnmálum.

Auglýsing

Heimsmynd okkar hefur verið að breytast ört. Foreldrar okkar ólust upp í heimi sem umvafinn var af almáttugum Guði, sem lagði okkur lífsreglurnar. Stjórnskipulag landa tók mið af þessu. Kóngar, einræðis-og alvaldsherrar skiptu löndum á millum sín, ýmist eftir þjóðum eða í samræmi við raunveruleg yfirráð. Seinna komu kenningar um Stórasannleik s.s. kommúnismann en einnig fasismann og óheft viðskiptafrelsi. Hugmyndafræðin tók við af dvínandi guðstrú. Auðvelt var flestum að samsama sig og skipast í fylkingar. Hugmyndafræði sem vegvísir inn í framtíðina glataði einnig sogkrafti sínum. Eftir seinna stríð tók neysluhyggjan að ryðja sér til rúms. Sú hagskipan sem aukið gat neysluna örast, fékk mest pólitískt brautargengi. Neyslan varð drifkraftur fjárfestinga sem gerði hámarks hagvöxt að blekkingunni langþráðu, að nóg væri til af öllu. Afleiðingin var framleiðsluaukning af áður óþekktri stærðargráðu. Þessi mikla framleiðsla þurfti mikla og síaukna orku. Að lokum kveiktum við í heiminum. Þar erum viðstödd núna.

Tómarúmið

Brestir í þessu neyslukerfi komu í ljós með kreppum ýmist svæðisbundnum eða fjöllanda. Hrunið 2008 var skilgetið afkvæmi óhóflegrar neyslu- og gróðrasækni. COVID er talið af mörgum vera óskilgetinn bastarður. Þessi óæskilega reynsla skildi eftir sig pólitískt tómarúm á Vesturlöndum. Hnattvæðingin og frjálslyndi í samskiptum og viðskiptum voru gerðar ábyrgar fyrir nýafstöðnum óförum. Á hægri vængnum var reynt var að fylla tómarúmið með mismunandi útgáfum að gamalli þjóðernishyggju (dæmi Trump og Brexit). Reynt var með innflutningstakmörkunum að draga úr samkeppni við útlönd og heimsframleiðsla mærð og prísuð óháð gæðum hennar. Reynt var að heilaþvo neytendur til að réttlæta vaxandi pólitíska þröngsýni. En sú kúvending að einangra þjóðarhagkerfin þóknaðist ekki öllum. Á miðjunni og vinstra megin við hana myndaðist tómarúm. Einnig hérlendis. Með stofnun Sósíalistaflokksins er verið að róa til baka til hugmyndafræði sem beið endanlegt skipbrot um miðja síðustu öld.

Upplausn og villuráf flokkanna

 Þegar kosningar nálgast eru því margir kjósendur áttavilltir, einkum þeir sem aðhyllast hófsama en þó umbótasinnaða frjálslyndisstefnu sitt hvoru megin við miðju. Þegar nokkrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins skáru upp það herör að útiloka skyldi Evrópusinna á framboðslistum flokksins og harðsoðin nýfrjálshyggja varð megin öxull flokksstefnunnar, áttu fjölmargir ekki lengur samleið með flokknum. Eftir að Framsóknarflokkurinn varð andvígur stefnu Halldórs og Valgerðar og snerist gegn aðild að ESB og þar með gegn öllum breytingum í landbúnaðarmálum, trosnaði úr fylgi hans. Lukku riddarinn SDG varð til. Alþýðuflokkurinn, sem farinn var að dala eftir ítrekaðan klofning, beitti sér fyrir stofnun Samfylkingarinnar.

Nýi flokkurinn fékk mikinn meðbyr bæði í kosningum og skoðanakönnunum. Hann fór illa út úr stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn, því Samfylkingin hafði ekkert yfirgnæfandi stórmál sem hún vildi leysa með þessu stjórnarsamstarfi, en þurfti að kyngja pólitískri meðábyrgð á Hruninu. Eftir vinstri stjórn Jóhönnu var flokkurinn nánast þurrkaður út. Slík var vantrú kjósenda á stjórnhæfi flokksins og forystu hans.

Auglýsing
Samfylkingin hefur ekki náð sér uppúr þeim öldudal nema óverulega. Síðasta áfallið var þegar félögum úr gamla Alþýðuflokknum var kerfisbundið ýtt út af framboðslistum. Pólitískur arfur kratanna var útlægur gerður. Þegar VG fór í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki án þess að ná fram neinu stórmáli og hafandi formann sinn á fundum í æðstu ráðum NATO, urðu ýmsir fyrir vonbrigðum. Eina stóra málið sem flokkurinn hafði sett á oddinn, stofnun Hálendisþjóðgarðs, dagaði uppi. Það bar hvorki vott um sterkan vilja né mikla stjórnkænsku.

Aðalmál eða auka

Grautarleg málefni, gunguskapur, hugmyndafátækt og skortur á sannfærandi forystufólki gerir kjósendur áhugalitla. Það deyfir lýðræðislega yfirvegun. Til að skíra hugann verðum við að átta okkur á því, hver séu stóru viðfangsefnin og áskoranirnar sem þjóðin stendur frammi fyrir. Velferðar-, heilbrigðis- og atvinnumál sem vissulega eru mikilvæg, eru framarlega hjá flestum flokkanna, þó áherslurnar séu misjafnar. Þar þarf ekki mikla brýningu við. Allir flokkarnir lofa þar meiri peningum, bót og betrun.

