Nýverið var sagt frá því að íslensk fyrirtæki verji meiri fjármunum til birtingu stafrænna auglýsinga en til birtinga í sjónvarpi. Jafnframt munar litlu á því fjármagni sem fer í birtingu stafrænna auglýsinga og auglýsinga í dagblöðum. Þó að straumur auglýsingafjár leiti til netsins þá eiga Íslendingar nokkuð í land að verja jafn háu hlutfalli birtingarfjár í netið og tíðkast á Norðurlöndunum þar sem þetta hlutfall er um 40 - 47%.
Harðnandi samkeppni á íslenska metmarkaðinum
Samkeppnin á milli íslensku vefmiðlana um auglýsingafé er hörð og valkostum fjölgar stöðugt. Til dæmis má nefna að fréttamiðlum fjölgar, til viðbótar við risana mbl.is og visir.is hafa bæst við sprækir miðlar á borð við Kjarnann, Nútímann og Stundina. Facebook og Google taka einnig til sín stóran hlut af því fé sem íslenskir auglýsingar verja í birtingar á netinu.
Öflugir innlendir vefmiðlar
Kostirnir við að auglýsa á stóru innlendu vefmiðlunum eru augljósir, þeir eru mikið notaðir og efni þeirra og viðmót er sérsniðið að íslenskum notendum. Þeir eru vel til þess fallnir til að búa til vitund fyrir vöru, þjónustu eða vörumerkjum á skömmum tíma. Gallinn er kannski helst sá að fæstir þeirra bjóða auglýsendum möguleika til að meta árangur af auglýsingum eða beina auglýsingum að ákveðnum markhópum. Auglýsendur geta þó nýtt sér svokallaðan Google URL Builder og liðinn Campaigns í Google Analytics vefmælingarkerfinu til að sjá virkni auglýsingamiðla og bera þá saman út frá neðangreindum breytum:
- Fjöldi smella og þá kostnað per heimsókn
- Verðmæti herferða í beinni sölu frá vef
- Hlutfall notenda sem skoða meira en eina síðu
- Fjöldi notenda
- Síður per heimsókn
- Meðallengd heimsóknar
- Söluhlutfall
- Fjöldi færslna og tekjur
Sjálfsagt er að nýta þetta til að velja á milli auglýsingamiðla og besta herferðir.
Hrollvekjandi auglýsingamöguleikar
Stóru alþjóðlegu vefmiðlarnir Google, Linkedin og Facebook bjóða auglýsendum góða möguleika á að beina auglýsingum að markhópum og meta virkni auglýsinga. Allir þessir miðlar eiga það sammerkt að safna miklum upplýsingum um áhugasvið og persónuleika notenda sinna. Þegar miðillinn er ókeypis er það notandinn sem er varan eins og oft hefur verið bent á. Hér er farið afar stuttlega yfir þá möguleika sem þessir miðla bjóða auglýsendum. Hér skal varað við því að sumum finnst lesturinn vafalítið nokkuð hrollvekjandi.
Google AdWords
Google hefur lengi verið ríkjandi á auglýsingum á netinu en netrisinn hefur eignast skæðan samkeppnisaðila sem er Facebook. Það má velta því upp hvort þessir miðlar hafi ekki mismunandi styrkleika. Facebook er miðill augnabliksins og hentar mjög vel fyrir auglýsingar á neytendamarkaði og til að kynna viðburði. Google auglýsingar eru góðar fyrir auglýsingar á fyrirtækjamarkaði eða fyrir vörur og þjónustu sem á sér langan líftíma og útheimtir rannsóknarvinnu hjá kaupendum. Þetta er þó auðvitað ekki einhlítt.
Í Google AdWords má velja nokkrar tegundir af auglýsingaherferðum en í grunninn eru þær þrennskonar:
- Auglýsingar sem birtast með leitarniðurstöðum í Google leitarvélinni sjálfri. Það er hægt að skrifa allnokkrar greinar um hvernig stilla má slíkar auglýsingar í Google AdWords en í grunninn gengur þetta út á að ná til fólks þegar það leitar sér upplýsinga um vöru og þjónustu
- Auglýsingaborðar (Display campaign) sem koma fram á vefsíðum og öppum sem birta auglýsingar frá Google. Ef auglýsandi velur að setja upp slíka herferð getur hann til dæmis handvalið þau vefsetur og öpp sem birta auglýsingarnar. Hægt er að beina auglýsingum að kyni, aldurshópum, staðsetningu og að notendum sem tala ákveðin tungumál. Ennfremur má beina auglýsingum að fólki með ákveðið áhugasvið eða þeim sem Google metur að sé að leita að vörum eða þjónustu sem viðkomandi auglýsandi er að selja.
