Flóttamannavandinn í kjölfar langvarandi stríðsátaka í Sýrlandi er vafalaust ein stærsta frétt ársins sem hefur snert marga. Á Íslandi birtist þetta skýrt í átakinu „Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar“. Þá er ekki ólíklegt að myndin af látna sýrlenska drengnum á ströndum Tyrklands verði í flokki áhrifaríkustu fréttamyndum allra tíma þegar fram líða stundir. Á Íslandi, sem og víða á Vesturlöndum, hefur athyglin beinst að fordæmalausum straumi flóttamanna til Evrópu, aðallega frá Sýrlandi. Fjöldinn eykst með hverjum deginum og síðasta árið hefur um hálf milljón sýrlenskra flóttamanna sótt um hæli víðsvegar um Evrópu, þar af 62 þúsund í september síðastliðnum.
Flóttamannavandi Evrópu í alþjóðlegu samhengi
Þegar tekið er mið af fréttaflutningi og orðræðu
samfélagsins væri eðlilegt að draga þá ályktun að flóttamannavandinn í Evrópu sé sá
mesti sem sést hefur í heiminum á síðustu áratugum. Ef t.a.m. „Europe refugee
crisis“ er slegið inn í leitarvélina Google birtast 581 þúsund niðurstöður.
Þegar allir heimshlutar eru teknir með inn i myndina blasir við að
flóttamannavandinn sem Evrópa stendur frammi fyrir núna er langt í frá því að
vera sá stærsti hingað til. Á yfirborðinu gefur almenna umræðan því skakka mynd
af raunveruleikanum.
Í kjölfar þjóðarmorðanna í Rúanda flúðu meira en tvær milljónir heimamanna
land sitt til nágrannalandanna. Þeir miklu flutningar leiddu síðan til fyrra
Kongó stríðsins árið 1996 þar sem 250-800 þúsund manns týndu lífi sínu. Ef
„Rwanda refugee crisis“ er slegið inn í Google leitarvélina birtast 927
niðurstöður.
Sé horft til núverandi flóttamannavanda í víðara samhengi skilar „Middle
East refugee crisis“ 51 þúsund niðurstöðum á Google. Samt liggur það fyrir að
rúmlega fjórar milljónir Sýrlendinga hafa þurft að flýja heimaland sitt á
síðustu árum og dvelja flestir í nágrannalöndum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar
að auki eru nærri 8
milljónir Sýrlendinga á flótta í eigin landi.
Það eru mun fleiri flóttamenn víða annars staðar
Í lok síðasta árs voru tæplega 60
milljónir manna með stöðu „flóttamanns“ um heim allan. Þar af höfðu 19,5 milljónir flúið
heimaland sitt og af þeim dvöldu 86% í þróunarlöndum. Í þeim ríkjum er algengt
að þjóðartekjur á mann séu um 1/40 af þjóðartekjum meðal Íslendings, jafnvel
minni.
Eitt af þessum löndum er Chad, sem hýsti 450 þúsund flóttamenn í lok árs 2014. Í Chad lifði 40% þessarar 10 milljón manna þjóðar á undir 226 krónum á dag árið 2011 skv. Alþjóðabankanum. Hlutfallslega er þó vandinn e.t.v. stærstur í Líbanon þar sem flóttamenn voru 1,3 milljónir, á meðan þjóðin telur tæplega 6 milljónir. Í Evrópu búa um 740 milljónir manna, samt skilar „Lebanon refugee crisis“ einungis 4.440 niðurstöðum á Google.
Afhverju snýst þetta þá allt saman um Evrópu?
Tölfræðin hefur talað sínu máli og þessi einfalda Google greining bendir
til þess að áherslan á Evrópu og þann „flóttamannavanda“ sem álfan glímir við í
dag er í engu samræmi við umfang vandans, ef hann er borin saman við fyrrnefnd
dæmi. En hvers vegna fær flóttamannavandi Evrópu mesta athygli?
Ætli fólk tengi betur við og láti sig meira varða vandamál sem standa þeim nærri? Það hljómar allavega ekki svo galin skýring. Jafnframt virðist galinn maður að nafni Jósef Stalín hafa aðra mögulega skýringu þegar hann sagði að dauði eins manns sé harmleikur en dauði milljóna tölfræði. Á vísindalegu nótunum hafa sálfræðingar sett fram kenninguna „collapse of compassion“ sem gæti útlagst sem „hrun samkenndar“ á íslensku. Ein rannsókn fólst í því að segja sögu og sýna mynd af stúlku frá Darfúr. Samanburðarhópurinn fékk sambærilega sögu og var þeim sýnt myndir af átta börnum. Niðurstaðan var sú að seinni hópurinn fann till minni samkenndar. Er „hrun samkenndar“ að spila með okkur Evrópubúa líka? Ætli það sé ástæðan fyrir því að við finnum minna til með milljón manns í fjarlægð, í samanburði við einstakar dæmisögur, sem eru mun nærri okkur?
Þeir sem komast til Evrópu þurfa síst á hjálp að halda
Mannslíf verða greinilega ekki „verðmæt“ fyrr en þau eru komin inn fyrir landamæri Evrópu eða ef þau birtast á sjónvarpskjánum okkar. Það er galið. Í tilfelli flóttamanna sem koma til Evrópu er raunin líka sú að þeir þurfa jafnvel síður á hjálp að halda en þeir sem sitja eftir, t.d. í flóttamannabúðum í Líbanon. Ástæðan er sú að það er mjög dýrt að komast til Evrópu, og því er það aðeins á færi þeirra efnameiri að leggja á sig ferðalagið. Það er líka augljóst að fólk þarf að vera nokkuð heilsuhraust til að ferðast hundruðir kílómetra í allskyns aðstæðum og að vera tilbúið að leggja slíkt ferðalag á börnin sín.
Forgangsröðun
Það skal ekki gera lítið úr þeim vanda flóttamanna sem koma til Evrópu en mikilvægt er að hafa hið alþjóðlega samhengi á bak við eyrað. En einmitt miðað við þann fjölda fólks sem löndum í neyð hafa tekist að veita skjól hafa Evrópubúar enga afsökun. Þar á meðal Íslendingar. Þrátt fyrir okkar „skort á reynslu“ borgar það sig fyrir okkur. Þá má ekki heldur gleyma því að mesta neyðin er ennþá langt frá okkur, hvort sem það er í Sýrlandi eða annars staðar. Mannlegur harmleikur í Suður-Súdan er ekki minni mannlegur harmleikur heldur en mannlegur harmleikur í flóttamannabúðum í Ungverjalandi. Sönnum að óþokkinn Jósef Stalín hafi haft rangt fyrir sér.