Það eru stóru málin sem skipta sköpun um framtíðar leiði þjóðarskútunnar. Þótt við séum vön því að líta bara nokkra mánuði fram á við, hverfa stóru málin ekki, en sjálf búa þau okkur nýjan raunheim, ef við bregðumst ekki tímanlega við. Þjóðir dragast aftur úr öðrum þegar þær hliðra sér við erfiðum umbótum. Það verður okkur og afkomendum dýrkeypt ef við gerum ekkert meðan við enn höfum tíma. Þegar líða tók á síðustu áratugi liðinnar aldar var augljóst að breyta þurfti mikilvægum þáttum í efnahags- og atvinnumálum landsins. Við vorum að reka á sker. Á árunum 1984 -1993 var ráðist í umtalsverðar strúktúrbreytingar í íslensku samfélagi. Þá voru sett lög um stjórn fiskveiða (1984/92), þjóðarsátt var gerð á vinnumarkaði (1990) og EES-samningurinn samþykktur (1993). Þótt bæði Hrun og COVID hafi skekið undirstöðurnar síðan þá björguðu breytingarnar miklu því sem bjargað varð. Flestar breytingar eiga sinn líftíma. Ýmsir vankantar hafa líka komið í ljós á fyrrnefndum aðgerðum. Nú er okkur aftur að reka á sker. Hver eru svo þessi mál sem varða hlutskipti þjóðarinnar í framtíð?

Auðnumál 

Ekki er það dregið lengur alvarlega í efa, að yfir mannkyninu vofa gjörbreytingar á loftslagi, í veðurfari og hitastigi sem gjörbreyta munu lifnaðarháttum okkar og búsvæðum, verði ekki gripið snarlega inn í. Loftlagsváin bankar þegar á dyr. Við kveiktum í jörðinni. Viðbrögð stjórnvalda víða um heim, hafa verið í mildari kantinum, því flestar nauðsynlegustu aðgerðirnar snerta voldugar atvinnugreinar og vandasamar aðlaganir. Ríkisstjórn Íslands er þar engin undantekning. Ekkert hefur verið hróflað við stærsta losunarvandanum – landnýtingu. Áður en við gerum upp hug okkar á kjördag verðum við að spyrja okkur, hvort þeir flokkar sem mynda núverandi ríkisstjórn séu líklegir til betrumbóta, ef við veitum þeim brautargengi. Ef svarið er nei, verðum við að leita að þeim flokkum sem veita trúverðugt svar. Þetta mál er öllum öðru ofar að vægi.                          

Annað örlagamál er gjaldfrjáls aðgangur íslenskra útgerða og erlendra laxeldisfyrirtækja að sjávarauðlind þjóðarinnar. Verði óbreytt fyrirkomulag fest í sessi, mun ofurauðstétt skipa málum hér á landi að vild. Við vitum að flest er falt fyrir peninga. Það er ekki hægt að skoða mörg dæmi í heimssögunni, þar sem ofurauðvald hefur ekki leitt til fáræðis eða einræðis. Forsmekkur þessa er framferði Samherja og nýleg skýrsla sjávarútvegsráðherra til alþingis. Lifandi lýðræði okkar eru í hættu ef grunnarður af sjávarauðlindinni fær ekki að renna til þjóðarinnar en safnast allur á fárra hendur. Alvöru auðlindagjald er boðorðið. Allir núverandi stjórnarflokkar hafa komið í veg fyrir gjaldtöku, jafnvel lækkað það óverulega gjald, sem þó er greitt. Þeir eru brjóstvörn stórútgerðarinnar. Til að koma á alvöru auðlindagjaldi þurfum við því að leita út fyrir raðir þeirra. 

Þriðja stórmálið er afstaðan til ESB. Eins og aðrar evrópskar smáþjóðir þá þurfum við á samstöðu annarra sterkari þjóða að halda. Það er mikil vernd fólgin í því að vera fullvalda hluti af stærri þjóðaheild. Það er ekki síður mikilvægt og getað speglað eigin getu á jafnræðisgrunni við aðrar þjóðir, annars vofir yfir ástand sjálfshælni, morknunar og einangrunar. Gjaldmiðill okkar hefur verið almenningi dýrkeyptur og er ónothæfur í alþjóðlegum viðskiptum. Þeir sem styðja aðild að ESB og telja hana tímabæra velja flokk í samræmi við það. ESB aðild skiptir einnig miklu fyrir endurskipan landbúnaðarmála en sú atvinnugrein þarf nauðsynlega að ganga í gegnum viðlíka breytingar og sjávarútvegurinn gerði 1984/93. Afkoma bæði bænda og þeirra sem minna mega sín er því háð. Þetta verður einnig að hafa í huga á kjördag.

Önnur mikilvæg mál eru jöfnun atkvæðisréttar og ný stjórnarskrá. Afstaða flokkanna til þeirra er laumulegri og óljósari því enginn vill vera á móti jöfnun atkvæða þó að sama skapi fáir vilji hafa forgöngu um málið. Nýrri stjórnarskrá er haldið í bóndabeygju í þinginu, því þar er að finna ákvæði sem snerta atkvæðavægi og þjóðareign á auðlindum.                    

Það þarf vonandi ekki að aðstoða fólk við að komast að því hvaða flokkar hafa staðið gegn breytingum í öllum fyrrnefndum megin málaflokkum.

Höfundur er hagfræðingur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar