Í talsverðum æsingi arkaði ég frá klaustrinu El Escorial – hinsta dvalarstað margra helstu kónga og drottninga Spánar – upp í nálæg fjöll þar sem ég vissi af fornminjum og fersku drykkjarvatni. Þar ætti ég líka á endanum að fá ágætis útsýni yfir svokallaðan Dal hinna föllnu, Valle de los caídos, sem ég hafði verið að lesa mér dálítið til um: risavaxinn minnisvarða sem einræðisherrann Francisco Franco lét reisa eftir að hafa hrifsað völdin í landinu og þar sem hann sjálfur var loks grafinn við andlát sitt.
*
Minnisvarðinn var að hluta byggður af pólitískum andstæðingum Francos, föngum og nauðugum, og átti að senda þau skilaboð að spænska borgarastyrjöldin væri búið spil. Í því augnamiði lét sigurliðið – hægrið – safna líkum einstaklinga sem fallið höfðu í valinn á víð og dreif um landið, óháð því hvaða málstað þeir börðust fyrir, og færa inn í þennan litla dal á miðjum Íberíuskaganum. Var sá gjörningur kynntur sem táknrænn fyrir sættir og sameiningu andstæðra fylkinga inn í eilífðina, en til dæmis um offors og hræsni nýju stjórnarinnar skautaði hún alveg framhjá því að láta aðstandendur og aðra vita af þessum fyrirætlunum sínum, hvað þá sækjast eftir samþykki fyrir þeim.
Síðastliðna tvo áratugi eða svo hefur Dalur hinna föllnu verið miðlægur í opinberum deilum um arfleifð valdaráns, ríkisofbeldis og þöggunar – verandi hvílíkt kennileiti um slíkt sem engin leið er að fela. Mörgum þótti óboðlegt að Franco lægi í þessu grafhýsi (sjálfs)upphafningar. Eins kröfðust nokkrar fjölskyldur þess að leitað yrði að myrtum eða horfnum ástvinum þarna í hvelfingunum og þeim svo skilað til síns heima. Hitt í fyrra var Franco loks fjarlægður úr dalnum, en krafan um endurheimt fórnarlamba virðist endalaust ætla að veltast um í spænska dómskerfinu.
Þessi barátta hefur ekki einskorðast við það sem hægt er að sjá með berum augum og grafa eftir. Þetta hefur líka snúist um, segir einn leitandi afkomandi, að búa Spáni samfélag sem getur „sagt söguna á sannan hátt“.
Meðal þess sem gerir þetta allt saman hins vegar snúið og viðkvæmt, vilja sumir meina, er sú staðreynd að stjórn- og valdakerfi samtímans er á veigamikla vegu skylt (og/eða sympatískt) því sem ber ábyrgð á öllum ósköpunum. Þrátt fyrir kosningar og nýja stjórnarskrá urðu á Spáni engin skýr skil milli þess sem var og þess sem tók við. Stofnanir og einstaklingar sem brutu af sér fyrir 1975, árið sem Franco dó og Spánn fór að færast nær lýðræði eins og við þekkjum það, fengu þannig yfirleitt friðsælt framhaldslíf án teljanlegs hnjasks fyrir sína hagi.
*
Í þessu fólst sumsé aðdráttarkraftur þessa óhugnanlega staðar fyrir mig: ég ímyndaði mér að fortíðin væri þarna einhvern veginn opnari og sýnilegri, meira lifandi en gengur og gerist. Ég myndi jafnvel rekast á hversdagslega fasista sem gætu útskýrt fyrir mér afstöðu þeirra til þessara stóru deilna og samhengis þeirra.
Sem ég náði marki mínu og leit yfir Dal hinna föllnu fann ég hins vegar til allt annarra kennda. Fyrir utan það að úr hæð virkaði þetta mannvirki bara frekar smátt og lítilfjörlegt voru þar engar aðrar manneskjur á stjá. Það var eins og öll þau sem þessi staður og saga skiptu einhverju máli væru á bak og burt. Ef ég dytti niður klettana, hugsaði ég með mér, yrði ég bara enn eitt rotnandi líkið í þessum líkgeymsludal.
