Humarinn er nánast útdauður á Íslandsmiðum. Humarstofninn er kominn undir varúðarmörk og búið að friða helstu humarslóðirnar. Veiðar á humri byrjuðu ekki að ráði fyrr en upp úr 1950 þannig að þetta tók okkur ekki nema 70 ár.
„Stofnstærð humars lækkaði um 27% á tímabilinu 2016-2020.“*
„Humarstofninn er talinn undir líklegum varúðarmörkum ...“*
*Heimild: Ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf 2021, Hafrannsóknastofnun, 28. janúar 2021.
Humarinn lifir að meðaltali í 5-10 ár og verður ekki kynþroska fyrr en fjögurra ára. Hann ferðast ekki mikið eða langt. Þetta höfum við vitað lengi og því hafa humarveiðiskipin leitað á sömu mið um áraraðir.
Nú er hins vegar svo komið að sjávarbotn humarslóða við Ísland er orðinn eins og eyðimörk eftir humartroll. Humarinn á erfitt uppdráttar við slíkar aðstæður sem sést einna best á því að nú veiðist aðeins stærri og eldri humar. Á því er einföld skýring: Það er bara enginn smærri humar. Hann nær sér ekki á strik.
Hryðjuverk gegn humarstofninum
Maður hefði haldið að humarinn yrði alfriðaður á meðan rannsakað yrði hvort skaðinn á hafsbotninum og stofninum er óafturkræfur eða hvort við getum lagfært eitthvað af þessum mannlegu hryðjuverkum á humarstofninum og heimkynnum hans, en nei.
Þrátt fyrir þessar upplýsingar og ráðstafanir gaf Hafró út rannsókna- eða könnunarkvóta fyrir vertíðina 2019 upp á 235 tonn, árið 2020 uppá 214 tonn og 143 tonn fyrir vertíðina 2021. Þetta er til að rannsaka megi samsetningu, dreifingu og stærð stofnsins.
Það er sjálfsagt að gefa út könnunar- og rannsóknakvóta en ég er með athugasemdir sem ég treysti á að Hafró taki til skoðunar.
- Rannsóknakvóti á að vera mjög í hófi. Þetta er óhóflegt magn. Aðrar umhverfisvænni aðferðir eru til við rannsóknir á humarstofni.
- Hafró á að sjá um veiðar rannsóknakvóta - ekki úthluta honum til handhafa kvótans sem sjálfir bera mesta ábyrgð á skelfilegri stöðu humarsins og hans heimaslóða.
- Nýta á betur neðansjávarmyndavélar við rannsóknir og humarholumyndatökur.
- Hafró átti að hefja fyrir löngu hljóðmerkjamælingar. Þær hófust 2020.
- Rannsóknakvótann á að ná í með gildrum en ekki trolli.
- Hafró átti að vera fyrir löngu byrjuð að rannsaka mismunandi veiðiaðferðir á humri og veiðarfærum s.s. gildrum.
Viðvörunarbjöllur hringdu árum saman
Þegar kvótakerfið var sett á og Hafrannsóknastofnun falið að rannsaka og gefa ráð um nýtingu til að tryggja sjálfbærni fiskveiða þá voru markmiðin háleit: Að vernda fiskistofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra, treysta atvinnu og efla byggð í landinu. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að þessi markmið hafa aldrei náðst og reyndar höfum við aldrei verið fjær þeim markmiðum varðandi einstakar tegundir eins og humarinn, rækju, þorskinn, loðnuna o.fl.
Kvótakerfinu og Hafró verður þó ekki einu kennt um. Hafrannsóknir eru ónákvæm vísindi. Það hafa orðið breytingar á lífríki hafsins, hitafarsbreytingar, ástand fiskistofna á hafsvæðum í kringum okkur og veiðigeta stóru skipanna gjörbreyst. En sökum fjárskorts hefur Hafró ekki getað sinnt þeim rannsóknum sem það vill og þarf að sinna.
Enda er enginn sjáanlegur munur á veiðum á humri frá því kvótakerfinu var komið á. Frá 1984-2016 hefur meðaltalsafli á humri á hverri vertíð verið rétt rúm 1700 tonn. Allt þar til 2013 var veitt fram yfir ráðgjöf. Síðan þá hefur ekki náðst að fullnýta útgefnar heimildir. Fiskveiðiárið 2016/2017 var tillaga Hafró 1300 tonn, náðust tæp 1200 tonn upp úr sjó. 2017/2018 var tillagan 1150 tonn - þá náðust um 800 tonn upp úr sjó. Viðvörunarbjöllurnar voru löngu farnar að hringja.
Eflum sjálfstæði Hafró
Þetta er grafalvarlegt mál og alltof seint í rassinn gripið. Undanfarin ár hefur veiðitímabilið m.a.s. lengst um nokkra mánuði en samt næst ekki að veiða upp í ráðgjöfina. Ég er hrædd um að við þurfum að horfast í augu við óafturkræfar breytingar. Ganga strax í rannsóknir á því hvernig við getum bætt úr. Við gerum það ekki með núverandi tilhögun könnunarkvótans heldur eyðileggjum enn meira.
Það verður að ráðast í breytingar á hafrannsóknum við Ísland. Fyrst þyrfti að gera úttekt á starfsháttum Hafró. Við eigum frábæra vísindamenn þar innanborðs en stjórnendur eru undir hælnum á ráðuneyti og ráðherra sjávarútvegsmála. Þar næst þurfum við að tryggja nægt fjármagn til rannsóknanna, og víkka út rannsóknir sem nái þá til ástands hafsbotns, veiðiaðferða og veiðarfæra. Að lokum verður að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar. Það er hægt með ýmsum hætti, mér líst best á að hún verði sjálfstæð rannsókna- og vísindastofnun undir Háskóla Íslands og ráðgjafanefndin, sem er samsett að meirihluta af sérhagsmunaaðilum innan greinarinnar, lögð niður.
Hvort sem við erum friðunar- eða nýtingarsinnar þá getum við öll sammælst um að núverandi staða er óboðleg. Humarinn við Íslandsstrendur er í hættu og ef viljum neyta hans án þess að fá óbragð í munninn þá verður að bregðast við strax.
Höfundur er oddviti Pírata í Suðurkjördæmi.
Heimildir:
Tækni- og ráðgjafaskýrslur Hafró, ársskýrslur Hafró og hafro.is, töluleg gögn frá Fiskistofu, Marinetraffic.com, lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og grein á mbl.is.