- Vídeó á Youtube en þau birtast fyrir framan myndbönd hjá þeim aðilum sem leyfa slíkt. Þetta er tekjuuppspretta fyrir ófáar Youtube stjörnur
Dæmi um valmöguleika fyrir auglýsendur í Google AdWords
Facebook er nýi risinn á auglýsingamarkaðnum
Facebook hefur eflt þjónustu við auglýsendur svo um munar enda er það svo að fyrirtæki geta ekki lengur treyst á koma skilaboðum á framfæri með stöðuuppfærslum á Facebook án þess að greiða gjald fyrir dreifinguna. Þó er oftast hægt að stóla á að myndir af fólki fái góða og ókeypis dreifingu en þá þarf að merkja (tagga) fólkið á myndunum. Í grunninn má segja að Facebook bjóði fyrirtækjum upp á tvennskonar auglýsingar:
- Fyrirtæki geta keypt dreifingu á stöðuuppfærslur frá sínum síðum
- Hægt er að setja upp auglýsingaferferð sem getur miðast að því að fá smelli á vefsetur, kynna fyrirtækjasíður á Facebook, vekja athygli á viðburði, fá fólk til að nýta sér tilboð, horfa á vídeó eða setja upp app eða klára einhverskonar pantana- eða kaupferli svo eitthvað sé nefnt
Auglýst á Facebook
Eins og í Google AdWords gefur Facebook auglýsendum mikla möguleika á því að beina auglýsingum að mjög vel skilgreindum markhópum. Beina má auglýsingum að ákveðnum löndum, landsvæðum, borgum, póstnúmerum, konum eða körlum, ákveðnum aldurshópum, fólki sem talar ákveðin tungumál, hefur ákveðin áhugamál eða er með ákveðið hegðunarmynstur.
Mikill vöxtur í auglýsingum fyrir snjalltæki
Bæði Google og Facebook leggja mikla áherslu á að auglýsingar henti fyrir notendur í snjallsímum og spjaldtölvum enda er spáð miklum vexti á því sviði á næstu árum. Raunar er megnið af tekjuaukningu Facebook að undanförnu rakin til auglýsinga fyrir snjalltæki og hefur fyrirtækið náð miklum árangri á þessu sviði. Árangur Facebook á þessu sviði er svo góður að jafnvel Google hefur þurft að lúta í lægra í haldi.
Vídeóin eru vannýtt
Fá íslensk fyrirtæki virðast enn sem komið er auglýsa á Youtube og Facebook með því að birta þar vídeó. Sá sem hér skrifar hefur góða reynslu af þessum auglýsingaleiðum enda er birtingarkostnaður í þessum miðlum mun lægri en í sjónvarpi.
Eltihrellar Internetsins
Bæði Facebook og Google AdWords bjóða upp á svokallaðan "Remarketing” möguleika, sem sagt að beina auglýsingum að notendum sem hafa áður heimsótt vefsíðu auglýsandands. Mörgum finnst sérkennilegt og jafnvel ögn óþægilegt að sjá auglýsingar um vöru og þjónustu sem þeir skoðuðu einhverntímann á netinu. Þetta er sem sagt skýringin á slíku.
Auglýsingar á samfélagsmiðli fagmannsins
Að síðustu er rétt að tæpa á auglýsingamöguleikum í Linkedin. Þó er rétt að taka fram að ekki er hægt að beina auglýsingum eða kynna stöðuuppfærslur frá Linkedin sérstaklega að íslenskum notendum. Þeir sem vilja kynna efni, vörur eða þjónustu gagnvart vel afmörkuðum hópi fagmanna erlendis ættu samt sem áður að kynna sér Linkedin. Þar má beina auglýsingum að notendum eftir hvorki meira en minna en 10 mismunandi breytum. Til dæmis má nefna að hægt er að beina auglýsingum að, notendum sem starfa innan ákveðinna iðngreina, starfa hjá fyrirtækjum af ákveðinni stærðargráðu, búa í tilteknu landi eða heimsálfu, eru með ákveðna starfstitla eða sérþekkingu eða útskrifast úr tilteknum skólum eða numið einstakar fræðigreinar.
Skjámynd úr Linkedin
Auglýsingar eru fjárfestingar
Eflaust finnst mörgum ástæðulaust að setja upp mjög ítarlegar skilgreiningar fyrir íslenskar auglýsingaherferðir enda er maður býsna fljótur að skilgreina sig niður í afar fámennan hóp. Það er þó gagnlegt að geta haft áhrif á birtingar gagnvart aldri, kyni og búsetu eða verið nokkuð viss um að skilaboðin birtast þeim sem svo sannarlega hafa áhuga á þeim eða gagn af þeim. Auglýsingar eru nefnilega fjárfestingar sem eiga að skila arðsemi. Markviss uppsetning herferða og eftirlit með virkni þeirra er því nauðsynleg. Til að svara spurninginni sem sett var í fyrirsögn þessarar greinar þá er best að auglýsa þar sem fjárfestingin skilar sér best til baka og auðveldast er að fylgjast með hvernig gengur.
Um Jón Heiðar
Höfundur hefur sérhæft sig í stafrænni markaðssetningu og er með AdWords Certification, Hann er markaðssérfræðingur hjá Advania og rekur ferðabloggið Stuck in Iceland í frístundum.