Þennan dag fyrir réttum þrjátíu árum var hátíð í Höfða. Merkum tímamótum var fagnað. Meðal gesta í hinu tignarlega húsi í Reykjavík með sína merku sögu voru sendimenn erlendra ríkja, háttsettir embættismenn og íbúar hér á landi sem áttu rætur að rekja til Eystrasaltslandanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens. Mestu máli skiptu þó heiðursgestirnir þrír, Eistlendingurinn Lennart Meri, Lettinn Jānis Jurkāns og Litháinn Algirdas Saudargas. Þeir voru utanríkisráðherrar landa sinna, komnir hingað í boði íslensks starfsfélaga síns, Jóns Baldvins Hannibalssonar. Tilefnið var einstakt, undirritun samninga um stjórnmálasamband Íslands við Eystrasaltsríkin þrjú.
Viku fyrr höfðu andstæðingar Mikhaíls Gorbatsjovs, leiðtoga Sovétríkjanna, reynt að steypa honum af stóli. Þeir sáu fyrir sér að brjóta á bak aftur sjálfstæðishreyfingar í Eystrasaltslöndunum og víðar. Tilraunin var fálmkennd og rann út í sandinn innan fárra sólarhringa. Sjálfstæðissinnum við Eystrasalt fannst að þá væri að hrökkva eða stökkva. Undir það tók utanríkisráðherra Íslands og Davíð Oddsson forsætisráðherra var sama sinnis þótt enn væri ringulreið í Moskvu og óvíst um afstöðu Bandaríkjanna og annarra á Vesturlöndum. Boði íslensku ríkisstjórnarinnar um stjórnmálasamband var heldur betur fagnað við Eystrasalt.
Í Höfða féllu gleðitár þegar samningar voru undirritaðir. „Ísland er ísbrjóturinn á alþjóðavettvangi,“ sagði hinn lettneski Jurkāns og undir það hefðu Meri og Saudargas hiklaust tekið. „Þið þorðuð þegar aðrir þögðu,“ sagði Vytautas Landsbergis, leiðtogi sjálfstæðishreyfingarinnar í Litháen, síðar. Héðan héldu utanríkisráðherrarnir þrír svo til Kaupmannahafnar og Oslóar í sömu erindagjörðum og höfðu leitt þá hingað. Ekki varð aftur snúið. Eistland, Lettland og Litháen komu á ný í fjölskyldu sjálfstæðra ríkja.
Frægðarför utanríkisráðherra
Frumkvæðið í ágúst 1991 þykir lofsvert en ekki síður för Jóns Baldvins Hannibalssonar til Eystrasaltslandanna þriggja í janúar það ár. Þá leit allt eins út fyrir að úti væri um sjálfstæðisvonir þar ytra. Í hverju landi um sig var um hundrað þúsund manna sovéskt herlið og einnig höfðu sérsveitir frá Moskvu verið sendar þangað. Sovéthollir Rússar í löndunum stefndu leynt og ljóst að því að sölsa undir sig völdin og berja niður þá sjálfstæðis- og frelsisöldu sem hafði risið þar eftir að umbótasinninn Mikhaíl Gorbatsjov komst til valda eystra árið 1985. Hæst bar hana hinn 23. ágúst 1989. Um tvær milljónir íbúa við Eystrasalt tóku þá höndum saman í bókstaflegri merkingu, frá norðurströnd Eistlands um Lettland að suðurmærum Litháens. Þannig var þess minnst að hálf öld var liðin frá undirritun griðasáttmálans alræmda milli Þýskalands Hitlers og Sovétríkja Stalíns – í leyniviðauka hans var kveðið á um skiptingu Eystrasaltslandanna milli þessara einræðisríkja.
Lengi vel virtist Gorbatsjov Sovétleiðtogi traustsins verður en kannski færi allt í sama far og gerst hafði áður austan járntjalds. Árið 1953 höfðu lýðræðisöfl í Austur-Þýskalandi verið barin niður, sama gerðist í Ungverjandi 1956, Tékkóslóvakíu 1968 og Póllandi 1981 svo að helstu óhæfuverkin séu nefnd.
