Frumkvöðlar eru frábært fólk. Með hátt orkustig og óbilandi bjartsýni tekst þeim að sannfæra starfsfólk og fjárfesta að flykkjast með í leiðangur. Leiðangur sem felst í að leysa vandamál eða beysla tækifæri sem skapar virði fyrir notendur.
Virðir getur falist í meiri lífsgæðum, lægra orkuspori, aukinni skilvirkni, meiri gleði, o.s.frv.
Og eðlilega spyrjum við, sem myndum fylgjendahóp frumkvöðla, hvað er það sem gerir þennan ákveðna leiðangur árangursríkan.
Fyrir daga internetsins var erfitt að selja og markaðssetja vörur frá eylandi. Nú þegar markaðsetningarlögmálin eru í endurskrifun þá skiptir staðsetning í raun engu máli. Þekking á vöruleiddum vexti, bestun á leit og sýnileika á netinu og skalanlegt viðskiptamódel sem skapar virði fyrir notandann skipta hins vegar öllu máli. Hjá Amazon er t.d. verklagið þannig að ef starfsmaður fær hugmynd að nýrri vöru þá byrjar hann á því að skrifa fréttatilkynningu og spurt & svarað fyrir notendur vörunnar áður en farið er að vinna í hugmyndinni. Þannig er settur algjör fókus á notandann og virðið sem á að skapa fyrir hann.
Háskólarnir hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar með áherslu á mýkri hliðar nýsköpunar þar sem fókusinn er á leiðtogahæfni og kynningar á viðskiptahugmyndum. Og við sem störfum við fjárfestingar í nýsköpun sjáum áhrifin. Sterkir leiðtogar með skýra sýn á tækifærið halda hnitmiðaðar kynningar í fallegum byggingum fyrir stóran hóp áheyrenda.
En þetta er ekki nóg.
2019 gaf Stjórnarráðið út Grænbók um fjárveitingar til Háskóla. Þar sagði: „Hlutfall háskólamenntaðra sem lokið hefur námi í raunvísindum, tæknigreinum, verkfræði eða stærðfræði (svokölluðum „STEM“ greinum) er mjög lágt á Íslandi í samanburði við nágrannaríkin, eða 16% hér á landi en 21% í Noregi og Danmörku, 26% í Svíþjóð og 30% í Finnlandi.” og “Niðurstöður könnunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á stöðu grunnskólanemenda (PISA könnunin) sýnir að íslenskir nemendur eru mun verr staddir í læsi á náttúruvísindi en nemendur að jafnaði í ríkjum OECD og að stærðfræðilæsi hefur hrakað frá árinu 2003.”
Tæknifjárfestar reyna að spá fyrir um framtíðina með því að lesa í fortíðina. Og áhrifa síðustu 18 ára þar sem stærðfræðilæsi hefur hrakað statt og stöðugt mun vara inn í framtíðina. Á sama tíma eru aðrar þjóðir að setja aukna áherslu á raunvísindamenntun.
Er ekki kominn tími á aðgerðir til að snúa þessari þróun við? Eða hvernig nýsköpunarfyrirtæki viljum við sjá á sviði næstu árin?
Höfundur er meðeigandi Crowberry Capital.