Ég hef unnið við að temja, þjálfa og rækta hross frá blautu barnsbeini. Ég hef síðan unnið sem dýralæknir síðan 2003 bæði sem héraðsdýralæknir, þjónustudýralæknir og svo sjálfstætt starfandi dýralæknir og meðhöndlað í minni vinnu óteljandi hross.
Í þessari vegferð minni hef ég sankað að mér mjög víðfeðmri þekkingu og lesið óhemju mikið af gögnum/rannsóknum á atferli hrossa og sjúkdómum og meðhöndlun. Hef unnið með ótal mörg hross sem hafa orðið fyrir bæði andlegum og líkamlegum skaða.
Þar sem fólk virðist eiga mjög erfitt með að setja sig í spor hestsins sem ekki til þekkja langar mig ekki síst að fræða og fara í gegnum þá upplifun sem hesturinn verður fyrir við þessa meðhöndlun sem blóðtakan getur verið og afleiðingar hennar.
Hestar eru gífurlega næmar skepnur og skyni gæddar verur. Þeir upplifa tilfinningar svo sem hræðslu, kvíða, missi, einmanaleika, ánægju, gleði og svo til allar aðrar tilfinningar eins og við mannskepnan. Hestar læra af reynslunni – með því að prófa sig áfram og eru sérfræðingar í að nema hin minnstu smáatriði. Hestar taka eftir mun minni merkjum en maðurinn. Hestar hafa ekki rökhugsun og vegna þess geta þeir ekki dregið ályktanir, þeir læra bara af reynslunni (alhæfa).
Þar sem hestar eins og önnur spendýr læra af fyrri reynslu man hesturinn best af öllu eftir spennu og hræðslu og myndar oft sérstaklega sterk tengsl við slæmar/sársukafullar minningar. Hann er bráðin og lítur á okkur sem rándýr. Sem bráð eru hestar einstaklega færir í að fela sársauka/vanlíðan, mega ekki sýna rándýrinu veikleika sýna. Því miður fyrir hestinn getur þetta haft áhrif á velferð þeirra, þar sem eigendur/umráðamenn/dýralæknar gera sér ekki oft grein fyrir því. Það getur leitt til þess að þeim er oft misboðið andlega og líkamlega.
Hvað gerist hjá meri/hesti sem lendir í þeim aðstæðum sem blóðmerar eru settar í? Þær eru reknar inn í þröngann tökubás aðskildar frá sínu folaldi, mýldar og höfuð reyrt upp, síðan er bakstrekkjari settur yfir bakið á þeim. Bara það að hún er mýld og höfuð reigt upp veldur hrossum gífurlegri vanlíðan og getur valdið algjörri ofsahræðslu og mikilli slysahættu. Þessar aðfarir gera þeim ókleift að fara fram, aftur, til hliðar eða að prjóna upp. Eina undankomuleiðin er að leggjast, sem er það versta sem flóttadýr getur hugsað sér til að flýja undan hættunni.
Það er ekki hægt að útskýra fyrir hestinum að þetta taki einungis nokkrar mínutur, hann upplifir sig í bráðri lífshættu. Oftar en ekki eru blóðmerar lítið eða ótamdar hryssur og upplifunin er alger angist/hræðsla og sársauki og þær berjast um en komast ekki undan.
Lært hjálparleysi
Í lýsingum Ísteka segir „temjist þær á nokkrum skiptum og standi þá kjurrar“ og „Því er ekki að neita að ýmislegt getur gengið á í byrjun, en flestar hryssur temjast ótrulega fljótt“ (Eggert Gunnarsson et al, 1982).
Afhverju gera þær það? Hesturinn eins og öll dýr reynir að forðast sársauka/hættu. Þegar það er gert ómögulegt að flýja, byrja þeir oftast á að vera æstir og berjast um, bíta, slá, reyna að flýja hættuna/sársaukann. Þegar þeir finna að sama hvað þeir gera geta þeir ekki komist undan áreitinu gefast þeir upp.
Þeir hestar geta farið yfir í það sem kallað er lært hjálparleysi (e. learned helplessness) sem er skilgreint sem andlegt ástand þar sem dýrið/einstaklingurinn lærir að það hefur enga stjórn á óþægilegum eða skaðlegum aðstæðum. Öll þeirra viðbrögð eru tilgangslaus og þau eru hjálparlaus. Það eru varanlegar líffræðilegar afleiðingar sem ná mun lengra og dýpra en að geta ekki forðast áreitið eða sársaukann.
