Hvernig stjórnvöld klúðruðu sóttvarnahótelinu

Þingmaður Pírata fjallar um meðferð Alþingis á frumvarpi um sóttvarnarráðstafanir og segir það „algerlega augljóst“ að þingið gerði „nákvæmlega ekkert til þess að skemma fyrir því sem stjórnvöld ætluðu sér að gera með frumvarpinu frá byrjun“.

Auglýsing

Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að allir sem komi til landsins fari á svokallað sóttkvíarhótel, eðlilega. Í þeirri umræðu er fjallað þó nokkuð um ábyrgð Alþingis, að það hafi ekki tekist að tryggja viðeigandi heimildir og þar með hafi heilsu almennings verið ógnað. Ef málið er skoðað nánar, hins vegar, þar sem horft er í gegnum ónákvæm ummæli og villandi upplýsingar þá sjáum við allt aðra mynd.

Byrjum á byrjuninni, frumvarpi heilbrigðisráðherra um opinberar sóttvarnarráðstafanir. Markmið frumvarpsins eru samkvæmt flutningsræðu ráðherra:

„Markmið frumvarpsins er að skýra betur þau úrræði sem sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra geta gripið til, vegna hættu á að farsóttir berist til eða frá Íslandi innan lands og hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Frumvarpinu er ætlað að tryggja betur þau réttindi sem varin eru af stjórnarskrá með því að kveða enn skýrar en nú er gert, á um það í lögum til hvaða ráðstafana megi grípa til að skerða þessi réttindi, í hvaða tilvikum og með tilliti til meðalhófssjónarmiða. Þannig er markmiðið að tryggja enn betur að slíkar skerðingar styðjist við viðhlítandi lagaheimild og séu ekki framkvæmdar nema í þágu almannahagsmuna eða til verndar heilsu eða réttindum annarra.”

Auglýsing

Eitt af þeim úrræðum sem ráðherra vill geta gripið til er sóttvarnarhús, en svona er fjallað um það í 12. gr. frumvarpsins:

„Hafi einstaklingur fallist á samstarf um að fylgja reglum um einangrun eða sóttkví, en í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim, getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli settur í sóttkví eða einangrun á sjúkrahúsi eða í sóttvarnahúsi eða gripið til annarra viðeigandi aðgerða.”

Þetta er það sem ríkisstjórnin vildi geta gert, ef einstaklingur getur ekki fylgt reglum um einangrun og sóttkví er hægt að vísa honum á sjúkrahús, í sóttvarnarhús eða gripið til annara viðeigandi aðgerða (mjög opið). Lykilatriðið hérna er að ráðherra og ríkisstjórnin vildi að það væri bara hægt að grípa til þessara úrræða ef ekki væri hægt að fylgja reglum um einangrun eða sóttkví. Ráðherra minnist annars ekki einu orði á sóttvarnarhús í flutningsræðu sinni.

Í andsvörum var áhersla Pírata á tillögu ráðherra um heimild til útgöngubanns, með þeirri spurningu hvort það þyrfti í alvöru á þessu stigi málsins, mikilvægi eftirlitshlutverks þingsins – að þingið sé upplýst um ákvarðanatöku og forsendur hennar með reglulegra millibili og að lokum að fólk yrði ekki skikkað í ónæmisaðgerð. Úr varð að ákvæði um útgöngubann og skikkaða ónæmisaðgerð voru fjarlægð í breytingartillögu velferðarnefndar. Upplýsingar um ákvarðanatöku og forsendur hennar eru hins vegar enn af skornum skammti.

Auglýsing

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins spurði svo hvort þessi breyting muni gefa henni betri möguleika á að stöðva smit erlendis frá inn til landsins og svar ráðherra var mjög áhugavert:

„Í raun og veru er ekki um auknar heimildir á landamærum að ræða með þessari breytingu heldur kannski skýrari. Ég tek undir það og ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið taki á þessu máli af mikilli ábyrgð.“

Allt í lagi. Þingið á að taka á málinu af mikilli ábyrgð. Með tilliti til þess er ræða Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, mjög áhugaverð. Þar spyr hún ráðherra hvort þingið ætti mögulega að endurskoða reglugerðir stjórnvalda. Ráðherra sagði það vera andstætt stjórnvenjum okkar, en er áhugavert í ljósi þess hvernig fór með reglugerð ráðherra, eða eins og ráðherra orðaði það í umræðu um þingmálið:

„Skárra væri það nú ef ráðherra undirritaði reglugerð án þess að reglugerðartextinn hefði fengið þvílíka yfirferð í ráðuneytunum. Til þess eru ráðuneytin. Og ráðherra byggir sínar reglugerðir á gildandi lögum. Ég hélt að ég þyrfti ekki að fara sérstaklega yfir það.“

Reynslan sýnir okkur að fólk gerir mistök. Minnisblað dómsmálaráðuneytisins er líka athyglisvert í þessu tilliti. Spurningin er þá, var það þingið sem klúðraði þessu máli? Reynum að svara því.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. Mynd: Bára Huld Beck

Í fyrstu umræðu málsins útskýrði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sjónarhornið sem varðaði heimildir sóttvarnarlæknis til þess að setja fólk í sóttkví, sem er ein af viðbótum frumvarpsins:

