Á sófaborði tengdaforeldra minna liggur bók í stóru broti, stílhrein og fallega innbundin í striga. Við fyrstu sýn virðist um hefðbundna kaffiborðsbók að ræða. Þegar nánar er að gáð kemur hins vegar í ljós að um er að ræða annað og meira en stofustáss.
Mér varð hugsað til bókarinnar þegar ég reifst heiftarlega við rafvirkjann minn þar sem ég bý í London. Hann var kominn til að laga bilaðan rafmagnsofn. Þegar ég opnaði útidyrnar fyrir honum stóð hann bölvandi og ragnandi í dyragættinni.
Hvað hafði gerst, spurði ég. Hann hvessti á mig augun. „Bölvað borgarráðið,“ þrumaði hann. „Það tók mig hálftíma að komast hingað.“
Rafvirkinn minn býr í næstu götu við mig í Islington hverfi Lundúnaborgar. Í Islington fer nú fram róttæk tilraun á sviði borgarskipulags. Völdum svæðum innan hverfisins hefur verið breytt í „lágumferðarsvæði“ (e. low traffic neighbourhood). Götum er lokað fyrir bílaumferð og gangandi vegfarendum, hjólafólki og börnum að leik tryggður forgangur. Er aðgerðinni ætlað að auka lífsgæði íbúanna, bæta loftgæði, draga úr hljóðmengun, endurvekja þorpsmenninguna og auka samneyti nágranna.
En ekki frá því að Brexit var og hét og fólk stóð í hávaðarifrildum á götum úti um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hefur málefni klofið samfélagið jafnharkalega í með-og-á-móti.
„Ég hefði verið fljótari að labba hingað,“ sagði rafvirkinn og skellti verkfæratöskunni sinni á stofugólfið. Hann var augljóslega á móti.
„Til þess er leikurinn einmitt gerður,“ svaraði ég, of heitur stuðningsmaður með til að bíta í tunguna á mér.
Rafvirkjanum var ekki skemmt. Á meðan hann reif í sundur bilaða ofninn minn brýndi hann fyrir mér efnahagslegt mikilvægi einkabílsins. Ég brýndi fyrir honum mikilvægi þess að geta dregið andann. Hann spurði: „Hvað með gamla fólkið?“ Ég spurði: „Hvað með börnin?“ Hann talaði um frelsið til að fara um. Ég talaði um frelsið til að vera kyrr. Hann sakaði mig um skort á raunsæi. Ég sakaði hann um að skorta framtíðarsýn.
Hvorugu tókst að sannfæra hitt. Rafvirkinn átti hins vegar lokaorðið er hann afhenti mér reikning með tuttugu prósenta reiðiálagi. „Köllum þetta kostnaðinn við ferðahöftin,“ sagði hann. Bros lék um varir hans í fyrsta sinn í heimsókninni.
Hvíl í friði
Upptök rifrildis okkar rafvirkjans má rekja sex ár aftur í tímann. Í september árið 2015 báru mótmælendur líkkistu um götur Waltham Forest hverfisins í London með áletruninni „hvíl í friði Walthamstow“. Ástæða mótmælanna var opnun fyrsta „tuttugu mínútna hverfisins“ í Bretlandi.
„Tuttugu mínútna hverfið“ er hugmynd sem ryður sér nú til rúms víða um heim og er innblásturinn að götulokunum skipulagsyfirvalda í Islington hverfi. Er markmiðið að íbúi hverfis þurfi aldrei að ferðast lengra frá heimili sínu en tuttugu mínútur – gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum – til að sækja sér nauðsynlega þjónustu á borð við verslanir, skóla, heilbrigðisþjónustu og líkamsrækt.
Framkvæmdin í Waltham Forest var hugarfóstur Clyde Loakes, aðstoðarhverfisstjórans. Fyrst um sinn hlaut hann litlar þakkir fyrir. Fólk hreytti jafnvel í hann fúkyrðum á götum úti. En nú er öldin önnur.
Skipulagsyfirvöld og ráðafólk alls staðar að úr heiminum flykkjast nú til Waltham Forest í leit að hugmyndum til að bæta lífsskilyrði í eigin borgum. Nýverið gekk blaðamaður dagblaðsins The Times með Clyde Loakes um miðbæ Waltham Forest. „Sjáðu,“ sagði Loakes hróðugur og benti á verslanir fullar af fólki, þétt setin kaffihús og götur iðandi af mannlífi þar sem fólk heilsaðist og stoppaði jafnvel til að spjalla. „Hver vill ekki lifa svona?“ spurði Loakes.
Æðakerfi framtíðarinnar
Bókin á sófaborði tengdaforeldra minna fangar kjarnann í rifrildi mínu og rafvirkjans. Bókin er í senn skáldskapur og sannleikur, ástarsaga og hrollvekja, útópía og distópía – sjónarhornið ræðst af lesandanum. Bókin sem um ræðir er Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983.
Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 er talið tímamótaverk á sviði skipulagsmála hér á landi. Var það unnið af Dananum Peter Bredsdorff og var stundum kallað danska skipulagið. Í þrjúhundruð blaðsíðna greinargerð er framtíð borgarinnar kortlögð út frá nýjustu straumum og stefnum þess tíma. Lögð eru drög að stórum úthverfum. Teikningar sýna nútímalegar byggingar, gler og steinsteypu. Mesta eftirtekt vekur þó áætlun um umferðarmannvirki sem jaðrar við vísindaskáldskap að metnaði.
Þótt bílaeign hafi ekki verið útbreidd markaði farartækið borgarskipulagið allt. Gert var ráð fyrir stórum stoðbrautum sem tengdu saman dreifð íbúðahverfi. Hraðbraut var fyrirhuguð í gegnum miðbæinn, um Grettisgötu og í gegnum Grjótaþorpið. Gömul hús sem fyrir væru yrðu að víkja. Akbrautir voru æðakerfi framtíðarinnar.
Ánægja ríkti með aðalskipulagið. Árum saman var það kynnt námsfólki í skipulagsfræðum í nágrannalöndunum sem fyrirmyndarskipulag. En það sem er fantasía fótgangandi Reykvíkings sem arkar holótta malarvegi við upphaf sjöunda áratugar síðustu aldar kann að vera malbikuð martröð afkomanda hans árið 2021.
Sú hugmyndafræði sem Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 spratt upp úr mótar enn efnislegan veruleika okkar. Hugarfarið tekur hins vegar hröðum breytingum.
Í Reykjavík, London og öðrum borgum heims á sér nú stað slagur; slagur um göturnar. Fljótt á litið virðist borgarskipulag – eins og kaffiborðsbók – fyrst og fremst stofustáss. En skipulagsmál eru meira en yfirborðið. Í skipulagsmálum birtast helstu átakalínur samtímans. Skipulagsmál eru umhverfismál, loftslagsmál, atvinnumál, efnahagsmál, samgöngumál og heilbrigðismál. Í skipulagsmálum felst að auki stærsta spurning mannlegrar tilveru: Hvernig viljum við lifa?
Það getur reynst kostnaðarsamt að hrista upp í borgarskipulagi eins og ég fékk að reyna á eigin skinni þegar rafvirkinn rétti mér reikninginn. En óbreytt ástand mun kosta okkur ennþá meira. Tími er til kominn að við eigum samtal um skipulagsmál.
Höfundur er blaðamaður og rithöfundur búsett í London.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.