Þegar hestar geta ekki komist undan sársaukanum eða áreitinu er það þeirra lausn að virðast rólegir og aðgerðarlausir til að draga ekki athygli rándýrsins að sér. Hjá þessum hestum mælist oft hærra magn cortisol sem er stresshormón, einnig sjást oft magasár hjá þessum hestum og eru þeir oft með skert ónæmiskerfi.
Lært hjálparleysi sýnir svipuð einkenni og notast við svipaðar heilabrautir og mikill sársauki í iðralíffærum, t.d deyfð, sinnuleysi, minni árverkni, lægri púls og lægri blóðþrýstingur. Látum ekki blekkjast af þeim merum sem teymast inn í básinn „sjálfviljugar“ án baráttu, þær eru búnar að komast að því að þær komast ekki undan og hafa gefist upp.
Lýsing blóðmerabónda af hans upplifun á hvernig hans merar breyttust við blóðtökuna eftir eitt ár í blóði er skýrt dæmi um lært hjálparleysi. En hann lýsir þvi þannig að merar sem áður voru spakar og sóttust eftir snertingu við manninn urðu eftir nokkur skipti daufar, kaldar og forðuðust snertingu mannsins.
Okkar samleið og vinna með hestinum á að byggjast á samvinnu ekki þvingunum og ofbeldi. Tamningar- og þjálfunaraðferðir sem kenndar eru í dag byggjast á hestvænum aðferðum og leitast er við að útrýma aðferðum sem byggjast á þvingunum og ofbeldi.
Í dag eigum við að vita betur og gera betur í allri okkar vinnu og umgengni við hross. Þessi meðhöndlun samrýmist ekki þeim hugmyndum sem við höfum um dýravelferð í dag. Íslenski hesturinn hefur einstaklega gott geðslag, er yfirvegaður og þolgóður en þarna er enginn vafi á því að verið er að seilast inn í sálina og það er ekki ásættanlegt.
Ég tel því þessa meðhöndlun vera skýrt brot á lögum um velferð dýra 2013 nr. 2013/55. Þar er skýrt tekið fram að markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Ennfremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.
Einnig er í reglugerð um velferð hrossa nr. 910/2014 tekið fram að tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði hrossa með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að hross geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Einnig er í 9. gr tekið fram að óheimilt er að þvinga hross í höfuðburð með búnaði sem gefur ekki eftir eða að uppgefa hross með bindingum eða öðrum þvingunum.
Það er engum blöðum um það að fletta að þessar merar eru að upplifa vanlíðan, ótta og sársauka og eru beitt þvingunum með bindingum.
Blóðmagn og blóðhagur
Blóðmagn sem tekið er úr þessum merum stangast á við allar rannsóknir sem skrifaðar hafa verið um tilraunir á blóðtöku hjá hrossum, hvað þá allar viðmiðunarreglur sem gilda í flestum siðuðum löndum um tilraunadýr.
Haldið er fram að blóðmagn íslenska hestsins sé 35-37 lítrar af fyrirtækinu Ísteka. Það rétta er að samkvæmt birtum rannsóknum á blóðmagni hesta er magn blóðs í hrossum að meðaltali 75 ml/kg sem gerir að okkar hestur sem er 350-390 kg er með um 26-29 lítra.
Einnig sýna rannsóknir að fylfullar hryssur séu með allt að 15% minna magn af blóði en hinn venjulegi hestur.
Hér á landi eru fjarlægðir allt að 5 lítrar í einu, einu sinni í viku í allt að tvo mánuði. Um 17-19% af heildarmagni blóðsins tekið í hverri blóðtöku.
Þar sem þessar merar teljast til tilraunadýra ættu að vera til verklagsreglur um blóðtökuna en alþjóðlegar verklagsreglur um tilraunadýr bæði í Evrópu og Bandaríkjunum eru þær að það megi taka allt að 7,5% vikulega og aldrei ráðlagt að taka meira en 15% vegna hættu á blæðingarlosti og ef svo er þá verða að líða 4 vikur á milli blóðtöku. Einnig að ef farið er yfir 10% mörkin verði að gefa vökva í æð til að vega upp á móti blóðtapi. Samkvæmt þessu mætti þá taka mest um 2 lítra.
