Á nýlegum fundi með forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) viðruðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hugmyndir sem ríkisstjórnin getur lagt til í þá erfiðu stöðu sem er í kjaradeilum á vinnumarkaði. Á fundinum voru nefndar hugmyndir um að hækka persónuafslátt í 65 þúsund krónur og að fækka skattþrepunum úr þremur í tvö.
Þetta hljómar í eyrum margra sem hið fínasta tilboð sem nýtist öllum Íslendingum jafnt. Í bakherberginu hefur hins vegar mikið verið rætt um að það hljóti að hanga eitthvað annað á spýtunni í tilboðinu en það sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum.
Ef persónuafsláttur er hækkaður í 65 þúsund krónur þá þýðir það hækkun á honum upp á 14.098 krónur, en hann er í dag 50.902 krónur. Í mars síðastliðnum voru 172.700 manns starfandi á vinnumarkaði á Íslandi. Ef þeir ættu að fá rúmlega 14 þúsund krónur í persónuafslátt þá sýna grófir útreikningar að það myndi kosti ríkissjóð um 2,4 milljarða króna á mánuði, eða 29,4 milljarða króna á ári.
Til að setja þessa tölu í samhengi þá má benda á að það kostar um 50 milljarða króna á ári að reka hinn fjársvelta Landsspítala. Heildartekjur ríkisins í ár eru áætlaðar um 645 milljarðar króna og afgangur af ríkissjóði á að vera 4,1 milljarður króna samkvæmt fjárlögum.
Það er því vandséð hvar ríkið ætlar að ná sér í tæpa 30 milljarða króna á ári til að fjármagna þessar stórtæku skattalækkanir án þess að auka samhliða aðrar tekjuöflunarleiðir, t.d. með því að hækka aðra skatta.