Við skrifuðum grein í Morgunblaðið sem birtist 27. janúar sl. og reyndum þar að skýra ýmis atriði í tengslum við endurreisn íslensku viðskiptabankanna. Við sögðum þar að við fögnuðum umræðu um málið og því langar okkur til að bæta við þær upplýsingar sem fram komu í nefndri grein, ef það mætti verða til að skýra frekar þá vinnu sem fram fór á árunum 2008-2009 við endurreisn bankanna.
Okkur langar meðal annars til að bera saman þá meginvalkosti sem stóðu stjórnvöldum til boða við endurreisn viðskiptabankanna.
1. “Bráðabirgðaleiðin“
Víglundur Þorsteinsson heldur því fram í greinargerð sinni til alþingismanna að bráðabirgðaáætlun Fjármálaeftirlitsins (FME) frá október 2008 hafi verið hinn endanlegi úrskurður um verðmæti þeirra eigna sem færðar voru yfir í nýju bankana. Svo var reyndar alls ekki eins og kemur fram í gögnum frá FME á þeim tíma og hefði verið algjörlega löglaust athæfi.En lítum samt aðeins á þessa leið út frá fjárhagslegu sjónarmiði. Samkvæmt henni var verðmæti eignanna samtals 2.501 ma.kr. Yfirfærðar innstæður (skuldirnar) urðu í raun 1.438 ma.kr. en voru hér áætlaðar 1.312 ma.kr. og fjárhæð skuldabréfa sem nýju bankarnir hefðu orðið að gefa út til gömlu bankanna því 1.026 ma.kr. en ekki 1.152 ma.kr. eins og fram kemur í áætluninni sjálfri og vitnað var til í grein okkar í Morgunblaðinu. Ekki er
hægt að reikna nákvæmlega hvert eiginfjárframlag ríkisins hefði þurft að vera, en ef við gefum okkur að samsetning þessara eigna hafi verið svipuð og reyndist hjá Landsbankanum við stofnun hans erum við að tala um 475-500 ma.kr. Tölurnar bera skýrt með sér að þetta var ekki raunverulegur valkostur við endurreisn landsins.
Rétt er að nefna að þau nýju gögn sem lögð hafa verið fram eru ekki stofnúrskurðir FME eins og haldið er fram, heldur skýrslur endurskoðendafyrirtækja til FME, en eftirlitið sendi eitt endurskoðunarfyrirtæki inn í hvern banka til að fá eitthvað yfirlit yfir stöðuna. Enda segir fyrirtækið sem sent var inn í Kaupþing í sinni skýrslu: „Það skal tekið fram að skammur tími var gefinn til að setja upp efnahagsreikninginn og gera bráðabirgðamat á eignum. Því geta undirliggjandi gögn sem notuð voru verið ófullnægjandi eða, í einhverjum tilfellum röng. Stofnefnahagsreikningur Nýja Kaupþings hf verður því ekki endanlega frágenginn fyrr en virðismati á eignum og skuldum verður lokið“.
Eins og komið hefur fram lauk matsaðilinn því mati sex mánuðum seinna, í apríl 2009, og kom stjórnvaldsákvörðun FME um endanlega skiptingu eigna síðar á því ári í kjölfar samkomulags um eignaskiptinguna milli Kaupþings og Nýja Kaupþings banka hf, nú Arion banka, sem gert var á grundvelli matsins.
2. Hinar leiðirnar
Neyðarlögin voru ekki margorð um það hvernig standa skyldi málum við mat eigna, en í meginatriðum stóðu eftir tveir valkostir: Annars vegar að FME eða sérstakur gerðardómur fastsetti verðmatið og ríkissjóður legði fram allt eigið fé til bankanna þriggja á þeim grunni, sem má kalla Matsleiðina og hinsvegar að samið yrði um grunnmat, skilyrtar greiðslur og hlutabréfavalrétti eins og gert var í raun og sem leiddi til eignarhalds slitabúanna á nýju bönkunum með ríkissjóði, með meirihluta í tveim bönkum og minnihluta í einum, sem kalla má Samkomulagsleiðina.FME lét óháðan aðila meta yfirfærðar eignir og reyndist það mat 2.204-1.880 ma.kr. Ekki var talið ólíklegt að ef FME eða gerðardómur hefði þurft að ákvarða verðmæti eignanna á grundvelli þessa mats myndi það hafna nálægt meðaltalinu eða 2.042 ma.kr. Þar sem ekki er um neina samninga að ræða við slitabúin í Matsleiðinni, hefði ríkissjóður lagt bönkunum til allt eigið fé og orðið eini eigandi bankanna þriggja. Fjárhæð skuldabréfa sem nýju bankarnir hefðu þurft að gefa út til slitabúanna var 604 ma.kr. (Mismunurinn á yfirfærðum eignum og skuldum, 2.042 -1.438). Eiginfjárframlag ríkissjóðs hefði orðið um 400 ma.kr. (Reiknað sem heildareiginfjáframlagið eins og það varð í raun þ.e. 346 ma.kr., ríkissjóður 190 og slitabú 156, að viðbættum 16% af 282 ma.kr. Prósentan er sú krafa sem FME gerði um eiginfjárhlutfall en fjárhæðin mismunur á umsömdu grunnmati, 1.760 ma.kr., og meðalmati óháða matsaðilans, 2.042 ma.kr. Væntanlega hefði áhættugrunnurinn verið aðeins hærri vegna aukinnar markaðsáhættu.)