Í janúar 1991 leit jafnvel út fyrir að sagan endurtæki sig, í þetta sinn í Litháen. Laugardaginn 12. janúar það ár stóðu þúsundir Litháa vörð við mikilvægar byggingar í höfuðborginni Vilníus, einkum þinghúsið og sjónvarpsturninn þar sem dagskrá litháíska sjónvarpsins var send út. Eftir miðnætti réðust hermenn og sérsveitarliðar til atlögu gegn hinum óbreyttu borgurum. Sumir heimamanna lögðust fyrir framan skriðdreka sem mjökuðust samt áfram. Útsending sjónvarps rofnaði og þegar morgnaði varð ljóst að fjöldi manns hafði fallið. Alls létust 14 Litháar í árásinni, auk sovésks liðsforingja sem varð fyrir kúlu eigin manna.
Skömmu eftir þessa atlögu kom Vytautas Landsbergis þeim boðum til Jóns Baldvins Hannibalssonar að nú yrði hann að láta efndir fylgja orðum, halda utan og sýna þannig stuðning í verki. Jón tók áskoruninni, hélt til Litháens og einnig Eistlands og Lettlands, eini ráðherrann frá Vesturlöndum þótt norrænir aðstoðarráðherrar hafi einnig komið á vettvang. Jón var einmitt í Ríga 20. janúar þegar sovéskir sérsveitarliðar felldu þar fjóra heimamenn og bættist þá enn við þann hóp sem lét lífið í þágu frelsis og lýðræðis við Eystrasalt.
Forsetar og fræðimenn
Þetta eru þeir tveir atburðir sem Eistlendingar, Lettar og Litháar mátu svo mikils og meta enn, Eystrasaltsförin í janúar 1991 og samningar um stjórnmálasamband 26. ágúst 1991. Úti er Íslendingum því einatt tekið með kostum og kynjum; það fann ég fyrst þegar ég hélt á þessar slóðir sumarið 1994 og æ síðan.
Tímamótanna miklu árið 1991 hefur reglulega verið minnst með pompi og prakt. Árið 2011 sótti forveri minn á forsetastóli hátíðahöld í Tallinn í tilefni þess að 20 ár voru frá kaflaskilunum 1991. Ólafur Ragnar Grímsson var þar aufúsugestur eins og gefur að skilja. Á sama tíma var ég líka í Eistlandi. Ekki sótti ég þó hátíðahöldin í Tallinn og á enga mynd af mér ytra. Ég var í háskólaborginni Tartu, sat þar fræðaráðstefnu um sögu og samtíð Eystrasaltslandanna eftir að hafa herjað út smástyrk til þess frá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra ef ég man rétt. Þarna flutti ég erindi um stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna og byggði það á meistararitgerð minni um það efni við Háskóla Íslands frá árinu 1997.
Á grunni erindisins vann ég fræðigrein, „Icelandic support for Baltic independence: myth, memory and detachment.“ Sumarið 2016 birtist hún í eistnesku fræðiriti. Þá var ég orðinn forseti og um haustið tók ég á móti utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja á Bessastöðum. Hér þökkuðu þeir innilega fyrir atbeina Íslands í sjálfstæðisbaráttu þeirra aldarfjórðungi fyrr. Í tengslum við heimsókn þeirra flutti ég erindi um þessa merka sögu.
Og nú eru liðin önnur fimm ár. Enn er tilefni til að minnast umbrotanna miklu árið 1991 og áhrifa íslenskra stjórnvalda á rás viðburða. Því er þó ekki að leyna að eitt er að gera það á ráðstefnu fyrir sagnfræðinga, stjórnmálafræðinga og annað fræðafólk og birta svo ritgerð í lítt lesnu fræðiriti (með fullri virðingu fyrir The Estonian Historical Journal). Það má teljast allt annar handleggur að horfa á þessa löngu liðnu viðburði af sjónarhóli forseta Íslands (og er ég þó ekki farinn að tala um sjálfan mig í þriðju persónu).
Um leið hljótum við þó að mega vona að ekki þurfi að vera hyldjúp gjá milli þess sem sagt er á hátíðarfundum og í skálaræðum og hins sem haldið er fram á fræðilegum vettvangi.
