Sú ótrúlega hringekja sem fór af stað eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi, og áhrifin sem hún hafði á önnur kjördæmi, undirstrikar gallana í kosningakerfinu okkar. Þetta er gömul saga og ný en staðan núna hefur enn og aftur orðið tilefni umræðu. Annars vegar umræðu um vinnubrögð sem hafa kallað á sérstaka rannsókn en hins vegar um sjálft regluverkið. Eftir Alþingiskosningar 2013, 2016, 2017 og aftur í ár var styrkur flokka á þingi ekki í samræmi við fylgi þeirra. Ákveðnir flokkar hafa enda í gegnum tíðina fengið fleiri þingmenn kjörna en atkvæðafjöldi og stuðningur kjósenda raunverulega tryggði þeim. Sú niðurstaða felur einfaldlega í sér að þingið endurspeglar ekki að fullu vilja kjósenda.
Margir furða sig núna á hvers vegna þessi skekkja hefur ekki verið leiðrétt af hálfu þingsins. Þessi skiljanlega og réttmæta gagnrýni á hins vegar ekki við um allt þingið. Í vor var lögð fram tillaga til að taka á þessu. Að tillögunni stóðu þingmenn þriggja flokka. Við Björn Leví Gunnarsson og Guðmundur Andri Thorsson. Frumvarp um ný kosningalög hafði verið lagt fram af Steingrími J. Sigfússyni en þar var ekki gerð nein tilraun til að tryggja að þingstyrkur flokka yrði í betra samræmi við vilja kjósenda. Frumvarpið til kosninglaga fékk fína málsmeðferð í þinginu en engu síður vantaði að taka á þessu grundvallaratriði af hálfu meirihlutans. Það er því ekki svo að þingið hefði ekki tíma eða að það gleymdist. Breytingartillaga okkar við frumvarp til kosningalaga var hins vegar felld af þingmönnum meirihlutans og Miðflokks. Pólitískar línur um málið urðu ljósar í atkvæðagreiðslu og niðurstaðan felur í sér stuðning meirihlutans við að áfram ríki gríðarlega mikið ójafnvægi milli kjósenda.
Virðing við vilja kjósenda
Tillögurnar sem lágu fyrir þinginu voru tvíþættar. Annars vegar um fjölgun jöfnunarsæta til að tryggja að flokkar fengju þingmenn í sem mestu samræmi við fjölda atkvæða. Hins vegar um jöfnun atkvæðavægis milli kjördæma til að stuðla að auknu jafnrétti milli kjósenda. Áður hafði þingflokkur Viðreisnar líka lagt fram sérstakt frumvarp um jafnara vægi atkvæða, en það mál komst ekkert áleiðis.
Umræða á villigötum
Umræða um jafnt vægi atkvæða er viðkvæm. Mikilvægt er hins vegar að hafa í huga að þessi umræða snýst um tvennt, jafnt vægi flokka og atkvæðavægi kjósenda. Kjósendur á landsbyggðunum hafa skiljanlega áhyggjur af sinni stöðu. Atkvæðavægi þeirra myndi þó ekki breytast þó tryggt yrði að þingmenn hvers flokks yrðu í sem mestu samræmi við fylgi hans.
Hitt málið, varðandi jafnt vægi atkvæða eftir búsetu, myndi fækka þingmönnum landsbyggðarinnar eitthvað en ekki jafn mikið og sumir halda fram. Stundum er talað eins og fullur jöfnuður eftir búsetu myndi í reynd þýða að allir þingmenn landsins kæmu af Suðvesturhorninu. Slík niðurstaða væri óverjandi með tilliti til mannréttindasjónarmiða. Engin ástæða er hins vegar til að ætla að svo verði. Stjórnarskráin mælir fyrir um að hvert kjördæmi skuli eiga að minnsta kosti sex kjördæmakjörna þingmenn. Stjórnarskráin ver því öll kjördæmi landsins með þeim hætti að þau munu aldrei eiga færri þingmenn en sem því nemur. Nú eru þingmenn í Norðvesturkjördæmi t.d. átta talsins. Ójafnvægi atkvæða er meira en 100% á milli Norðvestur- og Suðvesturkjördæmis. Fyrir næstu kosningar verður þingmönnum Norðvestur fækkað í sjö í samræmi við stjórnarskrá landsins. Yrði farið í að jafna leikinn að fullu innan þess ramma sem stjórnarskráin mælir fyrir um yrðu þingmenn Norðvestur sex talsins og gætu aldrei orðið færri en svo. Þeim myndi fækka um einn til viðbótar. Það er því af og frá að kjördæmi landsbyggðarinnar myndu glata sínum fulltrúum á þingi eins og stundum mætti ætla af umræðunni.
Hvers vegna skiptir þetta máli?
Kjósendur í Suðvesturkjördæmi búa við þann ólýðræðislega veruleika að atkvæði þeirra er í reynd hálft. Fullur jöfnuður eftir búsetu kjósenda myndi hafa þau áhrif að þingmenn landsbyggðarinnar yrðu 23 talsins í stað 27. Sú staða felur ekki á nokkurn hátt í sér að landsbyggðirnar eigi sér ekki sérstaka talsmenn á þingi.
Sú staða myndi hins vegar ná því fram að ekki yrði lengur sá gríðarlegi munur að atkvæði sumra kjósenda teljist hálft samanborið við atkvæði annarra. Þingmenn Suðvesturkjördæmis færu frá 14 í 18 við fullan jöfnuð en þingmönnum Reykjavíkurkjördæmanna myndi hins vegar ekki fjölga. Það er hægt að jafna leikinn með tilliti til búsetu með einföldum breytingum á kosningalögum þannig að þetta ójafnvægi verði ekki jafn alvarlegt og nú er. Ákvæði stjórnarskrár um 6 þingmenn að lágmarki tryggir öllum kjördæmum landsins kjördæmakjörna þingmenn. Tillögur um lagfæra þetta óréttlæti lágu fyrir á þingi í vor. Ríkisstjórnarflokkanir höfnuðu því og kusu að viðhalda þessu ójafnvægi. Og vilji kjósenda er enn ekki að öllu leyti virtur við úthlutun þingsæta til flokkanna.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.