Hinsvegar er sá valkostur sem varð ofan á, Samkomulagsleiðin, sem leiddi til grunnmats yfirfærðra eigna að fjárhæð 1.760 ma.kr., en það tók mið af frekar svartsýnum horfum í efnahagsþróun, að viðbættum skilyrtum greiðslum við virðisaukningu eignanna og valréttum til slitabúanna um kaup á hlutafé. Í þessum valkosti þurfti eingöngu Landsbankinn að gefa út skuldabréf til slitabúsins sem nam 247 ma.kr. Eiginfjárframlög ríkissjóðs urðu 190 ma.kr. í formi hlutafjárframlaga og víkjandi lána.
Til glöggvunar fyrir lesendur eru tölurnar settar hér upp í töfluformi.
„Bráðabirgða-leiðin“ | Matsleiðin Samkomulagsleiðin | ||
Mat yfirfærðra eigna | 2.501 | 2.042 | 1.760 |
Skuldabréf til slitabús | 1.026 | 604 | 247 |
Skilyrt virðisaukning | 0 | 0 | 215 |
Eiginfjárframlag ríkissjóðs | 475-500 | 400 | 190 |
Rétt er að taka fram að ríkissjóður var ekki aðili að samningum um verðmat á yfirfærðum eignum. Þeir samningar eru á milli slitabúa annars vegar og undirritaðir af skilanefndum fyrir þeirra hönd og hinsvegar nýju bankanna og undirritaðir fyrir þeirra hönd af bankaráðum eða bankastjóra í umboði þeirra. Einnig skal nefnt að skilanefndirnar voru skipaðar af FME og undir eftirliti þess. Stjórnvaldsúrskurðir FME um endanlega skiptingu bankanna í gamla banka og nýja komu síðan í kjölfar þess samkomulags sem gert var á grundvelli Deloitte matsins. Vangaveltur um að fjármálaráðuneytið hafi tekið af FME þær valdheimildir sem það hafði samkvæmt neyðarlögunum eiga því ekki við rök að styðjast.
3. Samanburður leiða
Eins og segir hér á undan var í Samkomulagssleiðinni um varfærið grunnmat að ræða sem myndaði grunninn að stofnefnahagsreikningum nýju bankanna, enda var mat yfirfærðra eigna í þeirri lausn 282 ma.kr. lægra en meðaltalsmat hins óháða matsaðila.
Reyndin hefur orðið sú að efnahagsþróunin á Íslandi hefur orðið hagstæðari en miðað var við í hinu varfærna grunnmati. Vegna þessa hafa fyrirtækjalán innheimst betur, eftirstöðvar þeirra almennt tryggari og ýmsir eignarhlutir orðið meira virði en gert var ráð fyrir í grunnmatinu. Virðisaukning hefur því orðið á eignum nýju bankanna á árunum eftir að þeir hófu rekstur, eignum sem fluttar voru úr þrotabúum bankanna.
Þessi virðisaukning hefur orðið mörgum hugðarefni og leitt til vangaveltna um að betra hefði verið fyrir ríkissjóð að eiga bankana þrjá sjálfur og fá þá þessa virðisaukningu til sín í öllum bönkunum þremur og ekki eingöngu Landsbankanum. Sem sagt að velja Matsleiðina. Það sem ekki allir gera sér grein fyrir er að matsverðið sem hefði ráðið ef Matsleiðin hefði verið farin er töluvert hærra en grunnverðmatið sem samið var um í Samkomulagssleiðinni.
