Það er ekki oft sem útgáfur á vönduðum skýrslum Seðlabanka Íslands, sem geyma mikilvæga innsýn í gang mála í hagkerfinu, þurfa að bíða birtingar úr takti við útgáfuáætlun sem fyrir liggur. Skýrslurnar eru með mikilvægari gögnum sem fram koma á hverjum tíma, fyrir fjármálamarkaðinn. Til þeirra er horft og ákvarðanir geta verið á þeim byggðar, eða í það minnsta geta þær haft áhrif á það hvernig staða mála er greind á hverjum tíma og hlutum hrint í framkvæmd.
Hinn 6. október, sléttum sjö árum eftir að fordæmalausum neyðarlögum var beitt til þess að vernda fjárhagslegt sjálfstæði Íslands, barst stutt tilkynning frá Seðlabanka Íslands þar sem frá því var greint að útgáfu ritsins Fjármálastöðugleika þyrfti að fresta. Orðrétt segir í tilkynningunni. „Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að fresta útgáfu ritsins Fjármálastöðugleiki um nokkra daga þar sem komið hefur í ljós að áður ákveðin útgáfudagsetning í dag hefur reynst óheppileg í ljósi þess að ekki hefur tekist að ljúka því samráðs- og kynningarferli sem reiknað var með að yrði lokið áður en ritið yrði birt. Ný útgáfudagsetning verður birt fljótlega. Kynningin á efni ritsins fellur því að sjálfsögðu einnig niður.“
Þessi stutta tilkynning hefur gert lítið annað en að skilja eftir ósvaraðar spurningar, sem svo fá vængi, með réttu eða röngu, í umræðu á markaði. Kurr er kominn í hóp kröfuhafa, sem spyrja nú hvort það geti verið að stjórnvöld og seðlabankinn séu að deila um einhver mál sem tengjast slitabúunum eða losun hafta. Hugsanlega sem snúa að stöðugleikaframlaginu, sem á að skila 334 milljörðum í ríkissjóð, en ekki 500 eins og fram kom í glærukynningu framkvæmdahóps um afnám hafta í Hörpunni í sumar.
Seðlabankinn ætti að hafa það hugfast, að hinn íslenski örmarkaður, innilokaður í fjármagnshöftum sem allt kapp er nú lagt á að losa um, er allur að fylgjast með því sem gengur á þessa dagana, og byggt á fyrri reynslu, þá ætti líka að ganga út frá því að það muni aldrei takast að halda upplýsingum frá almenningi í myrkum bakherbergjum til lengdar.
Ritstjórn Fjármálastöðugleika, sem að sjálfsögðu á ekki að haga störfum sínum að neinu leyti eftir afskiptum stjórnvalda, mætti gefa betri og ítarlegri skýringar á því hvers vegna útgáfa skýrslunnar, sem átti að birtast 6. október, hefur tafist. Því miður hafa þessar efnislitlu skýringar nú ekki gert neitt annað en dregið úr trúverðugleika seðlabankans, í ljósi hinnar viðkvæmu og mikilvægu stöðu sem uppi er, vegna framkvæmdarinnar á áætlun um losun fjármagnshafta.