Sósíalistaflokkurinn virðist eiga fimm erindi: (i) Að efla jöfnuð; að útrýma fátækt, sem hér verður nefnt fyrst af öllu, (ii) að auka réttlæti; styrkja mannréttindi og vinna gegn spillingu, (iii) að fella nýfrjálshyggjuna sem viðmið í stjórnmálum og koma á blönduðu hagkerfi með samfélagslegum lausnum, (iv) að takast á við áskoranir framtíðar og móta hreyfanlegt þjóðfélag sem rímar við hina hröðu framþróun og (v) að efla alþjóðleg tengsl þeirra sem berjast gegn misskiptingu og ofbeldi auðsins. Þá þurfa sósíalistar sérstaklega að varast skoðanakúgun og þjóðarfátækt, sem hefur fylgt þeim eins og skugginn í a.m.k. öld – og þeir geta ekki þvegið hendur sínar af.
Marga rekur í rogastans þegar Sósíalistaflokkur Íslands er kominn með fjóra menn inn á Alþingi samkvæmt skoðanakönnunum. Var sósíalismanum ekki hafnað í eitt skipti fyrir öll um 1990?
Kommúnistar/sósíalistar síðustu aldar héldu að þeir myndu óhjákvæmilega taka við stjórn samfélaganna og kölluðu það „sögulegt hlutverk“ sitt. Þeir þurftu aðeins að bíða eftir að þjóðfélagið þróaðist. Þetta gekk ekki upp. Einnig byggðu þeir á stéttgreiningu Marx, sem nú á ekki við því hin menntaða millistétt er að verða stærsta stéttin og þeir sem eru utan vinnumarkaðar kúgaðasti hópurinn, en ómenntuðum verkalýð fækkar. Fleira og enn alvarlegra hefur komið á daginn. Ekkert form efnahagskerfis hefur komið fram sem getur keppt við kapítalismann og nánast öll sósíalísk ríki hafa fallið vegna fátæktar. Þá hafa skoðanaofsóknir og skelfileg kúgun og morð fylgt sósíalismanum ekkert síður en fasismanum. Það var því með töluverðum létti sem mannkynið kvaddi sósíalismann. Þess vegna þarf tilvera Sósíalistaflokks Íslands sérstakrar réttlætingar við.
Eftir stendur þó að „blandað“ hagkerfi eins og byggt var upp á Norðurlöndum um miðja síðustu öld, gaf lengi besta raun – í öllum þjóðfélagstilraunum síðustu aldar – og bar með sér mestu hagsæld, mesta jöfnuð, minnsta skoðanakúgun og sívaxandi hagsæld þjóðríkjanna. Nú er að vísu allt breytt og hraði breytinga slíkur að framþróunin á sér enga samlíkingu í sögu mannsins og lausnir verða ekki sóttar til eldri aðstæðna, nema með verulegum réttlætingum. Og þær réttlætingar gætu verið að norrænu kerfin hafi reynst svo vel að þau séu alls ekki úrelt – eins og margir héldu, m.a. sósíaldemókratar, eftir allsherjarsigur frjálshyggjunnar í heiminum um 1990. Þær lausnir gætu átt við enn í dag, þótt heimurinn sé gerbreyttur. En á sama tíma hefur heimurinn minnkað svo mikið að þjóðríkið er sprungið utan af atvinnulífi, menntamálum, stjórnmálum og félagsmálum og hann býr við nýjar áskoranir sem þarf að einhverju leyti að framkvæma á yfirþjóðlegum vettvangi.
En skoðun þá þær áskoranir sem á þessari öld hafa orðið til að endurvekja einhvers konar sósíalisma. Hér er að vísu átt við það sem alltaf var kallaður sósíaldemókratismi, engum dettur sósíalískt þjóðfélag í hug lengur og nafnið Sósíalistaflokkurinn gefur neikvæða mynd – heldur breytt framkvæmd innan kapítalismans og þá á forsendum þeirra hópa sem eru utan vinnumarkaðar og lægstu tekjutíundarinnar á vinnumarkaði. Það er hin nýja verkalýðsstétt.
Að efla jöfnuð
Þegar þetta er skrifað eru um 110 þús. manns yfir 18 ára utan vinnumarkaðar (atvinnulausir, öryrkjar, aldraðir og námsmenn) og kannski 170 þús. manns á vinnumarkaði. Af þeim er sífellt stækkandi hópur í verktakavinnu* – þannig að reikna má með að um helmingur allra 18 ára og eldri lifi innan kerfa verkalýðshreyfingarinnar/atvinnurekenda á næstu árum – og þá helmingur utan þeirra. Öll reglusetning í þjóðfélaginu miðast samt við kerfi verkalýðsfélaganna/atvinnurekenda og hinir standa fyrir utan þau – og þannig fyrir utan stærsta og mikilvægasta hluta félagsmálakerfanna.
