Nú í lok apríl 2015 er þess minnst í Kanada og á meðal Vestur-Íslendinga að hundrað ár eru liðin frá því að önnur orrustan við Ypres var háð í fyrri heimsstyrjöld. Orrustan er merkileg fyrir þær sakir að í henni var í fyrsta skipti beitt gasi á vesturvígstöðvunum. Fyrir okkur Íslendinga er hún merkileg því 3. maí verða liðin hundrað ár frá því að fyrsti Íslendingurinn, Ástýr Guðjónsson, dó á vígvelli fyrri heimsstyrjaldar.
Yfir eitt þúsund og tvö hundruð Vestur-Íslendingar gegndu herþjónustu á árum fyrri heimsstyrjaldar. Næstum eitt þúsund í kanadíska hernum og rúmlega tvö hundruð í þeim bandaríska. Tæplega fjögur hundruð Íslendinganna voru fædd á Íslandi, fimmtíu fleiri í Kanada og í kringum þrjú hundruð fæddust í Bandaríkjunum. En margir Íslendingar sem skráðu sig til herþjónustu í stríðinu vildu sýna þakklæti sitt til fósturlandsins Kanada þó að margir litu fyrst og fremst á sig sem Íslendinga.
Haldið í stríð
Skiptar skoðanir voru á meðal Íslendinga í Kanada um hvort Íslendingar ættu að bjóða sig fram til herþjónustu eftir að Kanada ákvað að senda hermenn til Evrópu haustið 1914. Að því er best verður séð voru stuðningsmenn stríðsins fleiri en þeir sem voru á móti. Ástýr Guðjónsson var í hópi fyrstu Íslendinganna sem gengu í herinn. Hann var formlega skráður til herþjónustu 11. september 1914. Ástýr var fæddur 21. júní 1895 á bænum Fornastekk við Seyðisfjörð á Íslandi og flutti vestur um haf með fjölskyldu sinni 1904. Tíu árum seinna í október sigldi Ástýr aftur yfir Atlantshaf með kanadíska hernum áleiðis til Frakklands. Sjö mánuðum síðar, 2. maí 1915, lést Ástýr í hersjúkrahúsi af sárum sínum sem hann hlaut í annarri orrustunni við Ypres í Belgíu 24. apríl 1915.
Til Frakklands
Í byrjun október 1914 lögðu 32 flutningaskip úr höfn frá austurströnd Kanada, um borð voru hermenn fyrstu kanadísku herdeildarinnar, þar á meðal voru líklega 20 íslenskir hermenn. Til Englands voru skipin komin 14. október og lagði flotinn í höfn við Plymouth. Vestur-Íslendingarnir Jóhann V. Austmann og Þórhallur Blöndal lýstu því hvernig íbúar Plymouth tóku kanadísku hermönnunum fagnandi og færðu þeim epli og sígarettur og ungar stúlkur kysstu þá þegar þeir gengu fylktu liði frá höfninni að lestarstöðinni og um borð í lestir áleiðis á æfingasvæði breska hersins við Salisbury.
Dagurinn var hlýr og sólríkur, hlé var á stórskotahríð Þjóðverja sem staðið hafði linnulaust í eina viku. En hlé Þjóðverja var aðeins lognið á undan storminum.
Alvöru herþjálfun hófst í nóvember og stóð í þrettán vikur. Hinn 4. febrúar 1915 stigu kanadísku hermennirnir um borð í flutningaskip sem fluttu þá til Frakklands. Ástýr Guðjónsson var í þeim hópi, þó ekki eini Vestur-Íslendingurinn, þar voru líka Jóhann V. Austmann, ættaður frá Berufjarðarstönd í Suður-Múlasýslu, Sigurður Ársæll Hreinsson úr Gullbringusýslu, Pétur Ívarsson, fæddur í Winnipeg, og góðvinur Péturs, Jóel Björnsson, fæddur að Bakka í Fljótum í Skagafirði, Sigursteinn Hólm Sigurðsson, fæddur í Gimli í Kanada, og Þórhallur Blöndal, ættaður úr Húnavatnssýslu. Leiðin lá til Belgíu þar sem Bretar, Belgar og Frakkar höfðu barist við Þjóðverja síðan í október 1914.