Þetta sést best á því að í Matsleiðinni hefðu nýju bankarnir í upphafi orðið að gefa út skuldabréf að fjárhæð 604 ma.kr. til slitabúanna, sem er 357 ma.kr. hærri fjárhæð en það skuldabréf sem í reynd var gefið út. Margt bendir því til að grunnmatið að viðbættri virðisaukningu eigna í nýju bönkunum sé að lenda á svipuðu róli og meðaltalsmat hins óháða aðila. Enda voru fyrirmæli FME til matsaðilans að miða skyldi við „through the cycle view“, þ.e. horfa gegnum hagsveifluna í matsvinnunni, en ekki miða við þær „brunaútsöluaðstæður“ sem voru fyrir hendi þegar matið fór fram.
Þeir sem halda því fram að Samkomulagssleiðin hafi fært slitabúunum 300-400 ma.kr. gera þá sennilega ráð fyrir að í Matsleiðinni væru eignirnar yfirteknar á hinu umsamda grunnverði Samkomulagsleiðarinnar en án skilyrtra viðbótargreiðslna eða valrétta, en sú gat auðvitað ekki orðið raunin. Sú hugsun er væntanlega heldur ekki í samræmi við eignarréttarákvæði stjórnarskrár eða önnur lög um að sanngjarnt verð eigi að koma fyrir hinar yfirteknu eignir. Án samnings hefðu slitabúin getað hafnað slíkri afstöðu FME og leitað réttar síns til að fá fram sannvirði eignanna.
Ekki má heldur gleyma því að í 6. gr. yfirlýsingar Seðlabanka Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda til AGS frá 15. nóvember 2008 var því heitið að kröfuhafar myndi ekki skaðast sérstaklega af þeirri aðgerð að skipta bönkunum upp.
4. Hagsmunir ríkisjóðs
Í Samkomulagssleiðinni var reynt að tryggja hagsmuni ríkissjóðs eins og kostur var.Sú leið að fara af stað með lágt grunnmat varð til þess að hlutafjárframlög ríkissjóðs urðu lægri en ella. Hlutdeild bankanna sjálfra (15-20%) í virðisaukningu þeirra eigna sem tengdust slitabúunum varð til þess að þeir fjármögnuðu sjálfir með hagnaði sínum þá auknu eiginfjárþörf sem myndaðist vegna hærra virðis eignanna. Þetta jók verðmæti eignarhluta ríkissjóðs í Landsbankanum um 16 ma.kr.
Þá ber að nefna að einungis hluti af eignum Landsbankans var háður hinni skilyrtu virðisaukningu til slitabúsins og hefur bankinn og eigandi hans notið góðs af virðisaukningu af öðrum eignum. Sú eignaaukning hefur orðið það mikil að eigið fé Landsbankans er orðið langt umfram það sem þörf er á til reksturs bankans. Ljóst er að úr Landsbankanum mætti færa til ríkissjóðs verulegar fjárhæðir án þess að það hafi veruleg neikvæð áhrif á rekstur hans.
Einn áþreifanlegasti ávinningur ríkissjóðs var þó við virðisaukningu yfirtekinna eigna Landsbankans, en samið var um að ef sú virðisaukning yrði að veruleika myndi hlutafé það sem slitabúið lagði til Landsbankans ganga til ríkisins án endurgjalds (Hér er sleppt þeim litla hlut sem starfsmenn Landsbankans fengu. Það hvatakerfi gæti orðið efni í aðra grein). Þennan eignarhlut fékk ríkissjóður til sín á árinu 2013 og varð það til að rétta af hallann á ríkissjóði það ár. Hlutabréfin voru þá metin inn í ríkissjóð á upprunalegu verði eða um 25 ma.kr. Miðað við innra virði Landsbankans er verðmæti þessa eignarhlutar um 40 ma.kr., en þeir 15 ma.kr. sem upp á vantar verða væntanlega færðir til tekna í rekstrarreikningi ríkissjóðs við sölu hlutabréfanna.
Sú virðisaukning sem átti sér stað í bönkunum á yfirteknum eignum jók skattskyldar tekjur þeirra sem virðisaukningunni nam. Erfitt er að reikna út virðisauka yfirtekinna eigna í nýju bönkunum en ef við miðum við 300 ma.kr. samtals hefur 20% tekjuskattur fært ríkissjóði verulega auknar skatttekjur.