Hross þola blóðmissi allt að 15%, í undantekningartilfellum jafnvel 20–30%, án þess að þurfa á blóðgjöf að halda en þau þurfa að minnsta kosti 1 mánuð til að jafna sig, hafa rannsóknir sýnt. Innan Evrópusambandsins og í Sviss er blóðtaka úr fylfullum hryssum og hryssum með folöld á spena bönnuð með öllu, nema í örlitlu magni til rannsókna og læknismeðferðar. Þar sem það telst siðferðilega rangt eru ekki til rannsóknir hversu mikið blóð megi taka úr þeim. Álagið á blóðmerarnar er þríþætt á við önnur hross, þær eru að nota orku í að framleiða mjólk fyrir folaldið og að þroska hið ófædda fyl sem og að nota orku í að bæta upp fyrir það blóðtap sem þær verða fyrir vikulega.
Fullyrðing Ísteka er að þetta hafi engin áhrif á merarnar líkamlega eða þeirra blóðbúskap og vitna í eigin rannsóknir. Engar birtar rannsóknir frá þeim sýna fram á það og ekki er hægt að fá neinar upplýsingar varðandi þessar rannsóknir sem sagt er að séu framkvæmdar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Birt er línurit á vef Ísteka um hemoglobin magn í blóði, ekkert sagt um fjölda mera, tekið er fram að blóðprufa sé tekin á sama tíma og blóði er safnað. Þetta getur gefið rangar niðurstöður þar sem milta í hrossum er þann gert að það hefur miklar auka blóðbirgðir sem eru losaðar við mikla áreynslu eða álag og geta aukið rauð blóðkorn og hemoglobin allt að tvöfalt í blóðrás. Rannsóknir á viðbrögðum hjá hrossum þar sem mikið magn blóðs hefur verið tekið er að hemoglobin gildin eru að lækka í allt að viku eftir blóðtökuna en fara svo hægt upp á við. Ráðlagt er að taka sýni 1-7 dögum eftir blóðtöku til að fá réttari niðurstöðu.
Nákvæmar klínískar blóð- og efnarannsóknir fyrir og í kjölfar blóðtöku ætti að vera ófrávíkjanleg regla þegar um er að ræða meðferð á tilraunadýrum. Rannsóknir sem krafist er af Matvælastofnun er hematokrit og hemoglobin án skýrra tímamarka og einungis á hluta hryssanna á tveggja ára fresti, verða hins vegar að teljast ófullnægjandi með öllu.
Eina efnið sem til er á prenti um blóðtökur á fylfullum merum er skrifað 1982 af Eggert Gunnarssyni og Þorsteini Ólafssyni þegar blóðtökurnar eru að byrja hér á landi. Þar lýsa þeir meðal annars hvaða áhrif blóðtakan getur haft á sumar merar, sem híma fyrst á eftir, á meðan aðrar leggjast, velta sér og liggja hríðflatar og geta þess vegna orðið afvelta. Þá segir að þeim sé líka hætt við klums sem sýnir klárlega að þarna er verið að fara yfir mörkin og sýna einkenni blóðleysis. Sem dýralæknir myndi ég taka þessu sem skýru merki um að hér þyrfti meðhöndlunar við.
Samkvæmt heimildum frá MAST eru til þrír íslenskir lagatextar sem eiga við um blóðtöku vegna framleiðslu á PMSG. Það eru lög um velferð dýra nr. 55/2013, reglugerð nr. 910/2014 um velferð hrossa og reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni og er hún gerð eftir tilskipun ESB nr. 2010/63 sem varðar EES. Leyfi Ísteka til framleiðslu á PMSG byggist á reglugerð nr. 460/2017. Þar með telst blóðtaka til lyfjavinnslu til tilrauna á dýrum, líkt og í ESB. Nú er löggjöf ESB og íslensk löggjöf varðandi tilraunir á dýrum byggð á lögmálunum þremur sem eru:
- skipta út, það er að í öllum tilvikum sem hægt er á að nota aðrar aðferðir en dýr til tilrauna,
- draga úr, það er draga úr þeim fjölda dýra sem notuð eru í tilraun
- fínstilla/fullvinna til að lágmarka áhrif sem tilraunadýr verður fyrir.
Reyndar er meginreglan sú að aðeins megi gera tilraunir á dýrum ef enginn önnur leið er í boði.
