Fyrirsögnin er latneskt orðtak og merkir að vera kengboginn inn í sjálfan sig. Ágústínus kirkjufaðir (354-430 e.Kr.) bjó til þessa hugtakaþrennu og skilgreindi manninn, karl og konu, sem kengboginn inn í sjálfan sig í stað þess að vera úthverfur og beina sjónum sínum að Guði og náunganum. Marteinn Lúther notaði þetta sama orðtak um manninn, manneskjuna. Maðurinn er kengboginn inn í sjálfan sig. Og í þessu sambandi talaði hann um hinn synduga mann.
Hver er syndugur?
Svarið er: Allir! Við erum öll því marki brennd að líf okkar er skrykkjótt og einkennist af mistökum og ófullkomleika. Þannig er líf okkar mannfólksins á þessari jörð. Við erum mistæk, í okkur er brotalöm, geigun sem er laukrétt merking orðsins synd í Nýja testamentinu, sem ritað var upphaflega á grísku.
Við missum marks
Þetta er saga okkar, þín og mín. Við geigum, lendum upp á kant við hvert annað, móðgumst út af misskilningi, förum í fýlu, verðum orðljót, sjáum ekki aðalatriðin fyrir smælki sem truflar, tökum rangar ákvarðanir, sumir verða að segja af sér sem embættismenn vegna klaufaskaps og fordóma, allt of margir opinberir starfsmenn standa vörð um sérhagsmuni og svindl án þess að blikna, menn ærast af auði, við ökum öll út af lífsveginum fyrir einskæran klaufaskap og lendum úti í skurði. En við komumst ávalt uppá veginn aftur og finnum fótum okkar forráð um stund. En við erum og verðum áfram incurvatus in se því það ástand hverfur aldrei meðan þessi jörð snýst og sólin sendir geisla sína yfir heiminn - skepnu Guðs.
Sumum kann að þykja þessi mannskilningur dimmur og drungalegur en hann er í rauninni tilraun til að finna jafnvægi milli tveggja andstæðra póla og því má segja að kristinn mannskilningur sé þessi:
Maðurinn (karl og kona) er kóróna sköpunarverksins, frábær, fallegur og flinkur, en -og það er stórt EN - hann er um leið mistækur, klaufskur og hættir til að hugsa fremur um eigin hag en annarra.
Næsti pistill minn mun fjalla um þau sem eru hvað bognust inn í heim tækninnar.
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur.