Það voru merkileg tíðindi sem bárust inn á fasteignamarkaðinn hér á landi, 6. október síðastliðinn, þegar Lífeyrissjóður verzlunarmanna breytti um stefnu í lánamálum og býður nú langbestu lánakjör á húsnæðislánum sem bjóðast á markaði hér á landi, mun betri en Arion banki, Landsbankinn, Íslandsbanki og Íbúðalánasjóður. Það á bæði við um verðtryggð og óverðtryggð lán.
Spennandi verður að sjá hver viðbrögðin verða hjá bönkunum, sem eru með um og yfir 90 til 95 prósent markaðshlutdeild á húsnæðislánamarkaði, við þessari stefnubreytingu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Vonandi mun það koma í ljós, að á húsnæðislánamarkaði eru samkeppnislögmál eins og annars staðar. Ef allt er eðlilegt, ættu bankarnir nú að bregðast við með því að bjóða betri vexti. En mun það gerast?
Einhverjum kann að finnast það óvenjulegt, að lífeyrissjóður stigi jafn afgerandi skref í samkeppni um íbúðalán, en þetta ætti ekki að koma á óvart þegar staða mála er skoðuð. Lífeyrissjóðir hafa alvega frá því fjármagnshöftin voru sett á með lögum, í nóvember 2008, þurft að finna leiðir til að koma tólf til þrettán milljörðum á mánuði í ávöxtun. Á milli 150 og 200 milljarðar hafa oft verið á innlánsreikningum á þessu tímabili, þar sem ávöxtun er í lágmarki. Þessi leið sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna fer nú, að bjóða sjóðsfélögum og öðrum upp á hagstæð íbúðalán, með 75 prósent veðhlutfalli, ætti að vera ágæt leið til þess að ávaxta mikið fé sjóðsfélaga.