Flóknari mynd
Við getum vel hampað atbeina Íslands í þágu Eystrasaltsþjóðanna þótt við leyfum okkur líka að benda á fleira en fyrrnefnda lykilviðburði, utanför utanríkisráðherrans og samningana um stjórnmálasamband. Við getum fyllt betur upp í þá mynd, rakið aðdragandann, sett atvik og atburði í samhengi, sagt frá því sem gerðist til einhvers annars en að uppskera hrós og klapp, eins notalegt og það getur nú samt verið.
Byrjum á sögunni. Engum vafa er undirorpið að upp til hópa höfðu Íslendingar samúð með Eistlendingum, Lettum og Litháum þegar þeir þurftu að þola sovéskt ok. Mörg dæmi má nefna því til staðfestingar, skrif í blöðum og útgáfu bóka um þá þján, meðal annars þýðingu Davíðs Oddssonar þegar hann var í laganámi á riti um Eistland sovéttímans. Á hinn bóginn er eins auðvelt að benda á mikilvægi viðskipta í íslenskri utanríkisstefnu og nauðsyn þess að smáríki í hörðum heimi gæti eigin hagsmuna. Þótt íslensk stjórnvöld hafi aldrei viðurkennt formlega innlimun Eystrasaltslandanna í Sovétríkin gerðu þau það í verki, jafnvel skýrar en ráðamenn margra annarra ríkja á Vesturlöndum. Í kalda stríðinu voru sovétviðskipti snar þáttur í efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda og engum datt í hug að andæfa því að siglt væri á hinar „sovésku“ hafnir við Eystrasalt. Þingmenn úr öllum flokkum héldu í viðhafnarheimsóknir til „sovétlýðveldanna“ þriggja og í það minnsta einn íslenskur sendiherra í Moskvu rauf þá sátt innan Atlantshafsbandalagsins að slíkir embættismenn viðurkenndu ekki sovésk yfirráð með því að fara til Eystrasaltslandanna.
Realpolitik ræður
Við lifðum og lifum í hörðum heimi. Realpolitik ræður miklu, sú sýn að hvers kyns vald skipti sköpum í alþjóðasamskiptum og hvert ríki sé sjálfu sér næst. Vissulega er freistandi að saka leiðtoga á Vesturlöndum um það að hafa ekki viljað styðja kúgað fólk í frelsisleit. Vísast er það svo að í draumaveröld hefðu leiðtogar Bandaríkjanna og Evrópuvelda orðið við óskum íbúa Eystrasaltslandanna í einu og öllu þegar þeir hófu baráttu sína fyrir sjálfstæði undir lok níunda áratugar síðustu aldar. En hvað hefði þá getað gerst? Nú er það því miður svo að fortíðin er ekki eins og stærðfræðijafna eða efnafræðiformúla þar sem við getum breytt einum þætti og vitað fyrir víst hvernig lokaniðurstaðan verður fyrir vikið. Á hinn bóginn virðist ljóst að hefði Mikhaíl Gorbatsjov til dæmis fallist á sjálfstæðisyfirlýsingu Litháens í mars 1990 hefði andstæðingum hans í Moskvu heldur betur vaxið ásmegin. Hefði honum verið steypt af stóli um það leyti hefðu eftirmennirnir reynst aðrir og verri en klaufarnir sem reyndu að ræna völdum ári síðar og flýttu þannig fyrir hruni Sovétríkjanna. Hér má einmitt minna á að vorið 1990 vildu íslensk stjórnvöld ekki verða við óskum Litháa um fulla og óskoraða viðurkenningu á sjálfstæði þeirra. Það þótti ekki tímabært.
Um þær mundir var ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar við völd, samstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Borgaraflokks og Samtaka um jafnrétti og félagshyggju. Sjálfstæðismenn voru í stjórnarandstöðu og gagnrýndu stjórnina harðlega fyrir linkind og vesaldóm. Sú söguskoðun hefur áfram heyrst úr þeim ranni og þannig verður sagan flóknari þegar vel er að gáð.
Eftir Eystrasaltsför Jóns Baldvins í janúar 1991 væntu forystumenn Litháa þess sömuleiðis að íslensk stjórnvöld myndu nær samstundis stofna til stjórnmálasambands og hafði þeim svo sannarlega verið gefið undir fótinn með það. Þeir fundu húsnæði fyrir sendiráð, biðu eftir sendiherra en mánuðum saman gerðist ekkert. Í Vilníus fékk leiðtoginn Vytautas Landsbergis vart leynt vonbrigðum sínum og spurði varfærnislega hvort ekkert hefði verið að marka loforðin í Litháen.
