Opinber störf
Framsóknarflokkurinn heyr kosningabaráttu sína með retorískri spurningu sem verður að telja nokkuð frumlegt. Mig langar að spyrja annarrar spurningar út frá örfáum staðreyndum sem varða Reykvíkinga að meira eða minna leyti.
Í Reykjavík norður hefur Ásmundur Einar Daðason boðið sig fram í oddvitasætið sem er gott og blessað. En maður spyr sig, hvaða erindi á maður við Reykvíkinga sem segir það afstöðu sína að flytja beri störf frá Reykjavík út á land? Þetta mun vera opinber afstaða flokksins í heild, enda eru allmörg dæmi um það að fólk í opinberum störfum hér í borg, mjög hæft fólk, hafi þurft að hætta eða fara í önnur störf vegna flutnings stofnana út á land. Það hefur ekki þótt neitt tiltökumál að fara fram á að fólk rífi upp fjölskyldur sínar og flytji á stað sem það hefur kannski enga tengingu við. Nú er ekkert að því að stofnanir séu starfræktar víðar en í höfuðstaðnum og mörg dæmi eru um það annars staðar, til að mynda í Þýskalandi, þar sem ýmsar lykilstofnanir eru ekki í höfuðborginni eins og til dæmis stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe. Munurinn er aðeins sá að þessum stofnunum var komið á fót þar og ekki fluttar hreppaflutningum eftir á.
Ríkið er sí og æ að stofna einhver apparöt og gildir einu hver er við stjórnvölinn. (Það er reyndar oftast „báknið burt“ flokkurinn sem er þar). Allt of sjaldan er hugsað til þess að þar sé tækifæri til að staðsetja stofnanir úti á landi. Það hefði verið tækifæri að hafa Landsrétt á Akureyri, ekki satt?
Sundabraut
Annað mál sem snertir mig sem íbúa í Reykjavík eru áform samgönguráðherrans, Sigurðar Inga Jóhannssonar, að byggja hraðbrautarbrú inn í hverfið þar sem ég bý, Laugardalshverfi eins og það heitir núna. Sundabraut er vissulega samgöngubót sem margir bíða eftir, en það eru 13 ár síðan íbúar og borgarstjórn öll (sem þá innihélt meira að segja fulltrúa Framsóknarflokksins) samþykktu að hún kæmi í göngum til þess að lífsgæðum íbúanna yrði ekki spillt meira en þörf krefði með gífurlegri bílaumferð í gegnum hverfið. Einhverra hluta vegna virðist það vera eitur í beinum Vegagerðarinnar og samgönguráðherra og það á að knýja fram brúargerð hvað sem það kostar. Annars staðar á landinu er ekkert því til fyrirstöðu að grafa göng og mikið gert af því. Það er hið besta mál, en hvers vegna má ekki grafa göng fyrir Reykvíkinga? Það yrðu einu göngin á landinu sem myndu afskrifast tiltölulega fljótt eins og dæmið með Hvalfjarðargöngum sannar. En, nei, það á að troða brú upp í kokið á íbúum hvort sem þeim líkar það betur eða verr.
Með ofangreint í huga finnst mér svarið við spurningunni hér efst vera: Ekkert. Og svarið við spurningu Framsóknarflokksins: Nei.
Höfundur er prófessor í þýðingarfræði við Haskóla Íslands og kjósandi í Reykjavík.