Fátækt er einkum í hópnum utan vinnumarkaðar og nær einnig til neðstu tíundarinnar á vinnumarkaði. Líklegt er að margir atvinnulausir fái ekki vinnu eftir COVID. Undirstéttin á Íslandi er því einkum þeir sem eru utan vinnumarkaðar – og kúgaðastir þeir sem eru í leiguhúsnæði. Þar sem tæknin er smám saman að frelsa okkur undan vinnunni er hópurinn utan vinnumarkaðar stækkandi – og það er sá hópur sem sósíalistar hljóta að miða baráttu sína við. Hann stendur utan allra helstu kerfa sem atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin hafa samið um fyrir sína félagsmenn (þjónusta sem ríkið hefur vanrækt á sviði félagsmála, uppbygging sjúkrasjóða, orlofsþjónusta, virkniþjónusta og lífeyrissjóða), nema hvað aldraðir hafa aðgang að lífeyrissjóðum, en flestir þeirra eiga þó lítinn rétt enn sem komið er og full réttindi fyrir alla á vinnumarkaði nást ekki fyrr en 2088. Öll þessi kerfi eru í nágrannaríkjunum í aðalatriðum rekin af opinberum aðilum og standa öllum þjóðfélagsþegnunum til boða. Það þurfa þau líka að gera hér.
Það þarf einnig að efla jöfnuð í stærra samhengi, svo sem milli kynja, aldurshópa, án tillits til uppruna o.s.frv. Þá þarf að koma á jöfnu vægi atkvæða, en lýðræðið er verulega skekkt; um 53 þús. íslenskir kjósendur á höfuðborgarsvæðinu eru utan kosningaréttar vegna misvægisins eins og er og allir af erlendum uppruna sem ekki hafa íslenskan ríkisborgararétt. Samanlagt telja þessir réttlausu hópar á höfuðborgarsvæðinu fleiri en allir kjósendur landsbyggðarkjördæmanna eru.
[*Umbreyting nýrrar þekkingar í þjóðfélagsleg verðmæti á sér stað með nýsköpun og af sprotafyrirtækjum. Með einföldun má segja að af hverjum 50 sprotafyrirtækjum verði 49 gjaldþrota, en þetta eina sem sigrar heiminn greiðir allan kostnaðinn og mikið meira en það. Eftir stendur að þekking allra starfsmannanna er til staðar og nýtist næsta sprotafyrirtæki. Verktaka er meginform vinnu og hreyfanleiki vinnuaflsins innan þekkingariðnaðarins skapar mestan þjóðarauð – á kostnað atvinnuöryggis. Þjóðfélagið þarf því að tryggja hag þessa fólks í nýju almannatryggingakerfi.]
Að auka réttlæti
Réttlæti snýst bæði um að styrkja það og að hafna veikingu þess. Það þarf að styrkja spillingarvarnir hér á landi og efla ábyrgðartilfinningu, einkum hjá þeim sem eru fulltrúar almennings og fara fyrir í atvinnulífi og félagslífi. Það þarf að vinna gegn spillingu á grundvelli sanngjarnar reglusetningar; ekki á forsendum dómstóls götunnar.
Þá þarf að meta þann árangur sem náðst hefur – Ísland er í hópi bestu og réttlátustu þjóðfélaga í heiminum, raunar í sögunni – og leita fyrirmynda hjá öðrum þjóðum sem fremstar fara og er þá einvörðungu átt við hin Norðurlöndin og ESB, en ástand mannréttindamála er víða slæmt annars staðar. Stórveldið Kína, sem stýrir að verulegu leyti hugbúnaðargerð fyrir þriðja heiminn, hefur farið fyrir í gerð kerfa sem gefur möguleika á að loka á óæskilegar skoðanir, fylgjast með fólki á netinu og á götu, heimili o.s.frv. Mörg þessara kerfa hafa jafnvel borist til Vesturlanda – og almennt má segja að lýðræðið standi höllum fæti í tækniþróuninni vegna hins glæsilega uppgangs alræðisríkja, segjum Kína og vegna tækniþróunarinnar sjálfrar; einkum upplýsingatækni og líftækni og vegna þess að minnkandi heimur hefur ekki fundið form þar sem samstaða er um ábyrgðarkeðju frá íbúum til yfirþjóðlegs valds.
Þá hótar tækniþróunin að gera lýðræðið marklaust; með sálfræðihernaði sem getur svínbeygt þjóðir undir ákveðnar hugmyndir. Enn hættulegra verður ástandið þar sem barátta heimsveldanna fer nú fram á netinu – og gagnvart almenningi. Rússland herjar nú á Vesturlönd og hefur ásamt olíuríkjunum töluverð áhrif á skoðanamyndun á Íslandi eins og rannsóknir sýna.