Sovétviðskipti
Var hér kannski að ýmsu öðru að huga? Skipti máli að sovéskum valdhöfum mislíkaði mjög Eystrasaltsstefna íslenskra stjórnvalda? Þeir létu í veðri vaka að héldi þessi ósvinna áfram væri austurviðskiptum Íslendinga stefnt í voða. Var stuðningur við sjálfstæðisbaráttu fjarlægra þjóða þess virði? Útflytjendur, sem áttu beinna hagsmuna að gæta, efuðust um það. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra var á báðum áttum. Ekkert bendir þó til þess að þrýstingur Sovétmanna hafi beinlínis ráðið því að ekki var stofnað til stjórnmálasambands fyrr en raun bar vitni. Ríkisstjórn Íslands virtist reiðubúin að taka á sig skellinn í nafni hugsjónanna. Viðskipti skyldu ekki vega þyngra en stuðningur við kúgaðar þjóðir.
Því verður samt að bæta við að Kremlverjar beittu viðskiptavopninu aldrei. Í upplausnarástandinu, sem ríkti í Moskvu þegar hér var komið sögu, vissi ein stjórnardeildin kannski ekki hvað sú næsta var að gera, og kannski fannst valdhöfum eystra að afstaða Íslendinga breytti bara ekki nokkrum sköpuðum hlut. Í janúar 1991, um leið og Jón Baldvin Hannibalsson var í sinni frægðarför og fordæmdi ódæðisverk sovétvaldsins, skrifuðu sovéskir og íslenskir embættismenn undir samkomulag um frekari viðskipti austur í Moskvu, glaðir og reifir. Viðskiptahagsmunir Íslands voru tryggðir. Á sama tíma beittu Evrópubandalagið, Kanada og fleiri efnahagsþvingunum vegna atburðanna við Eystrasalt.
Orsakasamhengi
Hrun Sovétríkjanna var svo auðvitað það sem öllu skipti í þessari sögu. Stóru umskiptin urðu í ágúst 1991 þegar valdaræningjarnir í Moskvu flæktust fyrir sjálfum sér og leiddu óvart Boris Jeltsín til valda. Hann hafði áður lofað að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltslandanna og stóð við þau stóru orð. Á fundi í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel hvatti Jón Baldvin Hannibalsson kollega sína því enn til dáða, sagði að nú væri lag, nú væri einboðið að styðja vini í raun.
Framhaldið þekkjum við. Leiðin lá til Höfða og síðan fylgdu önnur ríki fordæmi litla Íslands. Smáþjóðin hafði sýnt hvað í henni bjó, hverju hægt væri að breyta ef hugsjónir fengju að ráða og hinni hörðu raunsæispólitík vikið til hliðar. Eða hvað?
Aftur þarf að staldra við. Þótt eitt fylgi öðru í tímaröð er ekki þar með sagt að eitt leiði af öðru. Atburðirnir og ákvarðanirnar sem skiptu sköpum áttu sér stað í Moskvu frekar en Reykjavík. Í Washington og víðar biðu menn ekki eftir því hvað Íslendingar segðu eða gerðu. En skipti atbeini íslenskra stjórnvalda þá engu máli? Það væri ofsagt. Hinn móralski stuðningur var mikils metinn. Fólkið við Eystrasalt fann að á Vesturlöndum voru þeir valdhafar til sem skildu og studdu vonir þess. Meira að segja er freistandi að velta því fyrir sér hvort Jón Baldvin og Davíð Oddsson hafi á sinn hátt velt þungu hlassi þegar þeir ákváðu í ágúst 1991, um leið og sýnt var að valdaránstilraunin í Moskvu færi út um þúfur, að stofna til stjórnmálasambands við Eystrasaltsríkin. Hinn metnaðargjarni Uffe Ellemann-Jensen, utanríkisráðherra Dana, sá óðara að þeir yrðu að vera eins snöggir til. Stjórnin í Kaupmannahöfn steig því sama skref, hugsanlega fyrr en annars hefði orðið raunin, og þrýsti um leið á önnur ríki Evrópubandalagsins að fylgja í kjölfarið. Þetta er þó nær ómögulegt að staðfesta með óyggjandi hætti, nema kannski í viðhafnarræðum þar sem önnur lögmál gilda en í fræðilegum rannsóknum
