Þeir sem trúðu orðum utanríkisráðherra að með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu fylgdu áður óþekkt tækifæri fyrir Íslendinga, eins og hann lýsti yfir, hafa nú fengið staðfestingu á því að þau áttu ekki stoð í raunveruleikanum.
Nú hefur verið kynntur nýr fríverslunarsamningur þar sem í besta falli er reynt að halda í horfinu við stöðuna eins og hún var fyrir Brexit en á mörgum sviðum hafa því miður verið reistar girðingar á milli okkar og þessarar mikilvægu viðskiptaþjóðar okkar.
Ekkert varð úr fyrirheitum um lægri tolla fyrir sjávarafurðir, eða tollfrelsi sem gefið var til kynna að væri í seilingarfjarlægð. Enda hafa hagsmunasamtök sjávarútvegsins lýst gríðarlegum vonbrigðum með samninginn og kvartað undan samráðsleysi af hálfu stjórnvalda. Hafi verið tækifæri í stöðunni, voru þau ekki gripin.
Staðan í samskiptum Íslands og Bretlands eftir Brexit er einfalega sú að það er flóknara fyrir Íslendinga að búa og starfa í Bretlandi. Sækja þarf um leyfi, stúdentar greiða hærri skólagjöld og aðgengi að rannsókna- og vísindastarfi er takmarkaðra en áður. Fyrirtæki lenda í auknu skrifræði.
Brexit var einfaldlega mjög vont mál fyrir þau sem styðja viðskiptafrelsi og alþjóðasamvinnu, og það er blekkingarleikur að gefa annað í skyn. Fram að Brexit gátu íslensk fyrirtæki og hæft fólk notað Bretland sem stökkpall yfir í hinn stærri heim, en eftir Brexit, eru tækifærin færri og þröskuldarnir hærri.
Rétt eins og í Bretlandi er varasamt að trúa þeim spámönnum sem hafa um árabil öskrað sig hása í blindri andstöðu við Evrópusambandið. Það er að reynast Bretum ótrúlega dýrt að hafa sagt skilið við sinn stærsta markað í von um að vinna nýjar lendur í fjarlægum löndum.
Svarið við tækifærum 21. aldarinnar er fólgið í því að opna landamæri, liðka fyrir greiðari leið að stærri mörkuðum, meiri Evrópusamvinnu en ekki minni.
Þeir tapa sem halda öðru fram.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd Alþingis.