Í grein í Kjarnanum 10. ágúst sl., fyrir upphaf eiginlegrar kosningabaráttu, spurði ég: Um hvað á að kjósa?. Gerði ég þar grein fyrir nokkrum meginatriðum sem ég vildi sjá í stefnu þeirra flokka sem til álita kæmu, stjórnarskrármálið og auðlindir þjóðarinnar, ábyrg ríkisfjármálastefna og skynsamleg úrvinnsla COVID-19 vandans, viðspyrna við auðsöfnun og auðræði, sanngjarnt og réttlátt skattkerfi og skilvirk skattframkvæmd. Að sjálfsögðu eru önnur mikilvæg mál á borðinu en val þessara rökstuddi ég þannig:
Annars vegar eru þau grundvallarmál í þeim skilningi að þau snúast ekki bara um fjármál heldur fyrst og fremst um jafnrétti og sanngirni. Á meðan gæðum landsins er misskipt á milli borgara þess með valdboði sem stríðir gegn réttlætistilfinningu alls þorra landsmanna og á meðan byrðar af því að halda hér uppi sæmilega siðuðu samfélagi eru lagðar á án nokkurrar sanngirni næst ekki sú félagslega samkennd og samstaða sem þarf til að taka á öðrum krefjandi verkefnum og leysa þau.
Í kosningabaráttunni hefur skýrst hvers má vænta af flokkunum m.t.t. þessara mála og annarra mikilvægra mála. Auk skýrrar stefnu skiptir trúverðugleiki og traust miklu máli. Með tilliti til þess hef ég gert upp huga minn og ákveðið hvar atkvæð mitt lendir.
Ég tel Samfylkinguna hafa lagt fram stefnu í þessum málum og öðrum sem best fellur að hugmyndum mínum. Jafnframt teflir hún fram breiðri forystu fólks sem býr yfir reynslu, þekkingu og kunnáttu og hefur í verkum sínum og málflutningi verið faglegt og málefnalegt. Ég treysti því til að fylgja stefnu sinni eftir og leita samstarfs við aðra þá flokka sem hafa áþekka grundvallarsýn á það sem skiptir máli fyrir það siðaða samfélag sem við viljum flest lifa í. Ég mun því kjósa Samfylkinguna.