„Mér finnst það gott atriði ef verið er í þessu frumvarpi að færa þetta í áttina að því að vernda þetta stjórnarskrárbundna ákvæði. Þá er þetta bara eins og þegar lögreglan handtekur fólk og þarf að bera það undir dómara eins fljótt og verða má, það er eins og ef sagt er: Þú verður að fara í einangrun af sóttvarnaástæðum. Þannig er það í lögunum í dag, það verður að bera þetta undir dómara. Það er ekki eins og fólk þurfi sjálft að hafa frumkvæði að því að borga fyrir lögmann og fara fyrir dómara heldur er það er framkvæmdarvaldið sem verður að sinna því sjálft að fara með málið fyrir dómara og þessi einstaklingur getur komið fyrir dómarann í því ferli. Þannig er það með 14. gr., hefur mér verið talin trú um. Mér sýnist frumvarpið ætla að láta það ná líka yfir 15. gr., þ.e. um sóttkví, að það sem á við um einangrun í 14. gr. muni líka ná yfir sóttkví í 15., eins og Páll Hreinsson leggur til.“

Þessari grein var ekki efnislega breytt í meðförum þingsins. Ekki var minnst einu orði á sóttvarnarhús í fyrstu umræðu málsins. Þannig fór það til nefndar.

Málið fór til nefndar í lok nóvember og kom úr nefnd í lok janúar með nokkrum breytingartillögum. Þær breytingartillögur sem vörðuðu sóttvarnahús voru tvær. Annars vegar að skilgreina hvað sóttvarnahús væri: „Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé“ – sem er í fullkomnu samræmi við markmið stjórnvalda um að sóttvarnahús væri notað fyrir fólk sem gæti ekki framfylgt reglum um sóttkví eða einangrun. Hin breytingin var skýr heimild til stjórnvalda til þess að opna sóttvarnahús: „Að opna sóttvarnahús á vegum stjórnvalda, eftir því sem þörf þykir vegna farsótta.“

Auglýsing

Það er algerlega augljóst á þessum gögnum málsins að þingið gerði nákvæmlega ekkert til þess að skemma fyrir því sem stjórnvöld ætluðu sér að gera með frumvarpinu frá byrjun. Afurð þingsins var efnislega eins og stjórnvöld lögðu upp með, ríkisstjórnin fékk nákvæmlega þær heimildir sem hún bað um varðandi sóttvarnahús. Þá má kannski spyrja, átti þingið að veita ríkisstjórninni meiri heimildir? Af hverju? Á hvaða forsendum? Þingið fær ekki þær upplýsingar sem ríkisstjórnin fær og hefur ekki forsendur til þess að leggja til aðgerðir. Ef aðstæður breyttust á þessum tveimur mánuðum sem þingið var að vinna málið þá er það alltaf ríkisstjórnin sem kemur með tillögur að breytingum sem þingið vegur þá og metur. Eins og áður var sagt, þá var til dæmis fellt brott ákvæði um útgöngubann. Það var ekki talin nauðsynleg heimild fyrir stjórnvöld á þeim tíma. En ef það hefði átt að veita meiri heimildir til notkunar á sóttvarnahúsum þá þurfti frumkvæðið að því, útskýringin á þörfinni, að koma frá stjórnvöldum.

Þegar allt kemur til alls þá kristallast vandinn í orðum eins stjórnarþingmanns, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur:

„Ég hef verið þeirra skoðunar að mikilvægt sé að skjóta lagastoð undir reglugerð um sóttvarnarhúsin sem skyldar alla sem ferðast til landsins í sóttvarnarhús. Hinsvegar hefur ekki náðst samstaða innan ríkisstjórnarinnar um það og ekki heldur innan velferðarnefndar sem ég sit í.“

Það er nefnilega með ólíkindum að ári seinna erum við enn að sjá fálmkenndar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn faraldrinum. Það virðist vera ómögulegt að fá skýrar tillögur frá ríkisstjórninni sem leggja fyrir okkur fyrirsjáanlega áætlun um hvernig við komumst út úr faraldrinum og efnahagslegum afleiðingum hans. Þegar við fáum svo tillögur og þingið afgreiðir þær til stjórnvalda þá geta þau ekki einu sinni farið eftir eigin tillögum.

Svo við klárum að svara fyrstu spurningunni, hvernig klúðruðu stjórnvöld sóttvarnarhúsinu?

Með því að biðja um heimild til þess að nota sóttvarnarhús en gera svo eitthvað allt annað en beðið var um. Hvers vegna það var ekki beðið um heimild fyrir því sem átti að gera kemur nákvæmlega ekkert á óvart þegar viðbrögð stjórnvalda við þessum faraldri eru skoðuð. Viðbrögðin eru fálmkennd, sein og ónákvæm. Ástæðan fyrir því er af því að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki sammála um hvað þarf að gera. Þess vegna tekur of langan tíma að komast að niðurstöðu og þess vegna eru aðgerðirnar samhengislausar. Hvergi sést það betur en í þessu máli.

Höfundur er þingmaður Pírata.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Við mölunina eru notuð tæki sem eru búin hnífum eða löngum plastþráðum sem snúast hratt og sjálfvirkt. Afköstin skulu vera, að því er fram kemur í svari MAST við fyrirspurn Kjarnans, nægilega mikil til að tryggja að öll dýrin séu deydd samstundis.
Mölun karlkyns hænuunga „er hryllileg iðja“
Á Íslandi er heimilt að beita tveimur aðferðum við aflífun hænuunga; gösun og mölun. Báðum aðferðum er beitt á tugþúsundir unga á ári. „Allir karlkyns ungar sem fæðast í eggjaiðnaði eru drepnir eftir að þeir klekjast út,“ segir formaður Samtaka grænkera.
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar