Istanbúl-samningurinn er einn mikilvægasti alþjóðlegi samningur sem Ísland á aðild að. Samningurinn er samningur allra 47 aðildarríkja Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn hvers kyns ofbeldi gagnvart konum, heimilisofbeldi og nauðungarhjónaböndum. Næstkomandi maí verður haldið upp á 10 ára afmæli samningsins en hann var samþykktur í Tyrklandi á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og tók gildi 1. ágúst 2014. Ísland samþykkti samninginn strax en fullgilti hann svo í apríl 2018 á vettvangi Evrópuráðsins í Strassborg. Og það var virkilega ánægjulegt að vera viðstödd í Strassborg þegar velferðarráðherra Íslands undirritaði þá fullgildingu.
Í samningnum er m.a. farið yfir réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi. Samkvæmt Istanbúl- samningnum eiga stjórnvöld aðildarríkjanna að veita vernd gegn ofbeldi, til dæmis með rekstri kvennaathvarfa, starfrækslu neyðarnúmers og sinna forvörnum gegn ofbeldi. Það má líka segja að Istanbúl-samningurinn hafi reynst frábærlega sem gríðarlega öflugt tæki til að bregðast við #Metoo bylgjunni.
Það er því ótrúlega dapurleg þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár í nokkrum aðildarríkjum Evrópuráðsins, þar sem hinn einstaki samningur til verndar konum og stúlkum sem 47 ríki komu sér saman um, er orðin uppspretta menningarstríðs og notaður sem olía á eld pópulískra stjórnmálaafla og átakavettvangur milli fyrrverandi Austur-Evrópuríkja og Vestur-Evrópuríkja.
Eitt af öðru hafa fyrrum Austur-Evrópuríki snúið baki við samningnum og fullyrða að það muni rýra útgáfu þeirra af „fjölskyldugildum“ sem er ekkert annað en and-feminískur og andúð á LBQT-fólki útúrsnúningur settur fram í pólitískum tilgangi.
Ástæður andúðar gegn Istanbúl-samningnum
Það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir líf milljónir kvenna og stúlkna í aðildarríkjum Evrópuráðsins ef hótanir aðildarríkja Evrópuráðsins eins og á borð við Pólland, Tyrkland, Slóvakíu eða Ungverjaland um að segja sig frá þessum samningi verða að veruleika.
Mótlætið snýst um merkingardeilu sem var alls ekki aðaláhersla höfunda skjalsins fyrir 10 árum um hvernig, nákvæmlega á að skilgreina kyn og pólitískan útúrsnúning um „normaliseringu“ á samkynhneigð sem andstæðingar LBQT-samfélagsins nota í vafasömum og alvarlegum tilgangi til að draga úr mannréttindum LBQT-fólks.
Andstaðan gegn Istanbúl-sáttmálanum er því þannig drifin áfram af andúð á gildum sem Evrópuráðsríkin hafa komið sér saman um í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar sem grundvallast á virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum og lögum og reglum.
„Samningurinn er gegn ofbeldi gegn konum og engu öðru.“ ítrekaði Daniel Höltgen, talsmaður Evrópuráðsins í viðtali við Politico í gær og hélt áfram; „Þetta er ekki bara andstaða gegn Istanbúl-sáttmálanum, þetta er líka and-Evrópu-og and-ESB-látbragð. Þetta eru afturhaldsöfl og trúarofstækisöfl sem eru gegn framsýni og gegn mannréttindum í Evrópu.“
Hvað eigum við að gera?
Þessi vaxandi andúð gegn réttindum kvenna og stúlkna í Evrópuráðsríkjunum ber að taka mjög alvarlega. Við þingmenn Alþingis eigum að láta í okkur heyra þegar svona viðlíka atlaga er gerð að réttindum kvenna og stúlkna í nágrannaþjóðum okkar. Ég hélt erindi á málþingi í Ekatarinuborg í Rússlandi í janúar 2020 með rússneskum embættismönnum; dómurum, umboðsmönnum sjálfstjórnarhéraða og borgarstjóra borgarinnar. Ég fundaði svo með sendiherra Póllands hér á landi, í júlí síðastliðnum til að ræða stöðuna þar í landi og til að koma alvarlegum athugasemdum á framfæri í kjölfar þess að Pólland hafði þá tilkynnt um að draga sig út úr Istanbúlsamningnum. Og ég hef nú sent bréf til sendiherra Tyrklands gagnvart Íslandi og formanni landsdeildar Tyrkja í Evrópuráðsþinginu þar sem ég mótmæli fyrirætlunum Tyrkja að draga sig frá Istanbúl-samningnum.
Með því að mótmæla andúð gegn kvenréttindum í Evrópuráðsríkjum, erum við að taka afstöðu með lífum og heilsu kvenna og stúlkna í þessum ríkjum. Það er samstaða með mannréttindum sem við eigum alltaf að sýna. Allstaðar.
Höfundur er þingmaður og fyrrverandi varaforseti Evrópuráðsþingsins.