Við endurreisn viðskiptabankanna þriggja lagði ríkissjóður fram um 190 ma.kr. í formi hlutafjárframlaga og víkjandi lána. Miðað við stöðuna í dag er líklegt að ríkissjóður geti fengið allt það fé til baka með góðri ávöxtun. Virðisaukinn hefur styrkt fjárhagslega stöðu bankanna og fjármálakerfisins í heild og þannig tryggt fjárfestingar ríkissjóðs í bönkunum. Þó að talað sé um útgjöld ríkisins í þessu sambandi er ekki um að ræða kostnað fyrir ríkissjóð heldur fjárfestingu sem skilar sér. Til samanburðar má nefna að þessu er öfugt farið með til dæmis útgjöld vegna Seðlabanka Íslands og Sparisjóðsins í Keflavík. Þar var um að ræða útgjöld sem lenda beint á rekstrarreikningi ríkissjóðs.
5. Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og heimila
Segja má að þegar bankarnir voru komnir á legg hafi boltanum verið sparkað til Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, en það ráðuneyti hafði umsjón og eftirlit með hinni fjárhagslegu endurskipulagningu fyrirtækja og heimila. Í því skyni hafði verið skipuð sérstök eftirlitsnefnd auk þess sem ráðuneytið hafði FME og Samkeppniseftirlitið sér til halds og trausts.
Aðferðir og vinnureglur við endurskipulagninguna voru samræmdar milli fjármálafyrirtækja og er ekki annað að sjá en að bankarnir þrír hafi beitt hinum samræmdu vinnureglum. Því er haldið fram að tveir bankar, vegna eignarhalds síns, hafi viðhaft einhverja sérstaklega stranga innheimtustefnu. Ekki er að sjá að þeir bankar hafi hegðað sér á annan hátt en sá banki sem er í ríkiseigu.
Sú aðferð að láta viðskiptabankana sjá um hina fjárhagslegu endurskipulagningu var að okkar mati rétt. Önnur aðferð var notuð í tilviki SPRON og og Frjálsa fjárfestingarbankans þar sem lánin voru einfaldlega skilin eftir í hinum gjaldþrota bönkum. Það reyndist ekki farsælt að skilja að bankaþjónustu og lánaumsýslu einstaklinga og fyrirtækja.
6. Lokaorð
Þá komum við, kæri lesandi, að heiti þessarar greinar sem er fyrsta spurningin „Hver græddi á endurreisn viðskiptabankanna?“ Auðvitað töpuðu allir á hruni bankanna, jafnt ríkið, kröfuhafar bankanna og almenningur á Íslandi. En ef menn leyfa sér þann munað að tala um svigrúm og gróða við endurskipulagningu kerfisins blasir við önnur mynd. Hið augljósa svar eftir þennan lestur er að ríkissjóður hafi farið þokkalega út úr aðgerðunum. Hann hefur annað hvort fengið til baka eða mun fá til baka þá fjármuni sem lagðir voru í endurreisnina. Hagsmunir ríkissjóðs voru tryggðir og fjármálakerfið er traust eftir að hafa byggt upp eiginfjárstöðu sína meðal annars með virðisaukningu yfirtekinna lána. Fjárfestingar ríkissjóðs í bönkunum eru því tryggar.
- spurning. Hefði ríkissjóður grætt ef Matsleiðin hefði verið farin og ríkið tekið alla bankana? Svarið er nei. Slitabúin hefðu þá strax fengið allan virðisaukann í formi skuldabréfa. Skuldastaða ríkissjóðs væri 200 milljörðum lakari og hann sæti uppi með mikið af seinseljanlegum hlutabréfum í bönkum, fjárfesting sem hefði þó skilað þokkalegri ávöxtun frá 2008.
- spurning. Græddu slitabúin? Svarið er nei. Þau fengu sanngjarnt gjald fyrir þær nettó eignir sem teknar voru af þeim í formi grunnmats á eignum, skilyrtum virðisauka og valréttum til kaupa á hlutabréfum. Virðisauki yfirfærðra eigna frá stofnun bankanna bendir til að heildarverðmætið hafi verið sanngjarnt og sé í raun í nágrenni við meðaltalsmat hins óháða matsaðila.
- spurning. Græddu viðskiptavinir bankanna? Svarið er já. Nýju bönkunum voru færðir nægir afskriftasjóðir með yfirteknu lánunum til að þeir hefðu fjárhagslega burði til að framkvæma hina umfangsmiklu fjárhagslegu endurskipulagningu atvinnulífs og heimila sem var næsti verkþáttur í endurreisninni, eftir að bankarnir voru komnir á traustan grunn og með styrka fjárhagsstöðu.