Íslendingar og fyrsta gasárás heimsstyrjaldarinnar
Þann 5. apríl 1915 ganga Vestur-Íslendingar fylktu liði í hópi kanadískra hermanna í átt að belgíska bænum Ypres. Þar komu Kanadamenn sér fyrir á víglínunni 17. apríl og tóku sér stöðu skammt frá þorpinu St. Julien. Kanadíska herdeildin var rétt búin að koma sér fyrir þegar Þjóðverjar létu til skarar skríða 22. apríl og beittu í fyrsta sinn gasi á vesturvígstöðvunum. Dagurinn var hlýr og sólríkur, hlé var á stórskotahríð Þjóðverja sem staðið hafði linnulaust í eina viku. En hlé Þjóðverja var aðeins lognið á undan storminum. Klukkan þrjú um eftirmiðdaginn hleyptu þeir af fallbyssum sínum í gríð og erg. Skothríðin beindist gegn allri víglínunni í kringum Ypres og íbúar bæjarins yfirgáfu hann sem mest þeir máttu á meðan kanadísku hermennirnir leituðu að skjóli hvar sem þeir gátu.
Fæstir komust langt og hundruð af líflausum og hreyfingarlausum líkömum lágu á víð og dreif um völlinn. Á hverri stundu var búist við gagnárás Þjóðverja sem voru ekki langt undan.
Í ringulreiðinni sem hafði skapast hófu Þjóðverjar fyrstu gasárás stríðsins. Grængult gasský, 6 kílómetrar að breidd, barst með vindi yfir víglínu franskrar herdeildar sem skipuð var hermönnum frá Alsír. Þeir köfnuðu eða flúðu, augu þeirra og háls brunnu af klór. Kanadamenn gripu til gagnsókna þegar víglína Alsírmanna hrundi og réðust gegn Þjóðverjum í nokkur skipti og urðu fyrir miklu mannfalli en stöðvuðu framsókn Þjóðverja. Þegar kvöldaði héldu kanadísku hersveitirnar rétt svo víglínunni. Eftir miðnætti 23. apríl sóttu kanadísk herfylki fram í myrkri en mættu mun meiri kúlnahríð en þeir höfðu upplifað áður. Fæstir komust langt og hundruð af líflausum og hreyfingarlausum líkömum lágu á víð og dreif um völlinn. Á hverri stundu var búist við gagnárás Þjóðverja sem voru ekki langt undan.
Einn Íslendinganna sem tóku þátt í slagnum 22. og 23. apríl var Sigurður Ársæll Hreinsson, fæddur 1892 að Nýlendu í Gullbringusýslu. Sigurður lýsti hvernig kanadísku hermennirnir sáu reyk liggja með jörðinni að hermönnum frá Alsír og hvernig Afríkubúarnir engdust sundur og saman og flúðu undan gasárás Þjóðverja. Sigurður var í gagnárás Kanada og komst ósærður úr henni. Hann var í skotgröf yfir nóttina en um morguninn byrjaði stórskotahríð Þjóðverja á nýjan leik og harðnaði fljótt. Í þeirri hrinu særðist Sigurður á vinstri handlegg og kúla „rann upp handlegginn og tók sundur aflsinina og lífæðina.“ Sigurður varð sjálfur að binda um sárið og reyrði utan um handlegginn til þess að stöðva blóðrásina.
Upphaflega höfðu sextán hundruð kanadískir hermenn sótt fram en aðeins nokkur hundruð svöruðu nafnakalli. Ekki var hægt að komast í burtu og mátti Sigurður bíða í skotgröfunum með félögum sínum þangað til myrkur komst á. Hann lagði af stað í myrkri í átt að litlum kofa, 2000 metra leið. Sigurður komst hálfa leið en þá leið yfir hann. Hve lengi hann lá þar vissi hann ekki en loks kom hermaður og hjálpaði Sigurði á fætur; þá leið yfir hann aftur. Sigurður var borinn burtu frá víglínunni; þar vissi hann fyrst af sér. Þremur dögum seinna er hann kominn særður á sjúkrahús í London, þar var hann 3 mánuði en sárið tók sig upp og fór að blæða aftur. Var hann þá nærri dauður og var handleggurinn skorinn upp og þumalfingurinn tekinn af vinstri hendi.