Ógnir líftækninnar eru margvíslegar og að litlu leyti komnar fram, m.a. þær að yfirstéttin kaupi sér „nýjan líkama og sál“ með erfðaefnabreytingum og í þessu máli er auðsskiptingin grundvallaratriði – yfirstéttirnar geta orðið að yfirburðastéttum. Þá er umbreyting mannkynsins að verða möguleika með breytingum á DNA fólks o.fl. og gæti sitt sýnst hverjum í hvaða átt skuli halda.
Hér á landi þarf að samþykkja fleiri alþjóðlega samninga sem tryggja réttindi minnihlutahópa – en á sama tíma að verja öll þau réttindi sem fengist hafa fram með EES-aðildinni; í stjórnsýslu, varðandi upplýsingagjöf, persónuvernd, samkeppni, breytingar á skipulagi atvinnulífs og opinberrar þjónustu til að tryggja óhæði aðila o.s.frv. Við þurfum valddreifingu (sem sósíalistar voru mótfallnir á síðustu öld) og alþjóðlega handleiðslu á nýjum sviðum.
Að fella nýfrjálshyggjuna
Enda þótt frjálshyggjan hafi sigrað fasismann og nasismann um miðja síðustu öld og hugmyndakerfi kommúnismans um 1990 og staðið uppi sem eina mögulega hugmyndafræði stjórnmálanna – fór hún fram úr sér með nýfrjálshyggjunni – og nú er hún í sjálfu sér fallin og ræður á engan hátt við þær aðstæður sem myndast hafa í heiminum.
Frjálshyggjan ræður ekki við tækniþróunina og því síður við líftækniþróunina. Tækniþróunin hótar að gera hluta mannkynsins atvinnulausan – sem kallar á algerlega nýja hugmyndafræðilega nálgun flestra kerfa, ekki bara almannatrygginga, heldur jafnvel trúarbragða (um iðni og aðrar dyggðir) – það má orða þetta þannig að tæknin frelsi fólk frá vinnunni – og eftir stendur að skilgreina þarf upp á nýtt kröfur almennings gagnvart samfélaginu. Í stað þess að eiga heimtingu á atvinnu á fólk heimtingu á velsæld, sem þýðir endurskipan auðskiptingar.
Almennt snýst nýfrjálshyggjan um að einkavæða opinbera þjónustu á kostnað samfélagslegra lausna. Hún er líka öfga einstaklingshyggja og hugmyndafræði þeirrar þróunar að jákvætt sé að fáir verði ríkir á kostnað margra.
En það má ekki blanda henni saman við aðra þróun sem fellur saman við hana í tíma; sem er þróun tækninnar - en afköst hennar í orsakasamhengi við lækkandi vöruverð og hækkandi laun þýðir sístækkandi þjónustueiningar með aukinni hagkvæmni og skilvirkni – þannig að líklegt er að aðeins eitt fyrirtæki geti þjónað hinum litla íslenska markaði á sumum sviðum. Það verður til hagsbóta fyrir þjóðfélagið í heild og stendur því undir mestri velferð. Það getur einnig þýtt að íslenski markaðurinn verði of lítill til að veita sambærileg verð og gerast í nágrannaríkjunum og þarf þá íslenskt atvinnulíf að fara í útrás. Heimurinn er lítill og afköst tækninnar hrikaleg, erfitt virðist verða að forðast fákeppni og einokun.
Að takast á við áskoranir framtíðar
Miklar framfarir dynja á mannkyninu, þannig að í mannkynssögunni er ekkert sambærilegt tímabil að finna. Óhjákvæmilegt virðist að sífelld vinna eigi sér stað við endurgerð kerfa a.m.k. á sviði félags-, stjórn- og atvinnumála við þessar aðstæður og ekki er gerlegt að líta í baksýnisspegilinn – engar forsendur halda nema um stuttan tíma. Nýjar lausnir eru óhjákvæmilegar því að forsendur eru eins og á færibandi tímans.
Þá er eins og almenn menntun beri með sér blómavöxt sem sífellt springur betur og betur út og sér ekki fyrir endann á því – þegar átt er við framfarir á öllum sviðum mannlegrar virkni. Það er eins og geta mannsin hafi verið í dróma. Sósíalistar styðja almenna menntun og vinna með þeirri þróun sem hún ber með sér.
Þetta kallar sérstaklega á nýsköpun í stefnu sósíalista, þeir þurfa að skoða hvernig nýjar almannatryggingar geta þjónað almenningi og þjóðfélaginu best og hvernig eðlilegt er að stjórnmál og þjóðfélagsleg gildi þróist almenningi til hagsbóta.