Allar dýratilraunir verða að vera metnar á grundvelli þess að vísindalegur ávinningur á móti álagi sem lagt er á dýrin sé nauðsynlegur og ómissandi. Þessi „dýratilraun“ er hvorki vísindalega nauðsynleg þar sem gerðar hafa verið ítarlegar rannsóknir á blóðbúskap hrossa og gjörsamlega óþörf á sviði dýralyfjarannsókna þar sem hægt er að nota aðrar aðferðir sem og önnur kemísk lyf í sama tilgangi. Nú þegar er búið að þróa aðferðir til framleiðslu á eCG þar sem notaðar eru sérstakar frumulínur á rannsóknarstofu.
Einnig er skýrt kveðið á um það í reglugerð um velferð hrossa, nr. 910/2014, að ekki megi gera aðgerðir á hrossum án læknisfræðilegrar ástæðu en í þessu tilviki er greinilega brotið gegn því ákvæði.
Því er blóðtaka á fylfullum hryssum í hagnaðarskyni ólögleg og stjórnvöld geta ekki samþykkt hana.
Höfundur er dýralæknir, dýrahnykkjari, hestamaður og hrossaræktandi.
Heimildir
Recommendations for Ensuring Good Welfare of Horses Used for Industrial Blood, Serum, or Urine Production. Xavier Manteca Vilanova, Bonnie Beaver, Mette Uldahl, and Patricia V. Turner. Animals 2021,11,1466.
Horse Welfare During Equine Chorionic Gonadotropin (eCG) Production. Xavier Manteca Vilanova, Nancy De Briyne , Bonnie Beaver and Patricia V. Turner. Animals 2019,9,1053.
Blóðsöfnun úr fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu. Eggert Gunnarsson og Þorsteinn Ólafsson. Ráðunautafundur 5. Árg 2 tlbl. 1982
A good practice guide to the administration of substances and removal of blood, including routes and volumes. Karl-Heinz Diehl, Robin Hull, David Morton, Rudolf Pfister, Yvon Rabemampianina, David Smith, Jean-Marc Vidal, Cor Van De Vorstenbosch. Applied toxicology vol 21, 2001.
Equine welfare. C. Wayne Mcllwraith og Bernard E. Rollin, Wiley-Blackwell. UFAW
Cardiovascular, Haematological and Biochemical Responses After Large Volume Blood Collection in Horses: n:Malikides, J.L.Hodgson, R.J. Rose, D.R. Hodgson. The veterinary journal 2001,162
Haematological responses of repeated large volume blood collection in the horse. N.Malakides, P.J Mollison, S.W.J. Reid and M. Murray. Research in veterinary science 2000, 68
Reglugerð um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni nr 460 26 maí 2017
Fundargerðir fagráðs um velferð dýra 28 ágúst 2017 og 24 nóvember 2021
Bústjórn við nýtingu á blóði fylfullra hryssna til lyfjaframleiðslu BS ritgerð maí 2019 Dagrún Kristinsdóttir
Academic horse training. Equitation science in practice. 2008 Andrew McClean og Manuela McClean
A review of knowledge regarding blood volume and splenic reserve in the horse. Journal of Equine Veterinary Science Volume 3, Issue 3, 1983, Pages 94-98 Glen R.Mangseth1William J.Horn ofDVM1
Equine exercise physiology. The science of exercise in the atheletic horse. Kenneth W. Hinchcliff BVSc (Hons)MS PhD Dip ACVIM. Raymond J.Geor BVSc MVSc PhD Dipl ACVIM. Saunders Elsevier 2008.
A new classification to diagnose type of anemia in Standardbred horses: Retrospective study. Journal of equine veterinary science 44 (2016) 21-25. Barbara Padalino, Guiseppe Rubino, Rosanna Lacinio, Ferruccio Petazzi.
Development of a suitable manufacturing process for production of a bioactive recombinant equine chorionic gonadotropin (reCG) in CHO-K1 cells Carlos JavierVillarrazaa, Sebastián Antuñae María, Belén Tardivoe, María Celeste Rodrígueza, Pablo Mussiob, Luciano Cattaneoc, Diego Fontanaade, Pablo U.Díazch, Hugo H.Ortegach, Andres Tríbulog, AlejandroMacagnof, Gabriel A.Bófg, NataliaCeaglioa, ClaudioPrietobde Theriogenology vol 172, 15 September 2021, Pages 8-19.
Ethical considerations in animal studies. Mehdi Ghasemi and Ahmad Reza Dehpour. J Med Ethics Hist Med. 2009; 2: 12. Published online 2009 Jul 30.
Ethical guidelines for use of animal in research. 8/7/2019 Given by the national Committee for research ethics in science and technology (NENT) 2018