Alla þessa sögu þarf að segja. Sjónarhornin verða ólík að einhverju leyti eftir því hver hefur orðið. Fulltrúi smáþjóðar sér atburðina öðrum augum en valdhafi stórveldis. Sagnfræðingarnir taka annan pól í hæðina en söguhetjurnar. Fræðafólki á að vera kennt að kynna sér liðna tíð frá öllum mögulegum hliðum, þefa uppi sem flestar heimildir, leggja mat á þær, reyna framar öllu að segja satt frá en leiða hugann ekki að því hverjum frásögnin geti þjónað í pólitískum eða persónulegum tilgangi. Auk þess vilja fræðimennirnir ekki bara draga stóru drættina. Þeir vilja líka laða fram fínni blæbrigði, það sem hefði mátt betur fara, það sem er ósagt í frásögnum síðari tíma. Þetta er auðvitað ekki einskorðað við Ísland. Í Eistlandi, Lettlandi og Litháen hafa ýmsir fræðimenn horft gagnrýnum augum á tíma sjálfstæðisbaráttunnar fyrir 30 árum. Þeir rifja upp að í öllum löndunum greindi menn á um réttar leiðir að lokatakmarkinu. Þeir benda á að Eistlendingar og Lettar voru mun varkárari en Litháar og töldu þá vilja of mikið of fljótt. Þeir sýna því skilning að leiðtogar á Vesturlöndum höfðu að ýmsu að huga. Og þótt þeir virði og meti afstöðu íslenskra stjórnvalda á sínum tíma mikils taka þeir ekki endilega undir að hún hafi skipt sköpum, að Ísland hafi verið ísbrjótur á alþjóðavettvangi.
Íslandsgata og Íslandstorg
Auðvitað er það klisja en gjarnan er sagt að sigurvegararnir skrifi söguna. Vorum við Íslendingar ekki örugglega fyrstir til að viðurkenna að fullu sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens með því að taka upp stjórnmálasamband við þessi þrjú ríki?
Svarið gæti farið eftir því hvar þess er leitað. Fletti fólk til dæmis upp í „Danmarkshistorien“ á netinu segir þar fullum fetum að Danir hafi fyrstir allra viðurkennt sjálfstæði Eystrasaltslandanna. „Við vorum fyrstir þótt Uffe viðurkenni það aldrei“, hefur Jón Baldvin Hannibalsson aftur á móti sagt og er hafður í miklum metum meðal þeirra sem fóru fyrir sjálfstæðishreyfingunum við Eystrasalt. Gildi það líka um Uffe Ellemann-Jensen hafa fregnir af því ekki borist til Íslands. En kannski vita Danir líka lítið um dálætið á Jóni þar ytra.
Áþreifanlegri tákn um hlýhug Eistlendinga, Letta og Litháa í garð okkar Íslendinga eru auðfundin. Í Vilníus er Íslandsgata og Íslandstorg eru í Ríga og Tallinn. Aðrar þjóðir hafa ekki notið viðlíka heiðurs. Og þegar Bandaríkjastjórn viðurkenndi fullt sjálfstæði Eystrasaltslandanna í byrjun september 1991, vonum seinna, lét George Bush Bandaríkjaforseti hafa eftir sér að þegar sagan yrði sögð myndi enginn muna eftir því „að við vorum tveimur sólarhringum á eftir Íslandi eða hvaða land það nú var.“
Bush fór rangt með tímann sem leið og líklega myndu fáir við Eystrasalt eða á Íslandi taka undir mat hans. Svo segir það líka sitt að það var þó litla Ísland sem hann mundi eftir, ekki Danmörk, svo að annað land sé nefnt.
Á þrjátíu ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Eystrasaltsríkjanna þriggja færi ég íbúum þar innilegar heillaóskir, með von um farsæla framtíð þar sem hugað er að heill og vellíðan allra borgara. Um leið vona ég að samskipti Íslendinga og Eistlendinga, Letta og Litháa megi áfram eflast og dafna.
Höfundur er forseti Íslands.