Á Íslandi hefur ríkt varðstaða um öll meginkerfi þjóðfélagsins s.s. sjávarútveg, landbúnað, stjórnarskrá og önnur kerfi og gömlu atvinnugreinarnar eru samofnar ríkiskerfinu, flokkunum og bjóða nánast fram til Alþingis. Sósíalistar vilja brjóta upp þessa varðstöðu og byggja upp fjölbreytt atvinnulíf með nýsköpun og hugviti – og uppbyggingu háskóladeilda úti á landi. Raunar hefur landsbyggðinni blætt út með varðstöðunni um gömlu atvinnugreinarnar, en ný tækni fækkar stöðugt störfum í þeim greinum og sá sem vill aukinn kvóta til þorpa sem byggðaúrræði, stuðlar að áframhaldandi minnkandi atvinnu þar.
Ef sósíalistar horfa aftur fyrir sig og heimta að atvinnulífið verði eins og var fyrir 30-50 árum verða þeir áhrifalausir við mótun framtíðarinnar, nánast nátttröll. Það ber því miður á hinum gömlu hugmyndum Alþýðubandalagsins í flokknum - að færa eigi klukku tímans aftur á bak, kallað „endurreisum mjólkurbúðirnar“).
Að efla alþjóðleg tengsl
Heimurinn er orðinn lítill og verkefni tækninnar eiga nú að vera að bjarga honum til framtíðar, skapa öllum jöfn lífsgæði og gera mannkynið að herra alheimsins, sem er nálægra en fólk heldur. Óskammfeilni og kúgun auðfyrirtækja og alþjóðlegra hringja (skattaundanskot, mútur, kúgun þjóða) og ekki síður upplýsingatæknin og líftæknin kalla eftir alþjóðlegri reglusetningu sem ég hef kallað alheimsstjórnsýslustig. Jafnframt er eðlilegt að menningarlega samleitir heimshlutar móti sér reglusetningu á ákveðnum sviðum og eru NAFTA, ESB, ASEAN og fríverslunarsamningur Kyrrahafsríkja dæmi um slíkt stjórnsýslustig. Óhjákvæmilega minnkar vægi þjóðríkisins í síminnkandi heimi og hvort sem það er gott eða vont – er ekki nokkur leið að hindra það. Verkefni mannkynsins kalla á það.
Alþjóðlegt hlutverk sósíalista er að sameina framfarasinnuð öfl í öllum löndum við að auka jöfnuð og réttlæti, með reglusetningu og breyttu hugarfari; öllum íbúum jarðarinnar til góða. Satt að segja og þrátt fyrir forgengileika flestra gamalla kommúnískra/sósíalískra hugmynda sá Marx alþjóðaþróunina fyrir.
Löng hefð er fyrir því að sósíalistar aðhyllist einangrunarhyggju (hófst með Stalín 1923 með kenningunni um sósíalisma í einu landi) og hefur fátt valdið meiri deilum meðal þeirra. Hún loddi við Alþýðubandalagið og draugar þess fallast í faðma við mesta hægra afturhaldið í landinu í því efni – en ekkert og ég fullyrði ekkert - hefur farið verr með sósíalismann og aukið fátækt sósíalískra ríkja meira en einangrunarhyggja og hefur hún jafnvel ein og sér (auk kúgunar) valdið mestu um fall þeirra.
Skoðanakúgun og þjóðarfátækt
Sósíalistar þurfa að sanna – í ljósi sögunnar - að þeir beri ekki með sér skoðanakúgun og fátækt. Í því efni þurfa þeir að vinna lýðræðislega innan síns flokks og utan hans og nokkur góð merki eru um það, svo sem notkun slembivals og starfsemi málaefnahópa. Hins vegar vantar flokkinn stjórnskipulag og dreifða yfirstjórn og kemur skipulagsleysi flokksins á óvart. Það að hafa ekki lýðræðislegt stjórnkerfi virðist leiða til einræðis eins manns.
Þá þurfa sósíalistar að hafna þjóðernishyggjunni og hætta að benda á lausnir sem lækka laun almennings og minnka þjóðartekjur. Sósíalistar sem vilja færa hluta þjóðarauðsins til lægra settra hópa samfélagsins – mega ekki jafnframt leggja til að þjóðartekjur minnki. Fátæktin hefur verið skuggi sósíalismans og þurfa flokksmenn virkilega að huga að alþjóðahyggjunni og þjóðartekjunum.
Höfundur er stjórnsýslufræðingur og félagi í Sósíalistaflokknum.
Þessi grein er skrifuð undir áhrifum frá bókunum: „Capital and Idology“ eftir Thomar Pigetty, „21 lesson for the 21st Century“ eftir Yuval Noah Harari, „Draumar og veruleiki“ eftir Kjartan Ólafsson og „Covid-19: the great reset“ eftir Klaus Schwab og Therry Malleret.