Frelsi er að fá að blómstra sem manneskja og fá að rækta hæfileika sýna eða annað það sem hugurinn stendur til. Fólk sem er fátækt, svangt, heimilislaust og hefur ekki efni á að fara til læknis hvað þá sækja sér menntun hefur ekki frelsi. Frjálshyggjumenn hafa reynt að stela hugtakinu frelsi og gera það að sínu, tala um einstaklingsfrelsi og frelsi markaðarins, en út frá því sjónarhorni að enginn geri neitt nema að hann hafi frelsi til að græða á því sjálfur. Þeir eru undir áhrifum frá hagfræðingnum og heimspekingnum Adam Smith sem talaði um hina ósýnilegu hönd markaðarins sem skipulegði sig sjálfur og að menn lögðuðu sig hver að öðrum vegna ávinningsvonarinnar. Fræg er setning eftir hann sem er svona: „Það er ekki vegna góðvildar slátrarans, bruggarans eða bakarans, sem við væntum þess að fá málsverðinn okkar, heldur vegna þess að þeir hugsa um eigin hag.“
Fólk sett í hlekki
Til þess að koma sínum hugmyndum kyrfilega inn í huga fólks og telja því trú um að það hafi raunverulegt frelsi hafa frjálshyggjumenn fangelsað hugmyndaheim almennings. Það hafa þeir gert á ýmsan hátt og ekki síst með mötun í gegnum fjölmiðla í eigu auðmanna, auglýsingar, auglýsingaherferðir kostaðar af atvinnurekendum og almannatengla í vinnu hjá auðvaldinu. En þarna er fólk búið að glata raunverulegu frelsi viljans-valdi yfir sínum eigin hugsunum, gildismati og vali.
Ein hlið frelsisins er að fá að gera það sem maður vill án þess að vera beittur þvingunum eða ofbeldi af öðrum og þannig hafa svigrúm til að geta valið. Í nýfrjálshyggju kapítalisma samtímans er fólk kerfisbundið sett í hlekki. Lág laun, vinnuþrælkun, ójöfnuður, fátækt, fátæk börn, ill meðferð á öryrkjum og fátæku eftirlaunafólki, mikil skattbyrði á lág laun, húsnæðisskortur, mismunun í heilbrigðis-og menntakerfinu, útskúfun, stuldur á auðlindum, mansal, vændi, launaþjófnaður og kúgun á fólki í skjóli auðs og valda. Allt eru þetta dæmi um svívirðilega frelsissviptingu.
Auðmenn hafa frelsi til að brenna peninga
En auðvaldið í allri sinni mynd afsakar sig meðal annars á því að þeir kúguðu geti sjálfum sér um kennt. Þeir standi sig ekki á velli markaðarins þar sem allt snýst um neytendur og samkeppnisaðila. Markaðurinn er lögmál í tilveru mannsins og mælikvarði á mennskuna. Þetta er auðvitað kolrangt. Mennskan snýst um samvinnu og bræðralag. Og það er sósíalismi.
Það er ekkert frelsi falið í því fyrir launafólk að þurfa að afhenda kapítalistunum allan hagnaðinn sem myndast af vinnu þeirra. Atvinnurekendur hafa hins vegar frelsi til að gera það við hagnaðinn sem þeir vilja; eyða honum í neyslu, fjárfesta, koma honum í skattaskjól eða þess vegna brenna peningana. Launafólk á að sjálfsögðu að fá sinn skerf af arðinum sem af vinnu þess skapast. Allir eiga að fá hlut af hagnaðinum. Auðsöfnun á kostnað fjöldans á ekki að vera inn í myndinni.
Lýðræði þýðir að almenningur hefur valdið en ekki einhver takmarkaður hópur manna, ekki þeir ríku eða þeir sem telja sig hæfari en aðrir til að fara með valdið. Sósíalistar leggja mikla áherslu á frelsi almennings til að hafa raunveruleg áhrif á samfélagið í kringum sig, vinnustaðinn, verkalýðsfélagið, skólann, hverfið, sveitarfélagið eða þorpið.
Frelsi frá og frelsi til
Það er oft talað um frelsi frá og frelsi til! Sósíalistar segja að frelsi sé:
- Frelsi frá – fátækt, vinnuþrælkun, virðingarleysi, niðurlægingu, kúgun, ofbeldi, stöðugri mötun gegnum fjölmiðla og auglýsingar, sífelldri körfu um aukin afköst, valdbeitingu, hótunum um atvinnumissi, óttanum um efnislegt óöryggi, arðráni og auðsöfnun fárra og svo mætti lengi telja.
- Frelsi til – mannsæmandi launa, frítíma, frelsis til að blómstra sem manneskja, að eiga tíma með börnum og fjölskyldu, að eiga tíma með vinum, að stunda áhugamál, frelsi til sköpunar í listum og menningu, til nýsköpunar í atvinnulífinu, frelsi til að deila með öðrum afrakstrinum af auðlindunum, að eiga hlut í virðisaukanum af vinnunni, að eiga gott húsnæði, að eiga nóg að borða, að eiga utan á sig föt, frelsi til ókeypis menntunar, ókeypis læknisþjónustu, til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt, að segja sínar skoðanir, hafa sjálfstæðan vilja o.s.frv.
Það er ekki úr vegi að enda þennan pistil um frelsið á því sem Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins eldri, segir í inngangi Kommúnistaávarpsins um heimspekinginn Rousseau sem var upp á 18. öld og hafði mikil áhrif á forsprakka frönsku byltingarinnar 1789. Einar segir að Rousseau hafi verið: … „málsvari milljóna, sem annars áttu enga að, verjandi smælingja, sem traðkaðir voru undir fótum höfðingjanna, frömuður frelsis, sem herskarar hinna kúguðu þráðu, talsmaður sannleika, sem auðmenn og aðall hæddi, boðberi ástar, sem hræsni og ljettúð misþyrmdu, söngvari náttúrunnar, er menningin afskræmdi og eyðilagði, skáld tilfinninga, sem vaninn og formið fjötruðu …“
Höfundur er atvinnulífsfræðingur og félagi í Sósíalistaflokki Íslands.