Margir hermannanna migu í klútana eftir að þeim var sagt að í hlandinu gæti falist vörn gegn gasinu en það hjálpaði lítið til.
Eftir ósköpin þann 23. apríl lágu mörg hundruð særðra um allt á vígvellinum – þeir sem gátu sig hreyft ýmist skriðu eða skröltu til baka. Þórhallur Blöndal, einn Íslendinganna lýsir; „sjúkrastöðvar voru yfirfullar af særðum hermönnum, ýmist af skotsárum eða þeim sem þjáðust innvortis af völdum gassins sem leikið hafði um vígvöllinn. Þeir köstuðu upp grænu slími liggjandi á gólfinu þar sem þeir engdust sundur og saman hjálparlausir. Lungun fylltust af vatni, margir drukknuðu í eigin vökva. Fyrir utan sjúkrastöðvarnar lágu látnir og þeir sem ekki var hægt að hjálpa og biðu dauðans. Hermenn í sprengjulosti ráfuðu um kjökrandi og skjálfandi.“
Íslendingur deyr
Morguninn 24. apríl hefja Þjóðverjar ákafa stórskotahríð sem eyðilagði mikið af kanadísku skotgröfunum. Henni fylgdi gasárás gegn Kanadamönnum á eins kílómetra svæði. Til þess að verja sig fyrir gasinu settu hermennirnir raka klúta yfir munn og nef. Margir hermannanna migu í klútana eftir að þeim var sagt að í hlandinu gæti falist vörn gegn gasinu en það hjálpaði lítið til. Augu og háls brunnu undan eitrinu og hermennirnir féllu þar sem þeir stóðu í skotgröfunum mikið kvaldir og margir köfnuðu.
Gasið lék um djúpar skotgrafir í tvær klukkustundir og þeir sem ekki komust í burtu létust – þeir sem reyndu að komast úr skotgröfunum hættu á að verða fyrir skoti. Á meðan sótti fótgöngulið Þjóðverja fram betur búið til þess að verjast gasinu sem lék um vígvöllinn. Í þessum átökum varð Ástýr Guðjónsson fyrir skoti í höfuðið. Þrjú skeyti voru send heim til Kanada, það fyrsta, 24. Apríl, tilkynnti að Ástýr væri alvarlega sár. Tvö skeyti voru send 3. maí, það fyrra til þess að tilkynna að Ástýr væri látinn, það seinna til þess að staðfesta dauða hans.
Fjórir teknir til fanga
Um hádegisbil þann 24. apríl voru kanadísku hermennirnir einangraðir í smáhópum og höfðu engin samskipti við höfuðstöðvar og máttu þola sífellda stórskotahríð, í þeim hópi var leyniskyttan Jóhann V. Austmann ráðist var á hóp Jóhanns úr öllum áttum. Jóhann og félagar hans börðust þangað til aðeins 15 voru eftir af 125 í herflokknum, og þeir sem lifðu voru allir meira eða minna særðir. Þjóðverjar héldu áfram sókn sinni 25. apríl og þeir sem komust undan Þjóðverjum voru illa leiknir eftir 85 klukkustundir í skotgröfum án svefns, vatns og matar. Verst þótti mörgum að skilja særða félaga sína eftir þegar hörfað var undan þunga þýsku sóknarinnar. Fjórir Íslendingar voru teknir til fanga: Pétur Ívarsson, veikur af gasi, og Jóel Björnsson, þeirra beið fangavist þangað til styrjöldinni lauk 1918, hinir tveir voru Sigursteinn Hólm Sigurðsson sem lést í fangabúðunum úr spánsku veikinni 1918 og Jóhann V. Austmann, hann komst heim 1919 eftir illan leik.
Sennilega voru sextán Íslendingar í annarri orrustunni við Ypres. Stríðinu var hins vegar hvergi nærri lokið. 145 Vestur-Íslendingar létust á vígvellinum, af sárum sínum, vegna gasárása eða veikinda.
Höfundur vinnur að bók um sögu vesturíslenskra hermanna í fyrri heimsstyrjöld og er sjálfstætt starfandi sérfræðingur á sviði varnar- og öryggismála.