Tilfinning einsemdar var ekki sú sem hér stóð upphaflega til að vekja hjá fólki. Fasísk hönnunin miðar þvert á móti að því að einstaklingurinn finni til smæðar og undirgefni andspænis einhvers konar ímyndaðri heild; styttur af þungvopnuðum munkum og öðrum kynjaverum horfa þannig kuldalega niður til manns svo að maður á að fyllast lotningu og ótta í garð þeirra sem hafa völdin.
En ætli mín einmanalega upplifun af Dal hinna föllnu lýsi ekki ágætlega ósk núverandi stjórnvalda? Því er það ekki einmitt tilfinning einsemdar – ásamt elli, gleymsku og dauða baráttufólksins – sem hvað mest getur hjálpað ríkisvaldinu við að komast „lýðræðislega“ hjá því að gefa kröfum um uppgjör og uppstokkun raunverulegan gaum?
*
Ég hafði ekki fyrr klárað þá hugsun en ég var kominn inn á kunnuglegar brautir heiman frá Íslandi – úr mínum eigin minningum, reynslu og rannsóknum. Eitt byrjaði að blandast öðru. Upplifanir kölluðust á. Varla var um sólsting að ræða þar sem ég var nýbúinn að baða hausinn upp úr svölu vatni.
Það hafði ekki verið ætlun mín að þröngva eigin reynslu, frá landi sem á enga minnisvarða til tákns um ríkis- og stofnanaofbeldi, á þennan fjarlæga stað. En ég gat ekki af því gert. Hugurinn bara teiknaði upp þessar línur þarna á milli. Heima hafði ég nefnilega fátt fengið að sjá frá yfirvöldum annað en tafir, smættun, yfirborðsmennsku og afneitun um það ofbeldi sem þau eða þeirra forverar beittu mína nánustu og annað fólk sem mér er orðið afar vænt um. Af hverju ætti þetta að vera öðruvísi, opnara og framsæknara hér á Spáni?
Í lestinni aftur til Madrídar frá klaustrinu konunglega skrifaði ég hjá mér nokkrar glósur til upprifjunar á því hver munurinn væri í raun milli þess hvernig ríkin tvö eiga við sína (vissulega ólíku og einstöku) fortíðardrauga. Og jú, ég þóttist þrátt fyrir allt vita að munurinn væri markverður. Frumniðurstöður þessarar lestarferðar voru eftirfarandi:
Spænska dæmið sýnir að þetta eru ekki eins sjálfsögð sannindi og hægt væri að álykta út frá orðræðu íslensks stjórnmálafólks. Spurningin stendur þó enn og eflaust er hægt að tína til rök í báðar áttir: hvort ætli sé hollara fyrir lýðræðið og líklegra til árangurs fyrir þolendur að stjórnmálin taki af skarið, eða þetta renni í niðurskornum bitum til embættismanna eða dómara?
Reynsla mín og minnar fjölskyldu ætti að geta gefið nokkuð afdráttarlausa vísbendingu um svarið. Í skuggum íhaldssamra og ættgengra stjórnkerfa, eins og því sem haldið er við á Íslandi, erum við allavega ekki líkleg til að sækja stóra sigra.
Auðvitað mætti halda áfram og spyrja hverju vettvangurinn og formið breyta ef við komum hvort sem er til með að ganga ein og einmana um afskekkt eyðibýli fortíðarinnar. Ég held þó að þessir hlutir skipti máli. Það skiptir máli að fá stuðning og eins að ná fram í dagsbirtuna sjónarmiðum afturhalds og afneitunar.
Þangað til það hins vegar raungerist á Íslandi megum við sem eftir stöndum til með að minna á okkur og segja í kór með öðrum málsvörum þolenda ríkisofbeldis um víða veröld: fólkið okkar er kannski dáið, fólkið okkar er kannski lúið; en við erum hér enn, við minnumst fólksins okkar og ætlum ekki að gleyma hvernig komið var fram við það.
Höfundur er dóttursonur og nafni fyrrum dómþola í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.